07.12.1951
Neðri deild: 38. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í C-deild Alþingistíðinda. (2804)

129. mál, útflutningur á saltfiski

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég verð að segja, að það er dálítið skemmtileg innsýn, sem þingheimur fær nú í kærleiksheimilið á stjórnarbúinu í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir, og þær tvær ræður, sem hér hafa verið fluttar af háttstandandi mönnum stjórnarflokkanna. Núverandi hæstv. ríkisstjórn er sem sé mynduð til þess, samkv. eigin yfirlýsingu, að gera verzlunina frjálsa og hefur ekki aðeins gefið fyrirheit um slíkt og flokkar þeir, sem að henni standa, við kosningar, heldur líka í sambandi við gengislækkunina. Og það skortir aldrei á það hér á þingi, að Sjálfstfl. og Framsfl. hæli sér hvor um sig á hvert reipi af því, að nú sé verið að innleiða frjálsa verzlun á Íslandi að nýju, nú sé verzlunin að verða frjáls, og þess vegna sé þetta allt saman að batna. Nú undanfarið hafa þó verið til umræðu hér ýmis mál, sem hafa farið fram á verzlunarfrelsi í ýmsum mæli, bæði um innflutnings- og útflutningsverzlunina. En þá hefur verið viðkvæðið, að það dygði ekki að gefa Íslendingum þetta verzlunarfrelsi. Þá hafa komið fram upplýsingar, sem hafa sannað, að því fari svo fjarri, að hér sé verzlunarfrelsi, að þetta, sem gert var í sambandi við verzlunarfrelsið, var bara gert til að sýnast. Og nú kemur hér fram spurningin um það, hvort Íslendingar eigi að hafa rétt til þess að framleiða fisk og flytja út fisk, hvort almennir íslenzkir borgarar skuli mega hafa þau dýrmætu réttindi að framleiða fisk og selja hann út úr landinu og kaupa sínar nauðþurftir í staðinn. Og manni gæti fundizt, að þessir flokkar verzlunarfrelsisins og þessi ríkisstj. verzlunarfrelsisins ætti ekki að vera í miklum vafa um, hvaða afstöðu hún ætti að taka í þeim málum, þegar farið er fram á að rýmka þannig til um frelsi landsmanna. Ég hef flutt í þessari hv. þd. frv. um að rýmka þannig til um frelsi manna til útflutnings og þar með til innkaupa, bæði á þessu þingi og á síðasta þingi. Og það hefur brugðið svo undarlega við, að það hefur verið ómögulegt að fá það mál afgreitt. Hv. fjhn., sem hefur haft það mál til meðferðar, hefur sagt að vísu, að þetta væri mjög gott mál, en það væri samt ómögulegt að taka afstöðu með því, af því að það væri gott, og af því að það væri gott mál, væri hins vegar ekki hægt að taka afstöðu á móti því. Þess vegna hefur þetta mál alltaf fengið að hvíla sig, og þessir forsvarsmenn verzlunarfrelsisins hafa ekki þorað að kveða upp úr um að gefa verzlunarfrelsi.

