06.11.1951
Neðri deild: 23. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í C-deild Alþingistíðinda. (2715)

92. mál, raforkulög

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Með þessu frv. höfum við flm. þess leyft okkur að leggja til, að ákveðið verði með l., að nokkru meira af fé raforkusjóðs en hingað til verði eftirleiðis varið til að veita lán til einkarafstöðva í sveitum, eða nánar tiltekið 1/3 þess fjár, sem lánað er. Það var í öndverðu ætlun manna, að hlutverk raforkusjóðs væri að vinna að því að útbreiða rafmagnið um byggðir landsins, en við ætlumst til, að það verði hér eftir betur tryggt en verið hefur.

Í raforkulögunum frá 1946 er svo ákveðið, að ríkissjóður greiði raforkusjóði árlega 2 millj. kr., og hefur svo verið síðan. Í 35. gr. raforkulaganna, sem raunar hefur verið breytt síðan með l. frá 1949, er nánar ákveðið um starfsemi sjóðsins. Þar segir svo:

„1. Úr raforkusjóði má veita rafmagnsveitum ríkisins lán, sem veitast til allt að 30 ára, til að koma upp tilteknum mannvirkjum.

2. Úr raforkusjóði má einnig veita rafmagnsveitum ríkisins rekstrarlán og bráðabirgðalán til skemmri tíma, þar á meðal til að greiða rekstrarhalla, sem verða kann af mannvirkjum fyrstu árin eftir að þau eru gerð.

3. Úr raforkusjóði má og veita einstökum bændum, sem einir eða fleiri saman reisa vatnsaflsrafstöðvar til heimilisnota utan þess svæðis. sem héraðsrafmagnsveitum er ætlað að ná til í náinni framtíð, lán úr raforkusjóði, að upphæð allt að 2/3 stofnkostnaðar viðkomandi vatnsvirkjana og línulagna heim að bæjarvegg. Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um lánskjör og skilyrði til lánveitinga.

4. Úr raforkusjóði má enn fremur veita bændum, sem eru svo í sveit settir sem um getur í 3. tölulið og ekki hafa aðstöðu til vatnsvirkjunar, lán til að koma upp mótorrafstöðvum á heimilum sínum, að upphæð allt að 3/5 stofnkostnaðar rafstöðvarinnar. Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um lánskjör og skilyrði til lánveitinga.“

Þannig er með þessari gr. starfssvið raforkusjóðs markað og gerð upptalning þeirra mannvirkja. sem ætlazt er til, að sjóðurinn geti veitt lán til.

