13.12.1951
Neðri deild: 42. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í C-deild Alþingistíðinda. (2724)

99. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Landbn. hefur rætt frv. það, sem hér liggur fyrir, og eins og tekið er fram í nál. hennar, hefur hún sent það til stjórnar Búnaðarbanka Íslands og fengið um það þá umsögn, að bankinn mæli með frv. með nokkrum breytingum, eins og þeirri, að bankinn vill ekki ganga inn á, að síðasta málsgr. 1. gr. frv. standi áfram, ef breyt. þær verða ákveðnar, sem hér er farið fram á. Hefur landbn. fallizt á þá breyt. og flytur brtt. í samræmi við það. — Í öðru lagi hefur orðið samkomulag um það í n. að breyta um hlutfall það. sem stungið er upp á í frv. um lán til verkfæra, þannig að þar gildi ekki kaupverðið, heldur skattmatsverð, og að það sé lánað út á 2/5 hluta skattmatsverðsins, en það er einfaldasta leiðin, og er n. öll sammála um að fylgja þeirri brtt.

Um málið í heild sinni skal ég ekki segja mikið á þessu stigi, vegna þess að ég fór nokkuð inn á það við 1. umr. málsins. En aðalatriði þessa máls er sú aðkallandi þörf, sem á því er að veita landbúnaðinum lán út á bústofninn og verkfærin. Í öðru lagi er svo verið að gera tilraun með, hvort ekki væri hægt að örva sparifjársöfnunina, ef ákveðið væri, að ekki þyrfti að telja fram til skatts og ekki greiða tekjuskatt né útsvar af því fé, sem væri lagt inn. Það má segja, að hér sé stórt atriði og nýjung, en menn greinir á um, hvort þetta hafi nokkuð að segja. Sumir vilja halda því fram, að 3½% vextir hafi enga þýðingu. Aðrir halda því fram, að þetta geti orðið til að örva sparifjársöfnunina. Það þarf ekki mörg ár til að leiða í ljós, hvort þetta hefur nokkra þýðingu. Það þarf lög og reynslu. — Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta mál, en vænti þess, að hv. d. taki till. n. vel, því að hér er um aðkallandi mál að ræða.