Svo kemur fram hér frv. frá þremur hv. þdm. um útflutning á saltfiski, og mönnum gæti dottið í hug að þeim væri ljóst, að nauðsynlegt væri að skapa starfsfrelsi á þessu sviði. Hv. 1. flm., þm. V-Húnv., vitnaði í útvarpsumr. fyrir skömmu síðan, þegar rætt var um verzlunarmál okkar í þessu sambandi, að menn ættu ekki að vera að kvarta yfir neinu okri eða þess háttar, heldur mynda sér sín samvinnufyrirtæki og vera sterkir í þeim, og þá gætu þeir fengið að flytja út og flytja inn frjálsir. Ég benti þessum hv. þm. á, að það væri ekki mikið frelsi, sem landsmenn hefðu viðvíkjandi innflutningi og útflutningi, og ég benti á, hve ólíkt meira frelsi samvinnumenn höfðu en nú er, þegar þeir voru að ryðja samvinnuhreyfingunni braut. En hv. þm. V-Húnv. vildi sem minnst úr þessu gera og taldi frelsi á Íslandi nægilegt. Nú flytur hann ásamt tveimur hv. þm. frv. um að lina á þeirri einokun, sem er á saltfisksútflutningnum, og í blaði hæstv. forsrh., Tímanum, er skrifuð harðvítug grein, þar sem ráðizt er mjög skarplega á þessa einokun, sem þarna eigi sér stað, og látið í það skína, að nú sé það blað eins konar kyndilberi frelsisins móti þessari sífelldu saltfiskseinokun. Maður hefði því getað búizt við, að forsvarsmenn samvinnunnar í atvinnulífinu mundu koma þar fram í baráttunni gegn einokuninni og vildu knýja á í baráttunni fyrir því, að Íslendingar fengju að framleiða fisk og flytja út og kaupa inn vörur fyrir hann í staðinn. En ég sé þá, að það verður heldur lítið úr því, að það sé verið að heimta frelsi fyrir Íslendinga um útflutning á saltfiski. Nei, það er aðeins farið fram á, að skapa skuli nýja einokun við hliðina á þeirri gömlu, sem sé, að auk þess sem S. Í. F. og sá hópur, sem að því stendur, hafi þarna einokun, þá skuli annar aðili fá einokun við hliðina á S. Í. F. Þar með sé frelsið búið. Svo skuli engir aðrir Íslendingar fá að flytja út saltfisk og kaupa inn vörur fyrir sinn saltfisk. — Ég verð að segja, að mér finnst fara nokkuð lítið fyrir þeim háværu kröfum um frelsi og árásum Tímans á einokun með því að láta ekki verða meira úr því en það að heimta til S. Í. S. pínulítinn hluta af einokuninni líka. Það er sem sé tekið fram í 1. gr. frv., að á sama tíma sem S. Í. S. skuli fá þetta frelsi til útflutnings, skuli öðrum vera óheimilt að flytja út saltfisk nema með leyfi atvmrn. Þegar maður lítur á þetta, þá fer að fara nokkuð lítið fyrir frelsi manna til að mynda hér sölusamtök, ef enginn annar maður en forstjóri S. Í. S. á að hafa þennan rétt. S. Í. S. á að hafa þennan rétt við hliðina á sölusambandinu. Það er ekki verið að biðja um þennan rétt handa einstökum kaupfélögum eða samvinnufélögum útgerðarmanna, heldur er hér verið að fara fram á „privilegium“ handa S. Í. S. Það er ekki verið að berjast fyrir frelsi samvinnuhreyfingarinnar, ef sú samvinnuhreyfing stendur utan við S. Í. S. Það hefur ekki komið hér fram, sem ég álít að hefði átt að koma fram, og á ég þar við sjálft fyrirkomulag saltfiskssölunnar. Mér finnst vera farið nokkuð gróft í málin, þegar talað er gegn einokun og síðan heimtuð einokun handa S. Í. S. En úr því að mál þetta liggur hér fyrir, finnst mér sjálfsagt, að það sé tekið til alvarlegrar umr. hér á Alþ., þó að ég hefði talið heppilegra, að þetta frv. hefði verið öðruvísi en það er.

