26.11.1951
Neðri deild: 33. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í C-deild Alþingistíðinda. (2782)

120. mál, ferðaskrifstofa ríkisins

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Í sambandi við ræðu hv. þm. Hafnf. um það, hversu vel hafi gefizt starfsemi ferðaskrifstofunnar, þá held ég, að það sé mjög erfitt að gera sér grein fyrir því, að þessi starfsemi hafi verið með þeim hætti, að ástæða sé til þess að láta hana halda áfram eins og hefur verið. Ég vil vekja athygli á því, að þegar starfandi er ferðaskrifstofa ríkisins með einkarétti, eins og verið hefur, þá hlýtur sú ábyrgð fyrst og fremst að hvíla á slíkri ríkisstofnun, að hún stuðli að eðlilegri þróun þessara mála í viðkomandi landi, þ. e. a. s. að stuðla að ferðamannastraum til landsins og öðru því, sem lýtur að því, að slíkur ferðamannastraumur verði tekjulind fyrir landsmenn og þjóðarbúið. Ég hygg, að það mundi koma í ljós, ef þetta væri athugað, að við höfum staðið mjög aftarlega í þessum málum eftir að Ferðaskrifstofa ríkisins tók til starfa, þegar vitað er, að nágrannalönd okkar hafa gert mjög stór átök til þess að draga erlenda ferðamenn til viðkomandi landa. Í nágrannalöndunum hefur verið varið gífurlegu fjármagni til að byggja hótel til að geta haft verulegar tekjur af ferðamannastraumnum. Þar hefur stórkostlegum fjárhæðum af Marshallfé verið varið til slíkra hótelbygginga, en hér á landi er engu slíku til að dreifa. Ég nefni þetta aðeins til þess að vekja athygli þeirrar n., sem fær málið til meðferðar, á því, að það er margt í þessum málum, sem er langt á eftir hjá okkur. Ég er þeirrar skoðunar, að það verði sízt af öllu til þess að spilla fyrir þessum málum að fá þau í hendur einstaklingum eins og áður. En hvað sem því líður, þá er nauðsyn skeleggari forustu í þessum málum en verið hefur meðan ferðaskrifstofan hefur starfað, og má vera, að fleiri beri sökina. Hér hafa verið gerðar tilraunir til að byggja hótel. Einu sinni átti að gera það með samstilltu átaki ríkisins, Reykjavíkurbæjar, Eimskipafélagsins og annarra aðila, en svo gerðist ekkert. Hins vegar er búið svo að þessum atvinnurekstri, að einkafjármagnið fæst ekki til þess að byggja upp hótelrekstur. En mér finnst ástæða til að gera sér grein fyrir því, að með því fyrirkomulagi, sem er hjá okkur á þessum málum, er sizt að vænta endurbóta á sviði þessara mála.