23.11.1951
Neðri deild: 32. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í C-deild Alþingistíðinda. (2757)

108. mál, útsvör

Pétur Ottesen:

Ég vil aðeins vekja athygli á því, að hér í þessu frv. er lagt til að breyta einu af megingrundvallaratriðunum, sem núverandi útsvarslöggjöf byggist á. Um alllangt árabil hafa gilt þau ákvæði í útsvarslöggjöfinni, að ekki væri heimilt að leggja á menn annars staðar en í heimilissveitum þeirra. En hins vegar hefur verið heimilt til þessa að skipta útsvörunum niður með tilliti til þess, að mennirnir reka atvinnu annars staðar en í sinni heimilissveit. Áður en útsvarslögunum var breytt í þetta horf, var orðinn svo mikill eltingarleikur við þá menn, sem stunduðu atvinnurekstur annars staðar en í sinni heimasveit, að svo erfitt var um útsvarsálagningu á slíkum stöðum, að það var ekki hægt í ýmsum tilfellum að leggja á þessa menn í sinni heimilissveit. Var svo mikið lagt á þá á þessum stöðum, að það var ekkert eftir. Þetta færðist sífellt í vöxt, svo að alls ekki var við unandi, og var því ákvæðunum breytt.

Nú er lagt til í þessu frv., að undantekning frá þessum ákvæðum laganna verði gerð, þegar um síldarsöltun er að ræða. En það leiðir af sjálfu sér, að það má færa fram gild rök fyrir því, að sama skuli gert varðandi hliðstæðan atvinnurekstur, t. d. hagnýtingu annarra fisktegunda o. fl. Um þetta ættu að gilda alveg sömu ákvæði. Auðvitað væri hægt að færa þetta út á öll þau svið, þar sem um atvinnurekstur utan heimilissveitar er að ræða, í hvaða mynd sem hann kynni að vera, og yrði þess sjálfsagt skammt að bíða, að þess yrði krafizt, ef þessi leið væri opnuð. — Ég vildi aðeins, um leið og þetta frv. fer í n., vekja athygli á þessu atriði og benda á þær ástæður, sem lágu til grundvallar því, að álagning útsvara á menn utan heimilissveitar var felld niður og breytt í það horf, sem nú er í útsvarslögunum. — Ég skal svo ekki fara um þetta fleiri orðum. En þetta er svo þýðingarmikið atriði, að það er vel þess vert, að því sé gaumur gefinn, áður en teknar eru ákvarðanir, sem stefna í gagnstæða átt.