26.11.1951
Neðri deild: 33. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í C-deild Alþingistíðinda. (2850)

120. mál, ferðaskrifstofa ríkisins

Emil Jónsson:

Herra forseti. Í grg. fyrir þessu frv. er látið liggja að því, að þetta fyrirkomulag, sem nú er á starfsháttum ferðaskrifstofunnar hér, hafi torveldað ferðalög útlendra manna hingað til lands. Nú langar mig til að spyrja hv. flm. þessa frv., hvort hann geti bent á einhver dæmi þess, að þetta hafi þannig verið eða þetta fyrirkomulag, sem hér er haft á nú, hafi orðið til þess að draga úr komu ferðamanna hingað til lands, því að hann segir beinlínis í grg.: „Er sennilegt, að ferðalög útlendra manna hingað til lands mundu aukast, ef fleiri aðilar en Ferðaskrifstofa ríkisins hefðu möguleika til þess að reka ferðaskrifstofur og veita útlendingum leiðbeiningar og fyrirgreiðslu á ferðalögum þeirra hér á landi.“

Þegar l. um Ferðaskrifstofu ríkisins voru sett 1935, var mjög rætt um þetta mál, og var það þá miklu viðkvæmara en það er nú, þar sem gengið var í berhögg við þær ferðaskrifstofur, sem þá voru starfandi, og það var ólíkt aðsópsmeira að taka af þeim þá starfsemi, sem stofnað höfðu ferðaskrifstofur þá. En þetta var þó gert og með góðum atbeina Framsóknarflokksmanna, og hefur það til þessa tíma — að ég ætla — gefizt fullvel. Ég hef aldrei heyrt þess getið, — og þess vegna spurði ég, — að menn hafi fallið frá því að koma til landsins vegna þess, að hér er einungis starfandi ein ferðaskrifstofa. Hins vegar bar á því, nokkru áður en ferðaskrifstofan tók til starfa, að menn væru beinlínis ekki óhræddir um, að starfsemi ýmissa ferðaskrifstofa, sem þá voru hér, hafi nokkuð dregið úr komu ferðamanna hingað með því, hvernig þær störfuðu. En um það er til vitnisburður frá umr. 1935. sem mig langar til að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta. Þá var einn vel metinn framsóknarmaður, Hermann Jónasson, sem sagði, að hann legði ekki mikið upp úr því, þó að þessi störf væru tekin af þeim skrifstofum, sem þá voru starfandi, og sagði svo: „En ég sé ekki, að það sé mikið í húfi, þó að slík verkefni séu tekin af þessum ferðamannaskrifstofum, sem hér hafa starfað og eru á góðum vegi með að eyðileggja ferðamannastrauminn til landsins. Það er til hreinustu vanvirðu fyrir þjóðina, hvernig sumar þeirra hafa hagað störfum sinum og beitt sér gagnvart útlendingum.“ Nú vil ég spyrja hv. flm., eins og ég sagði í upphafi, hvað hefur breytzt síðan 1935, — hvort starfsemi ferðaskrifstofunnar gefur tilefni til þess, að þetta frv. er fram borið, eða hvort hann geti fært líkur að því, að þetta sé svo eins og í grg. fyrir frv. hans segir.

Ég skal svo á þessu stigi ekki fara frekar út í að ræða þetta mál. Ég tel, eins og okkar högum er háttað og með þeim takmarkaða ferðamannastraumi, sem nú er til landsins, óheppilegt að skipta þessari starfsemi. Til þess að hægt sé að veita góða og örugga fyrirgreiðslu, þarf að hafa hana í höndum einnar skrifstofu, ef hún rækir störf sín á þann hátt, sem til er ætlazt. Hins vegar er annað, ef hún gerir það ekki, en gerir það á þann hátt, sem form. Framsfl. 1935 segir að einkaskrifstofurnar hafi rækt það starf, sem þær ráku þá. Þess vegna er ég á móti þessu frv. og mun greiða atkv. gegn því.