Hæstv. atvmrh. kom nokkuð inn á 20 ára sögu þessa máls. Talaði hann réttilega um, að það hefðu upphaflega verið frjáls samtök, sem stofnuðu Sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda, en hann gleymdi að geta þess, þegar ríkiseinokun var skipuð á þessu. Hann tileinkaði sér réttilega forgönguna að stofnun þessara samtaka á kreppuárunum. En misminnir mig það, að þegar einokunin var sett á þetta, hafi núv. atvmrh. einnig verið atvmrh.? Var það ekki líka hann, sem gaf sem ráðh. sölusambandinu einokunina með brbl. haustið 1932, þann skamma tíma, þegar hann sat í sæti Magnúsar Guðmundssonar? Ég vildi bara bæta þessu við þann heiður, sem hann eignaði sér. — Ég vona, að ráðh. muni, að allmiklar deilur voru þá um að gefa þessu sambandi þá einokun, sem þessi lög fjölluðu um, að ráðh. hefði heimild ti1 að veita sölusambandinu á útflutningnum. Eftir kosningarnar 1934 urðu hörð átök um þetta mál, og þau voru um það, hve þessi aðili þyrfti að vera sterkur, til þess að rn. væri heimilt að veita þessa heimild. Annars vegar stóð Sjálfstfl., sem vildi gera þetta sem auðveldast, og með honum stóð Landsbankinn, en á móti Framsfl. og Alþfl., meiri hl. Alþ. Að lokum var eftir hörð átök 1935 samþ. frv., sem — eins og Framsfl. og Alþfl. komust þá að orði — hnekkti einokun Kveldúlfs og Alliance á Alþ. Hvað skeði svo næst í þessu máli? Eftir að Alþ. var farið heim, var þessum lögum breytt með brbl., eftir að Landsbankinn hafði gengið í málið. Það var Haraldur Guðmundsson, sem gaf út þessi brbl. M. ö. o., þetta mál um vald þessara samtaka til að fá einokun á saltfiskinum hefur verið og var sérstaklega eitt harðvítugasta deilumálið á Alþ.

Mér þykir rétt, vegna þess að hæstv. ráðh. sagði, að mörg afglöp hefðu verið gerð í sambandi við saltfiskssöluna, að geta þess, að ég er hræddur um, að þau hafi ekki verið síður gerð, þegar einokunin var á. Hann taldi hættu á, að saltfisksframleiðendurnir mundu undirbjóða hver annan, en ég held, að það sé ekki síður von til, að þeir mundu yfirbjóða hver annan. Ég held, að ef útflutningurinn væri gefinn frjáls, væri ekki eingöngu möguleiki til, að útflytjendurnir mundu undirbjóða hver annan, heldur líka, að þeir gætu fengið hærra verð, og til er það, að menn hafa getað fengið hærra verð en einokunarhringurinn hefur viljað leyfa. Út af öllu því hagræði, sem ráðh. taldi þessu fyrirkomulagi til gildis, vil ég benda á, að það getur verið neikvætt líka frá sjónarmiði þeirra, sem geta fengið betra verð, ef þeir fá sjálfir að selja. Þetta veit hæstv. ráðh. og einnig það, að úti um land hafa menn oft orðið að bíða á annað ár áður en þeir hafa fengið útskipun. Með þessu fyrirkomulagi, sem nú er, hefur þýtt lítið að kvarta, og þegar menn úti um land hafa farið fram á að fá að framleiða saltfisk, hefur verið lagzt á móti því af sölusambandinu. Ég held því, að sú skjaldborg, sem hæstv. ráðh. talaði um, sé tvíeggjuð, — sé annars vegar skjaldborg, þar sem sambandið hefur fengið völd og einokunaraðstöðu, og maður veit, hvað mönnum hættir ti1 að sofna á verðinum, er þeir hafa slíka aðstöðu. Hins vegar eru það samtök manna, sem oft geta gætt hagsmuna þeirra betur, ef þeir standa saman. Spurningin er, hvar hið jákvæða endar og hvar hið neikvæða byrjar. Ég held, að það verði að taka þetta til alvarlegrar athugunar, ekki aðeins vegna hagsmuna þessara manna, heldur alþýðunnar líka til að afla aukinna markaða.

Ég verð að segja, að ég gladdist yfir yfirlýsingu hæstv. ráðh., þar sem hann sagðist ekki treysta sér til að neita öðrum um útflutningsleyfi, ef S. Í. S. fengi þennan rétt. Þessi yfirlýsing ráðh. er það eina, sem gæti fengið mig til að standa með þessu frv. Hann segir, að það sé sjálfsagt, ef S. Í. S. fái þennan rétt, að reyna frjálsa samkeppni á þessu sviði. En ég álít þá réttara að umorða till., til að setja ekki hæstv. ráðh. í vanda eftir á, og segja, að öllum skuli leyfilegt að selja saltfisk, enda er það orðalag sem nú er, óþarft, ef slík leyfi verða veitt. En þetta gefur góðar vonir, og ég efa ekki, að hæstv. ráðh. muni standa við orð sín.

