26.11.1951
Neðri deild: 33. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í C-deild Alþingistíðinda. (2779)

120. mál, ferðaskrifstofa ríkisins

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Út af þessari fyrirspurn hv. þm. Hafnf. vil ég segja það, að ég hef ekki neinar upplýsingar frá neinum erlendum manni um, að hann hafi hætt við að koma hingað til lands vegna þess, að hér er einokun á þessu sviði. En hins vegar segir í grg., að ríkiseinokun á þessu sviði sem öðrum sé litin misjafnlega hýrum augum frá okkar viðskiptalöndum, og því sé sennilegt, ef fleiri ynnu að því en þessi ríkisstofnun að beina huga erlendra ferðamanna hingað til lands, að þá yrði af því sá árangur, að þeir yrðu fleiri í framtíðinni, sem sæktu landið heim. Það verður ekki fullyrt með ákveðnum dæmum neitt um þetta, en ég vil standa við það, sem ég hef þarna skrifað, að ég tel þetta sennilegt.

Það er kunnugt, að oft er um það rætt, að æskilegt sé að auka hingað komur erlendra ferðamanna. Sumir líta svo á, að Ísland hafi frá náttúrunnar hendi skilyrði til þess að verða ferðamannaland. Það vantar að vísu nauðsynleg skilyrði til þess, að hægt sé að taka sómasamlega á móti ferðamönnum, svo sem gistihús o. fl., en úr því hefur verið bætt nokkuð hin síðari ár, þannig að nokkru auðveldara er fyrir menn að ferðast um landið en áður var, en víða vantar að sjálfsögðu gististaði.

Eftir upplýsingum, sem ég hef fengið, eins og ég gat um í fyrri ræðu minni, þá þekkist það ekki í nágrannalöndum okkar, að það sé ríkiseinokun á þessu sviði. Það opinbera greiðir fyrir þessum málum og hefur leiðbeiningastarfsemi fyrir ferðamenn og vinnur að því að laða hugi þeirra að viðkomandi landi, en hins vegar eru fleiri ferðaskrifstofur starfandi, sem veita erlendum ferðamönnum jafnt og innlendum fyrirgreiðslu í þessum efnum. Hins vegar eru til lönd, sem liggja fjær okkur, þar sem þetta er eingöngu í höndum ríkisins; mun það vera á þeim svæðum, sem stundum eru nefnd austan járntjalds. Mér hefur skilizt stundum á hv. þm. Hafnf. og flokksbræðrum hans, að þeir telji ekki sérstaklega til fyrirmyndar stjórnarhætti þar, ekki í þessum efnum frekar en öðrum. En eins og ég gat um, hafa nágrannalönd okkar ekki tekið upp þetta fyrirkomulag, þó að þar hafi jafnaðarmenn löngum farið með völd.

Út af því, sem hv. þm. las upp úr ræðu eins framsóknarmanns á þingi 1935, þá vil ég benda á, að þótt þá væru sett l. um Ferðaskrifstofu ríkisins, þá störfuðu hér næstu árin fram að heimsstyrjöldinni skrifstofur, umboðsskrifstofur fyrir erlendar ferðaskrifstofur, sem höfðu haft hér áður slíka umboðsmenn, og varð ekki vart við, að það gæfist neitt illa. Þessi starfsemi féll niður á stríðsárunum, og líklega er ekki enn komin upp slík starfsemi utan við ferðaskrifstofuna, þó að það séu að vísu ákvæði í l., sem gera mögulegt að veita erlendum ferðaskrifstofum, sem áður höfðu hér umboðsmenn, leyfi til þess að hafa umboðsmenn hér áfram.

Ég sé ekki ástæðu til, út af því, sem fram kom hjá hv. þm. Hafnf., að hafa um þetta fleiri orð. Ég vil vænta þess, að máli þessu verði vel tekið í þeirri n., sem fær það til athugunar.