Við flm. þessa frv. höfum kynnt okkur nokkuð, hvernig þessi grein laganna hefur verið framkvæmd undanfarið og hingað til og hvernig lánveitingum úr sjóðnum hefur verið háttað. Niðurstaðan er sú, að við höfum fengið þær upplýsingar, að úr raforkusjóði hafi til 30. sept. þetta ár verið veitt lán samtals að upphæð 11½ millj. kr. Af þessari upphæð er samtals hátt á 11. milljón, eða nánar tiltekið 95%, sem hefur verið veitt samkvæmt 1.–2. lið 35. gr. l., þ. e. a. s. til þess að koma upp almennum rafveitum og mannvirkjum í því sambandi. En hitt er aðeins um 600 þús. kr., eða 5% af upphæðinni, sem varið hefur verið til lána til einkarafstöðva á sveitabýlum samkvæmt 3. og 4. lið gr. Það er að segja, sá hluti byggðarinnar, sem ekki getur notið rafmagnsins frá hinum stóru orkuverum, hefur á þessum tíma ekki fengið nema 5% af þeim lánum, sem raforkusjóður hefur veitt. Nú kemur það til athugunar, þegar þessar tölur liggja fyrir, hvort það muni vera eðlilegt, að starfsemi sjóðsins sé á þennan hátt hagað, og hvort það muni vera rétt, að sá hluti starfseminnar, sem hér um ræðir, þ. e. a. s. útbreiðsla rafmagnsins í þeim hlutum landsins, sem ekki geta notið hinna stóru rafveitna, fái svo lítið í sinn hlut sem raun ber vitni samkvæmt þessum upplýsingum. Í því sambandi vil ég leyfa mér að vitna til þess, að raforkumálastjóri, sem ætla má að sé allra manna kunnugastur þessum málum, flutti á síðasta búnaðarþingi, sem haldið var snemma á þessu ári, erindi um raforkumál sveitanna. Í þessu erindi raforkumálastjóra koma fram ýmsar mjög eftirtektarverðar upplýsingar, og ég geri ráð fyrir, að um sumar þær staðreyndir, sem hann þar dregur fram, hafi mönnum ef til vill fyrir þann tíma ekki almennt verið kunnugt. Raforkumálastjóri upplýsir í þessu erindi, að af sveitabýlum landsins séu nú 20%, sem þegar hafi fengið rafmagn, og eru þá ekki meðtalin þau býli, sem á sínum tíma fengu rafmagn frá vindrafstöðvum, en þau voru allmörg, enda hafa þessar vindrafstöðvar reynzt misjafnlega og ekki úr því skorið enn, hver not kunna að verða af þeim framvegis, þó að hins vegar verði ekki talið útilokað, að þau kunni að verða einhver. En um hin býlin, sem ekki hafa rafmagn, er svo ástatt samkvæmt því, sem raforkumálastjóri segir, að gera má ráð fyrir, að rúmur helmingur þeirra, eða 2300, fái þegar þeirra tími kemur rafmagn frá hinum stóru orkuverum í gegnum þær sameiginlegu veitur, sem lagðar hafa verið í ýmsum héruðum landsins og verið er að leggja. En þó að að því komi væntanlega einhvern tíma, að þessi 2300 býli fái rafmagn frá rafveitum, þá eru samt eftir 2100 býli, sem hann gerir ekki ráð fyrir að fái rafmagn á þennan hátt. Raforkumálastjóri gerir ekki ráð fyrir, að þessi 2100 býli muni fá rafmagn frá stórum orkuverum í gegnum almenningsveitur. Ef þessi 2100 býli eiga einhvern tíma að fá rafmagn, þá verður það þess vegna — samkv. upplýsingum raforkumálastjóra — að gerast á annan hátt en með samveitum og stórum orkuverum. Það verður að gerast með því, að þessi býli — eitt og eitt eða fleiri saman — komi sér upp smástöðvum og fái rafmagn frá þeim, og raforkumálastjóri gerir ráð fyrir því, að þannig hagi til um 600 af þessum býlum, að þar séu skilyrði frá náttúrunnar hendi til þess að koma upp vatnsaflsvirkjun, en á 1500 býlum muni slík skilyrði ekki vera fyrir hendi, og verður þá að leita til annarra ráða, sem sé að koma upp mótorrafstöðvum.

Það, sem ég vildi leyfa mér að benda á með því að rekja þessar tölur og þær upplýsingar, sem í þeim felast, er það, að þau býli, sem ekki geta fengið rafmagn frá samveitum, eru svo mörg hlutfallslega við hin, sem ætlað er að fái rafmagn frá samveitum, að ef nokkuð verulega á að geta unnizt á í þá átt að koma rafmagninu inn á þessi býli, þá verður að vinna að því með meiri krafti en hingað til hefur verið gert. Það verður ekki talið eðlilegt, ef raforkusjóður á að starfa að því að útbreiða rafmagnið um byggðir landsins, að það verði svo eftirleiðis eins og hingað til, að ekki nema 5% af þeim lánum, sem sjóðurinn veitir árlega, verði varið til einkarafstöðva eða til þess að útbreiða rafmagnið til nálega helmings byggðarinnar. Hér verður að verða breyt. á. Menn hafa haft ýmsar hugmyndir um raforkumálin og útbreiðslu rafmagnsins. og það er enginn vafi á því, að ýmsir hafa gert ráð fyrir því, að með samveitunum frá hinum stóru stöðvum væri hægt að útbreiða rafmagnið miklu meira um byggðirnar heldur en raun er á. Þessar upplýsingar raforkumálastjórans bregða hins vegar upp skýru ljósi yfir staðreyndirnar í þessu máli, og þær sýna, að það er ekki eðlilegt eða sanngjarnt að haga því svo sem verið hefur til þessa, að svo sáralitlu af fé sjóðsins sé varið til þessa hluta starfseminnar. Það er alveg sýnilegt, að ef ekki verður breyt. á, þá verður ekki um neinn fyrirsjáanlegan tíma komizt svo heitið geti verulega áleiðis í þá átt að breiða rafmagnið út um þennan hluta sveitabyggðarinnar.