Ég held, að ráðherrann hafi gert of mikið úr þeirri hættu, að framleiðendurnir mundu undirbjóða hver annan á erlendum markaði. Nú hefur stj. rétt til að setja lágmarksverð. Maður, sem ætlar að selja, verður að sækja um það til stj., og stj. ákveður í hvert skipti, hvort leyfa skuli þetta magn fyrir þetta verð. Ég býst við, að það verði sama ónæðið fyrir stj. að þessu, þó að sett væri lágmarksverð, en það yrði ekki meira en nú, með þeim afskiptum, sem hún hefur, og afskipti hennar eru ekki það lítil, að hún ætti að telja þetta eftir sér.

Svo er varðandi það, hvernig liti út, ef þessi tvö félög hefðu þennan rétt, ef þetta verður samþ. Ef til vill yrði einhver samkeppni eða þá að þau greru saman aftur og S. Í. S. hefði aðeins betri aðstöðu til að semja um ýmislegt. Ég hef ýmislegt út á S. Í. F. að setja og álit það gallað. En ég vil segja það, að um leið og saltfiskssalan er gefin frjáls, held ég, að það mundi stórbatna. Ef þessi samtök væru í frjálsri samkeppni um útflutninginn, mundi reyna á þá, sem stjórna því, að fullnægja kröfum og óskum aðila úti um landið, og þeir yrðu að standa undir gagnrýni, ef aðrir bjóðast til að kaupa fiskinn fyrir betra verð. Þetta þýðir, að þeir, sem stjórna samtökunum, ef þau verða að starfa í frjálsri samkeppni, verða að hafa sig alla við í þeirri samkeppni. Ég efa ekki, að þeir kraftar, sem þar eru, mundu njóta sín betur á þann hátt og þeir mundu síður sofna á verðinum, ef þeir hafa gagnrýnina yfir sér. Ég held því, að það sé röng ályktun hjá honum út frá því, sem hann síðast sagði, að hann hafi undrazt yfir, hve geirneglt saman þetta samband hafi verið, ef hann heldur, að það muni losna sundur við þetta. Ef svo er, er það geirneglt eingöngu vegna einokunarinnar, og þá ætti það engan rétt á sér. Hæstv. ráðh. hefur meiri trú á því að einoka, en ég held, að það yrði geirneglt líka, þó að það starfaði í frjálsri samkeppni. Ég held, að afleiðingin af því, að saltfiskssalan væri gefin frjáls, yrði sú, að sambandið mundi starfa áfram sem frjálst samband og betur hæft til að fullnægja kröfum saltfisksframleiðenda, ef það fengi við hlið sér S. Í. S. og kannske fleiri sambönd, sem mynduð yrðu og — ef S. Í. S. og S. Í. F. stæðu illa í stöðu sinni — hefðu aðstöðu til að vaxa. Ég held það sé misráðið að reyna þetta ekki. Ég held, að það sé nauðsynlegt fyrir Sölusambandið, ef það á ekki að verða óvinsælla en það er, að lenda í slíkri samkeppni.

