05.10.1951
Efri deild: 4. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í C-deild Alþingistíðinda. (2875)

11. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Flm. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. Skattalögin eru nú orðin svo þung, þær byrðar, sem á mönnum hvíla vegna þeirra, eru orðnar svo óskaplegar, að furðulegt er, hve þeim er lítill gaumur gefinn, þegar rætt er um dýrtíðina og vöxt hennar. Þó á þessi byrði einna ríkastan þátt í aukningu dýrtíðarinnar. Skattar eru nú nálægt því 8 þús. kr. á ári á 5 manna fjölskyldu að meðaltali, ef miðað er við þá upphæð, sem skattarnir nema þetta ár. Þar á bætist afleiðing bátagjaldeyrisins. Beinir skattar hafa stórhækkað vegna verðbólgunnar. Vegna hækkaðs verðlags hefur gildi krónunnar minnkað og krónurnar orðið fleiri. Vegna þess, hve krónurnar eru orðnar margar, lenda menn með lágar tekjur á hámarksskattstiga og nálgast æ meir það, sem stórtekjumenn urðu að greiða. Óbeinu skattarnir hækka æ meir, og lætur nærri, að 1/4–1/3 af tekjum manna sé að jafnaði sá hluti, sem ríkissjóður tekur í sinn hlut. En af öllum ranglátum sköttum er þó söluskatturinn sá ranglátasti. Fyrst og fremst er hann lagður á allflestar vörur, einkum þær nauðsynlegustu, og er einnig marglagður á sömu vöru og sömu þjónustu og hefur átt drjúgan þátt í að auka á dýrtíðina í landinu. Kemur þetta þungt niður á iðnaðinum, þegar hann kemst yfir 15%. Erfitt er að tryggja, að öllum þeim söluskatti sé endanlega skilað í ríkissjóð.

Það er staðreynd, að þessi rangláti skattur á ærinn þátt í dýrtíðinni. Sósfl. barðist gegn honum á sínum tíma, og hann mun beita sér fyrir því, að skatturinn verði látinn falla niður um næstu áramót. — Þessir þungu skattar til ríkissjóðs valda því, að erfitt hefur reynzt fyrir bæjar- og sveitarfélög að afla sér nauðsynlegra tekna, og eru þau í hinum mestu fjárhagskröggum. Reykjavíkurbær hefur orðið að leggja á 10% aukaniðurjöfnun, ofan á þá háu skatta, sem fyrir voru. Nú er vitað, að söluskatturinn fer langt fram úr áætlun, en á fjárlagafrv. fyrir 1951 eru tekjur af söluskatti áætlaðar 55 millj. kr. Nú er gert ráð fyrir, að þær fari yfir 80 millj. kr.,. en þær munu samt verða hærri, og telja sumir, að þær fari yfir 100 millj. kr.

Í þessu frv. er lagt til, að 1/3 hluta söluskattsupphæðar 1951 skuli endurgreiða til bæjar- og sveitarfélaga í landinu. Jafnvel þó að upphæðin yrði ekki hærri en gert er ráð fyrir, lætur samt nærri, að ríkissjóður haldi eftir sínum hluta af áætlaðri upphæð, 50–60 millj. kr. Það er því ekki hægt að halda fram með sanni, að ríkissjóður hafi ekki ráð á að endurgreiða þetta. Öll bæjar- og sveitarfélög eru í brýnustu þörf fyrir þetta fé, og mundi þetta bæta mjög hag þeirra. Bæjarstjórn Reykjavíkur hefur farið þess á leit, að bæjarfélagið fengi greiddan hluta skattsins til þess að komast hjá því að leggja á aukaútsvör. Mér eru ekki kunn svör hæstv. ríkisstj., en það lítur út fyrir, að hún hafi ekki gefið greið svör.

Nú er gert ráð fyrir því í frv., að það sé gert að skilyrði fyrir því, að bæjar- og sveitarfélög fái þetta fé, að útsvarsálag verði ekki innheimt með aukaniðurjöfnun af viðkomandi bæjar- eða sveitarfélögum. Þetta er í fullu samræmi við vilja Reykjavíkurbæjar. Ég þykist vita, að a. m. k. fulltrúar Reykjavíkurbæjar hér á Alþ. munu samþ. þetta frv., og vænti ég þess, að aðrir fulltrúar hér geri slíkt hið sama, enda er þetta fullt sanngirnismál. — Legg ég til, að frv. verði vísað til 2. umr. og fjhn. og afgreiðslu málsins hraðað.