11.12.1951
Neðri deild: 41. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í C-deild Alþingistíðinda. (2794)

128. mál, húsaleiga

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. allshn. fyrir flutning á þessu frv. og leyfi mér að fylgja því úr hlaði með fáeinum orðum til viðbótar því, sem hv. frsm. sagði. Þannig er því háttað með okkur, þó að það megi virðast undarlegt, að við eigum engin almenn húsaleigulög til og höfum aldrei átt. Þegar borið er saman við jarðir í sveit, þá er það allt annað. Þær hafa haft ábúðal. frá 1880 og eldri ákvæði um þau mál. Þó að meiri hluti þjóðarinnar búi í þéttbýlinu, hafa enn engin húsaleigulög verið sett, og sýnir þetta greinileg afglöp í okkar lögum, þar sem málið varðar mikið afkomu fjölda manna. Um þessi íbúðarhúsamál má segja, að fátt hafi meiri áhrif varðandi afkomu fjölda manna, ekki sízt vegna þess, hve vönduð og dýr hús við verðum að reisa í þessari veðráttu, ekki vegna kuldans, heldur vegna hinnar votu og óstöðugu veðráttu, sem gerir það að verkum, að íbúðarhúsin þurfa að vera vönduð og dýr vegna þess, að við verðum að sækja efnið í þau til útlanda. Alþ. hefur haft afskipti af húsaleigumálunum og gert sérstakar ráðstafanir vegna umróts í þjóðfélaginu og gripið til sérstakra ráðstafana. Saga þessa máls ber með sér, að Alþ. hefur fyrst haft afskipti af þeim árið 1917, en sú löggjöf, sem þá var sett, var afnumin 10 árum síðar, eða 1927. Strax í byrjun heimsstyrjaldarinnar 1939 voru lögfest ákvæði um húsaleigu í sambandi við l. um gengisskráningu. Árið 1943 voru sett ýmis ákvæði um húsaleigu, sem giltu til 1950, er þau voru afnumin með l. í áföngum. Á árunum 1950–52 áttu l. að falla úr gildi, en þó standa þau eftir sem heimild fyrir sveitarstjórnir, ef þær vildu beita þeim. Nú hefur það sýnt sig t. d. hér í Reykjavík, sem ákvæðin snerta mest vegna fólksfjölda og aðstæðna, að bæjarstjórn Reykjavíkur hefur ekki óskað eftir því, að ákvæðin væru afnumin að öllu leyti eins og l. gerðu ráð fyrir. T. d. átti 14. maí s. l. vor að falla úr gildi ákvæði þessara l., sem snertir sérstaklega leigjendur, sem búa í sama húsi og húseigandinn. Bæjarstjórn Reykjavíkur óskaði þess, að ríkisstj. setti um þetta brbl. Sú lagaheimild, sem var í gildi, var ekki notuð. Ríkisstj. varð við þessu og setti um þetta brbl., sem hafa gengið í gegnum þessa d., en eru nú í Ed. Bæði þetta og hið almenna ástand í þessum efnum gerði það að verkum, að félmrn. leit svo á, að nauðsynlegt væri að taka húsaleigumálin ti1 meðferðar. Á Alþingi árið 1949 lagði þáv. félmrh. fram frv. um almenna húsaleigulöggjöf, en það frv. dagaði uppi á því þingi, og hefur þetta ekki verið tekið til meðferðar aftur fyrr en nú.

Þetta frv. byggist að verulegu leyti á ákvæðum í þessum efnum í mörgum löndum, sem líkt er ástatt um. Í vor var skipuð n. til þess að taka til meðferðar hin almennu húsaleiguákvæði. Í öðru lagi var athugað, hvaða aðrar ráðstafanir væri bezt að gera vegna alvarlegs ástands í þessum efnum. Þessi n. var skipuð á þann hátt, sem segir í grg. fyrir frv., sem hér liggur fyrir, og sé ég ekki ástæðu til að rekja það nánar. Formaður n. var Jónas Guðmundsson skrifstofustjóri. Þessi n. hefur starfað mikið í sumar, og verð ég að segja, að hún hefur lagt mikið starf fram í þessu skyni, og vil ég þakka n. fyrir, hvað hún hefur starfað vel að þessu máli og hvað hún hefur komizt langt í því að ná samkomulagi í jafnviðkvæmu máli. Þó að ekki hafi náðst samkomulag um öll atriðin, hefur náðst fullt samkomulag um helztu hluta frv., sem er mikill bálkur, 12 kaflar og 80 gr. Það er hægt að segja, að 9 fyrstu kaflarnir séu almenn húsaleigul., um rétt og skyldur húseiganda og leigjanda. Þessi kafli er að miklu leyti sniðinn eftir svipuðum l. á Norðurlöndum og Bretlandi. Sums staðar styðst frv. við frv. það, sem ég áður gat um, en sums staðar við nýjar upplýsingar, sem eru fengnar annars staðar frá. Það má segja, að algerlega hafi náðst samkomulag í n. um þessa 9 fyrstu kafla frv., eða svo að segja, ef ekki alveg. — Næstu tveir kaflar frv. ræða um ýmiss konar heimildir fyrir sveitarstjórnir, þegar ætlazt er til, að gera þurfi sérstakar ráðstafanir í þessu skyni, sem ekki er rætt í einstökum atriðum. — Svipað er um 11. kaflann. Hann er einnig um heimildir varðandi ýmis ákvæði, sem sveitar- eða bæjarstjórnir geta gripið til, ef þeim sýnist svo. A. m. k. 3 nm. af 5 eru fylgjandi öllum gr. frv. Þrír menn hafa sérstaklega gert ágreining út af þessu. Hannes Pálsson einna mest, en auk þess Magnús Jónsson og Ólafur Sveinbjörnsson. Allir nm. eru með einhvern ágreining út af þessum kafla. — Síðasti kaflinn fjallar svo um almenn ákvæði, eins og refsingu og áfrýjun varðandi þetta mál.

Ég verð að segja, að af þeirri þekkingu, sem ég hef fengið á þessum málum, hygg ég, að nauðsynlegt sé, að almenn húsaleigulög séu sett. Það er mín skoðun, að það megi ekki dragast lengi, að A1þ. afgreiði þetta mál. Ég vil leyfa mér að beina því til hv. allshn. og taka undir það með hv. frsm. n., að n. vinni sem bezt og fljótast að þessu máli. Það er fyllilega meining mín að vinna að því, að þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi eftir meginstefnu frv. Ég vil, að viss ákvæði úr 1. 1950 geti fallið úr gildi. Ég hygg, að hv. d. ætti að vinna að þessu, eftir því sem hún sér sér fært. Ég vil beina því til hv. allshn., að hún vinni að þessu eins fljótt og hún sér sér fært.

Það er ekki ástæða til að fara um þetta fleiri orðum. Þetta frv. er flutt af n., svo að því þarf ekki að vísa til hennar aftur, og mun hún taka það til athugunar eftir 1. umr.