Þá minntist ráðh. á, að það gæti orðið erfitt með viðskipti við þau lönd, þar sem einokun er. Það er rétt hjá ráðh., að það getur verið um sérstaka aðstöðu að ræða, og verður það þá að takast til sérstakrar athugunar að ráða fram úr því, en það réttlætir engan veginn einokun á öllum saltfisksútflutningnum. Í því frv., sem síðast var á dagskrá hér, hafði ég gert ráð fyrir, að svona kynni að standa á um sölu og útflutning, og í 3. gr. þessa frv. legg ég til, að hún verði þannig orðuð, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú gerir ríkisstj. samning við önnur ríki um sölu ákveðinna vörutegunda þangað, og er henni þá heimilt að ákveða, að eigi megi bjóða til þess ríkis, selja þangað eða flytja það magn af vörutegundum, sem hún hefur samið um sölu á, nema að fengnu leyfi hennar og með þeim skilyrðum, er hún setur.“

M. ö. o., þar sem ríkir einokun, get ég hugsað mér að gæti verið rétt að mæta slíku með einokun, en það gæti verið undantekning og mótmælir ekki því, að það prinsip sé lagt til grundvallar, að útflutningurinn sé gefinn frjáls. Þó á þetta ekki við hvað Ítalíu snertir, því að þar er ekki einokun nema að nokkru leyti. Mér skildist ráðh. vera að vitna í, að þar væru tveir sterkir hringar, sem kepptu um fiskinn frá Íslandi. Hví ekki að hafa viðskipti við báða? Þar gæti frjálsa fyrirkomulagið notið sín. Þó yrði að gera undantekningu með Spán og e. t. v. fleiri, en það er eftir að vinna markaði fyrir íslenzka saltfiskinn um allan heim. Ég fæ ekki séð, hvernig stendur á því, að banna á Íslendingum að flytja saltfisk til þeirra landa, sem enginn fiskur er fluttur til. Af hverju má ekki gefa þetta frelsi? Hví ekki að gefa frelsi til, að Íslendingar megi selja saltfisk og þá kaupa inn vörur og selja í frjálsri samkeppni við aðra? Þetta vildi ég undirstrika og leggja áherzlu á vegna þess, sem ráðh. sagði, og ég fæ ekki séð, að hann hafi fært fram nokkur rök gegn þessu. Öll þau rök, sem hann kom með, eru ekki gegn því, að Íslendingar fái fullt frelsi til að afla markaða, selja fiskinn og kaupa vörur í staðinn.

Ég held þess vegna, að þetta mál þurfi að taka til alvarlegrar meðferðar hér, og það er út af fyrir sig slæmt, hve seint það kemur fram á þinginu, og í öðru lagi, hve skammt er gengið í því að skapa nokkurt frelsi og að manni virðist ætlazt til, að málið dagi uppi og að svo sé skriðið í sömu einokunina aftur. En það er ekkert hægara fyrir forsrh. en að sjá um, að þing fari ekki heim fyrr en það hefur afgreitt svona mál eins og meiri hluti þingsins vill.

