13.12.1951
Neðri deild: 42. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í C-deild Alþingistíðinda. (2729)

99. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Mér finnst rétt að gera ofur litla grein fyrir þeim málum, sem legið hafa fyrir hv. landbn., eins og þeim, er nú komu til umr. hér í hv. þd. Það er þegar búið að skýra frá því. að fyrir n. lágu þrjú mál, að vísu mjög skyld, þó að þar hafi kannske verið um ólíkar leiðir að ræða til að ná því marki að auka fjármagn til landbúnaðarins. Allir eru á því máli, að fjárskortur landbúnaðarins sé allmikill og að úr því verði að bæta á þann hátt, sem bezt verði á kosið. Og öll þau frv., sem lágu fyrir landbn., fjölluðu um það atriði, að landbúnaðinum verði að sjá fyrir meira fjármagni. Það er að vísu mikið til í því, sem hv. 5. landsk. þm. sagði hér áðan. að okkur skorti e. t. v. ekki löggjöf fyrir landbúnaðinn, heldur skorti fjármagn. Vissar deildir Búnaðarbankans hafa mjög víðtæka þýðingu og heimild til þess að lána til allra mögulegra hluta, og vafasamt er, hvort ekki væri betra að takmarka starfsemi þeirra deilda við bankann og stofna til annarra, sem hefðu sérstakt takmark eða lánuðu aðeins til vissra hluta, þannig að þær greinar, sem um getur í þessu frv., sem fyrir liggur, yrðu ekki algerlega útundan, eins og oft hefur orðið sakir fjárskorts á undanförnum árum, þótt heimild hafi verið hjá bankanum til þess að lána til slíkra hluta, og vil ég þar nefna bæði til bústofnsauka og jarðakaupa.

Mér var það strax ljóst, að þessi frv., eins og þau eru, mundu tæplega komast í gegnum þingið óbreytt. Upphaflega voru þau af landbn. öll send stjórn Búnaðarbankans, sem mælti með þeim öllum, en sérstaklega fyrsta frv., á þskj. 77, þar sem flm. er hv. þm. Borgf., og það er eingöngu það frv., sem landbn. hefur fyrst og fremst staðið svo að segja einróma um, en um bæði hin frv. varð dálítill ágreiningur í n. Og það kom til orða hjá okkur oftar en einu sinni að búa til eitt frv. úr þessum frv. öllum, en um það varð ekki samkomulag, þannig að ég fyrir mitt leyti og n. yfirleitt var á því máli, að við skyldum láta þau koma hér öll til umr., ef það gæti orðið til þess, að úr þessu skapaðist eitt gott frv. og samkomulag næðist um lausn á þessum málum. Og ég fyrir mitt leyti mun gjarnan taka þessi mál til athugunar í n. ásamt hv. flm. þeirra, ef þeir gætu orðið ásáttir um einhverjar breyt. á frumvörpunum og málinu yrði einmitt á þann hátt tryggður framgangur á Alþingi.

Það ber ekki að neita því, að það frv., sem hér liggur fyrir til umr., hlýtur mjög að grípa inn í afgreiðslu máls, sem nú liggur fyrir hv. Ed., þ. e. frv. hv. þm. S-Þ. (KK) á þskj. 93. — Ég vildi senda þetta frv., sem hér er til umr., til umsagnar fleiri banka en Búnaðarbankans. vegna þess að ég tel, að ef þetta frv. nær fram að ganga, þá sé það svo víðtækt, að það hljóti að grípa mjög inn í starfsemi annarra banka og sparisjóða í landinu. Úr því varð þó ekki, en ég hygg, að í þessum umr. hafi komið fram dálítill rökstuðningur fyrir því, að .slíkt geti verið dálítið óheppilegt vegna annarra lánsstofnana, ef fé væri til hjá mönnum, sem þetta frv. byggir sínar fjáröflunarleiðir á. Ég skal ekkert segja um, hvort fé er til staðar hjá almenningi, en tel þó, eftir því sem ég hef heyrt í þessu efni um lánsmöguleika einstaklinga án þess að leita til lánsstofnana, að það sé dálitlum vafa bundið, að þeir séu svo miklir, að að notum gæti komið fyrir landbúnaðinn að verulegu leyti. En ég vil vera með þessu frv., ef það gæti orðið til þess, að eitthvað meira fengist af fé til landbúnaðarins en við eigum nú við að búa. Og óskandi væri, að við gætum hér komizt niður á einhverjar lindir, sem við gætum veitt Búnaðarbanka Íslands og síðar gætu orðið landbúnaðinum á komandi tímum til mjög gagnlegra hluta.

Ég vil endurtaka það, að ég er reiðubúinn til þess, ef hv. flm. æskja, að þessi mál verði frekar rædd í n. ásamt þeim, og þá er ég líka reiðubúinn að styðja að því, að upp úr því megi koma það mál, sem allir geti sætt sig við. En eins og aðstæður voru í n. þegar þessi mál komu til umr., oftar en einu sinni, þá var slíkt ekki til staðar. Mér fannst það of mikill ábyrgðarhluti af okkur að svæfa öll þessi mál, þar sem þau eru mjög nauðsynleg, en fjalla um ólíkar leiðir að sama marki.