Við flm. þessa frv. höfum lagt til, að inn í 35. gr. raforkulaganna, eins og hún er nú, verði sett ákvæði um það, að af því fé, sem lánað er úr sjóðnum, skuli verja eigi minna en þriðjungi til lána samkvæmt 3. og 4. tölul. gr., þ. e. a. s. til einkarafstöðva. Það má alltaf um það deila, hvað sé sanngjarnt í því efni, hvaða tölur skuli nefna eða hvaða hlutföll, en ef miðað er við það framlag, sem nú er veitt úr sjóðnum, þá væri það samkvæmt þessu 600–700 þús. kr. á ári, sem varið væri til þessara stöðva, en auðvitað þeim mun meira sem það framlag kynni að aukast meira, og uppi eru nú á Alþ. till. um, að það framlag verði aukið. Ef farið er eftir þeim áætlunum, sem raforkumálastjóri hefur gert og m. a. eru birtar í erindi því, sem ég áðan nefndi, um kostnað við útbreiðslu rafmagnsins bæði gegnum samveitur og einkarafstöðvar, þá má gera ráð fyrir því, að sú upphæð, sem ég hef nefnt, mundi nægja til þess að veita hámarkslán samkvæmt l. til 16 eða 17 vatnsaflsstöðva á ári og til helmingi fleiri mótorrafstöðva, eftir því sem raforkumálastjóri áætlar verð þeirra. Að vísu má gera ráð fyrir, að ekki verði alltaf veitt hámarkslán, en hins vegar er þess að gæta, að stofnkostnaður slíkra stöðva er sennilega nokkru hærri nú en hann var þegar hann var áætlaður af raforkumálastjóra fyrri hluta þessa árs. En hvað sem því líður. þá er það í rauninni ekki mikið, sem farið er fram á, þó að gengið væri út frá því, að af þessum 2100 býlum fengju árlega 16—17 rafmagn. og nokkru fleiri, ef þau kæmu sér upp mótorrafstöðvum.

Ég vil mega vænta þess fyrir hönd okkar flm., að þessu frv. verði tekið með skilningi af hv. þm. Það er eitt af brennandi áhugamálum fólksins úti um hinar dreifðu byggðir landsins, að rafmagnið verði breitt út um landið svo fljótt sem verða má, og þeir, sem búa þar, sem byggðin er strjálust og minnstar líkur fyrir samveitum, hafa engu minni þörf fyrir raforkuna en ýmsir aðrir og gera sér það ljóst. Það er að vísu svo, að ekki er rétt að gefa mönnum vonir um meiri og skjótari aðgerðir í raforkumálunum en orðið geta, en það fer eftir efnahag þjóðarinnar á hverjum tíma. En hitt er bersýnilega rétt, að við ákvörðun slíkra framkvæmda sé tekið sem jafnast tillit til allra, en ekki sumir settir hjá um ófyrirsjáanlegan tíma, og því er þetta frv. flutt. — Ég vil svo leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og iðnn.