Það kom fram hjá hæstv. atvmrh., að raunverulega væru það útflytjendurnir, sem ættu að ráða, og að það ætti að fara eftir þeirra óskum. En að mínu áliti er þetta ekki rétt. Útflytjendurnir eiga ekki að hafa einir þarna um að segja. Í fyrsta lagi er saltfiskurinn mest framleiddur upp á hlut, og sjómennirnir eiga því raunverulega allt að helmingi fisksins, og hann er keyptur af þeim fyrir ákveðið verð, sem útflytjendurnir segjast geta fengið fyrir hann, án þess að sjómennirnir fái nokkuð að reyna, hvað þeir geti fengið fyrir hann. Með öðrum orðum sjómönnunum, sem eiga helming þessa fisks, er ekki gefin aðstaða til að ganga úr skugga um, hvort hægt sé að selja meira og fá betra verð fyrir það en útflytjendurnir segja. Ég held því, að sjómennirnir almennt eigi fullan rétt til íhlutunar í þessum málum. Ráðstafanirnar um útflutninginn t. d. til Spánar eru gerðar á kostnað almennings í landinu. Þeirra markaða er aflað með því að kaupa inn vörur með gífurlegu verði, sem hægt er að fá mun ódýrari annars staðar. T. d. hefur skóiðja verið stöðvuð til að flytja inn dýrari skó frá Spáni, þannig að neytendur hér heima eru látnir borga hátt verð fyrir varning, sem inn er fluttur fyrir saltfisksandvirðið, t. d. með því að greiða hærra verð fyrir skó hér og koma á atvinnuleysi meðal þeirra, sem áður stunduðu skóiðju hér heima. Ég held, að menn verði að gera sér ljóst, að ráðstafanir varðandi þennan útflutning snerta landsmenn almennt. Þannig á ekki aðeins að taka tillit til útflytjenda, þegar ríkið ráðstafar þessum málum. Ég held því, að það sé fullkomlega réttmæt krafa, að innflytjendur séu sjálfir látnir sjá um að halda þessum samtökum uppi og hafi frjálsa samkeppni við einstaklinga og önnur samtök. Þá fá þeir tækifæri til að sýna, að samtök þeirra geta staðið vörð um hagsmuni þeirra. Ég veit, að þeir munu geta gert það betur en nú. Þau einu réttindi, sem eðlilegt er að veita þeim, er, að þeir verði ekki ónáðaðir með undirboðum, þannig að ríkisstj. setji lágmarksverð á útflutningsvöruna. Það skipulag var að vísu hér á árunum, sem gerði að mjög miklu leyti óþarfa þá deilu, sem nú stendur um þetta mál, en það var fiskábyrgðin. Meðan ríkið ábyrgðist sjómönnum og útgerðarmönnum fiskverðið, var eðlilegt að hafa allan þennan útflutning undir eftirliti ríkisins. Þá var það ríkið, sem tók að sér að segja við fiskframleiðendur: Nú framleiðið þið eins og þið getið, og við tryggjum ykkur þetta verð. — Þá var eðlilegt, að ríkið sæi um söluna. Nú, þegar ríkið er hætt þessum afskiptum, þá er ekki réttmætt að segja við mennina, sem eru að reyna að bjarga sér með því að veiða fisk úr sjó: Þú mátt ekki framleiða saltfisk. — Er þetta gert, þó að framleiðendurnir geti sagt: Ég skal sjá sjálfur um að selja fiskinn og kaupa vörur fyrir hann sjálfur og sjá um að selja þær sjálfur í frjálsri samkeppni, og ef lönd eru, þar sem samkeppni er um sölu saltfisksins, þá skal ég ekki selja hann þar. — Mér þykir hart að einoka þetta svona. Meðan fiskábyrgðin var, máttu menn framleiða saltfisk, og þá komust menn léttar út af þessu en síðan, með bátagjaldeyri og annað.

Ég held því, að þegar þetta frv. kemur fram á svo leiðinlegan hátt, hefði verið æskilegast, að flm. hefðu hugsað djarflegar og reitt vopn sitt djarflegar að rótum einokunarinnar en þeir hafa gert. Með þeirri viðbót, sem hæstv. ráðh. hefur gefið frv., er það vissulega þess virði, að það sæti hér á Alþ. góðri meðferð og verði lagað vel til á þessu þingi og verði í þeirri mynd, sem það gæti orðið þjóðinni til gagns, með því að tryggja rétt Íslendinga til þess að framleiða fiskafurðir, flytja fiskinn út og selja hann. Ég mun því, eftir að ég hef komizt að skoðunum hæstv. ráðh., að sjálfsögðu vera með þessu frv. til nefndar. Álít ég, að þar eigi að reyna að láta það sæta þeirri meðferð, sem gæti orðið til þess að tryggja, að fleiri landsmenn geti framleitt sinn fisk en verið hefur fram að þessu. Þó vil ég taka fram, að allt það góða, sem gæti hlotizt af þessu frv., hefur legið fyrir í frv. mínu, sem er 12. mál þessa þings, en hefur ekki enn verið borið fram til afgreiðslu á þessu þingi, af því að hv. fulltrúar verzlunarfrelsisins, sem eru í flokkum ríkisstj., hafa ekki getað komið sér saman um, hvort þeir ættu að þora að gefa Íslendingum nokkurn einasta snefil af verzlunarfrelsi.