04.12.1951
Neðri deild: 36. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í C-deild Alþingistíðinda. (2809)

187. mál, jeppabifreiðar og heimilisdráttavélar

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég get verið fáorður um þetta frv. En það, sem frv. fer sérstaklega fram á, er að nema burt skráningarskyldu dráttarvéla. En eins og hv. þm. muna, þá var það leitt í lög hér á síðasta Alþ., að allar dráttarvélar skyldu númeraðar og skrásettar. Þetta hefur dálítinn kostnað í för með sér, en þó ekki mikinn, en aðallega fyrirhöfn, sem hreppstjórar og þeir, sem við þessi mál fást, vilja gjarnan vera lausir við. Og það sýnist vera alveg ástæðulaust að skrásetja dráttarvélar, sem helzt aldrei koma á þjóðvegi, heldur eru aðeins til nota heima, og er þess vegna eðlilegt að afnema þessa skyldu.

Með frv. þessu er einnig gert ráð fyrir að fella niður 12.–20. gr. nefndra laga, en þar í eru ýmis ákvæði, sem mönnum eru ljós frá síðasta þingi. Þær eru aðallega í sambandi við skýrslusöfnun og úthlutun dráttarvélanna. En með því að fella þessar gr. niður er gert ráð fyrir, að innflutningur dráttarvéla verði frjáls. Og ég hygg, að flestir séu komnir að þeirri niðurstöðu. að það sé óhætt að gefa innflutning lítilla dráttarvéla frjálsan, vegna þess að nú er svo komið, að þessi tæki eru svo dýr, að eftirspurn eftir þeim hlýtur að vera takmörkuð, þótt ekki væri nema af þeim ástæðum. Það er nú líka komið á daginn, að allshn. Sþ. mælir með till. um að skora á ríkisstj. að gefa innflutning á litlum dráttarvélum frjálsan, og er það þá í samræmi við þetta frv. — Ég vil svo leggja til, að þessu frv. verði vísað til hv. landbn.