14.12.1951
Neðri deild: 44. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í C-deild Alþingistíðinda. (2704)

90. mál, Búnaðarbanki Íslands

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skrifaði undir nál. með fyrirvara, og mér finnst rétt að gera nokkra grein fyrir afstöðu minni til málsins, þar sem ég tel mjög óeðlilegt, að ekki skuli vera gert eitt mál úr þessum þremur.

Hv. 1. flm. tók fram, að eðlilegt hefði verið að búa til eitt mál úr þessum tveimur, sem hér eru á dagskrá í dag, en viðurkenndi aftur á móti, að þriðja málið hefði nokkra sérstöðu.

Ég tel, að mjög erfitt verði að fá þessar 5 millj., sem gert er ráð fyrir í frv., og eins er það mjög hæpið, að samkomulag náist um það, að búfé verði tekið gilt sem veð. Þess vegna hefði ég talið eðlilegast, að n. hefði tekið málið aftur til athugunar, því að mikil hætta er á, að málið verði ágreiningsefni hér innan þingsins í því formi, sem það liggur nú fyrir.

Um það, sem hv. 1. flm. sagði, að bankarnir hefðu ekki fengizt til þess að veita lán til landbúnaðarins, enda þótt heimild væri til þess í lögunum um ræktunarsjóð, þá er ástæðan sú að mínum dómi, að sjóðinn hefur skort fé til þess að reka þá miklu lánastarfsemi, sem honum er ætluð lögum samkvæmt. Í raun og veru hefði verið bezt fyrir framgang málsins, að ríkisstj. hefði tekið þessi þrjú mál upp, samræmt þau og flutt þau síðan sem eitt mál.

Eins og ég gat um áðan, þá mun ganga mjög erfiðlega að fá því framgengt, að búfé verði viðurkennt sem fullgilt veð, og þarf því að undirbúa málið rækilega. Það hefur ekkert verið gert af hálfu ríkisstj. í þessum málum. Réttast hefði verið, að stj. hefði tryggt hönkunum fé af tekjuafgangi þessa árs til þessarar starfsemi, í stað þess að frv. eru flutt um það af einstökum þm., og það hefði verið miklu betra, að landbn. hefði tekið þessi mál fyrir og búið til úr þeim eitt mál og lagt það síðan fyrir Alþ.

Í sambandi við ræktunarsjóð má geta þess, að ástæðan til þess, að sjóðinn skortir fé, er sú, að ákvæðunum í lögunum um lánsfé til hans og ákvæðunum um framlag ríkissjóðs hefur ekki verið fylgt nema að nokkru leyti. Þess vegna skortir sjóðinn fé. Þetta er stóra atriðið í þessu máli.

Ég vil að lokum geta þess, að ég mun greiða atkvæði með þessu frv., en óska, að n. taki það aftur til athugunar.