11.12.1951
Neðri deild: 41. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í C-deild Alþingistíðinda. (2826)

140. mál, veitingasala, gististaðahald

Frsm. (Jónas Rafnar):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt samkvæmt ósk hæstv. samgmrh. Með bréfi, dags. 16. nóv. 1949, skipaði þáv. samgmrh. eftirtalda menn til að endurskoða og gera till. um nauðsynlegar breyt. á 1. um veitingasölu, gistihúshald o. fl., nr. 21 frá 15. júní 1926. N. skipuðu: Brynjólfur Ingólfsson stjórnarráðsfulltrúi, sem var formaður n., dr. Jón Sigurðsson borgarlæknir í Reykjavík, sem báðir voru skipaðir án tilnefningar, Böðvar Steinþórsson, tilnefndur af Sambandi matreiðslu- og framreiðslumanna, Hörður Ólafsson lögfræðingur, tilnefndur af Sambandi veitinga- og gistihúseigenda, og Sigurjón Danivalsson, tilnefndur af Ferðaskrifstofu ríkisins. N. hófst þegar handa og aflaði sér upplýsinga um veitingamál, og eru bókaðir meira en 30 fundir um störf hennar. Kom fljótt í ljós, að verulegs ágreinings gætti meðal nm. Þrír nm., þeir Brynjólfur Ingólfsson, Jón Sigurðsson og Sigurjón Danivalsson, komu sér saman um till., sem nú er lögð fram í þessu frv. Meiri hl. n. taldi, að gera þyrfti svo miklar breytingar á gildandi veitingalögum, að betra væri að semja þau upp alveg á ný. Böðvar Steinþórsson skilaði séráliti. — Till. n. munu vera mjög sniðnar eftir norskum lögum, en Norðmenn eru mjög framarlega á þessu sviði.

Eins og hv. þm. hafa séð, er frv. þetta allfyrirferðarmikið. Í 1. gr. þess er sagt, að það nái til „gististaðahalds og veitinga matar og drykkjar fyrir endurgjald, hvort sem þær fara fram í veitingastofum eða öðrum stöðum, sem almenningur á aðgang að.“ Frv. þetta tekur þó ekki til áfengisveitinga. Veitingastarfsemi og hótelrekstur er nú orðinn svo veigamikill atvinnurekstur hér á landi, að nauðsynlegt er að hafa um hann ákveðin lög. Frv. þessu mun ætlað að bæta ýmsa vankanta á gildandi lögum og staðfesta nýmæli, sem koma til með að standa til bóta.

Eins og ég hef tekið fram, hefur allshn. flutt þetta frv. að ósk hæstv. samgmrh. Einstakir nm. og n. í heild áskilur sér þó rétt til að flytja brtt. og fylgja þeim brtt., sem fram kunna að koma. Að lokinni þessari umr. óska ég eftir því, að frv. verði vísað til 2. umr., en allshn. mun taka frv. til mjög ýtarlegrar athugunar.