09.10.1951
Efri deild: 5. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í C-deild Alþingistíðinda. (2878)

16. mál, iðnaðarmálastjóra og framleiðsluráð

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Þetta mál er ekki nýtt hér á þinginu. Það hefur verið flutt hér á nokkrum undanförnum þingum, en hefur ekki náð samþykki Alþ. Það er þess vegna öllum alþm. kunnugt, og þarf ég því ekki að gera grein fyrir frv. En ég vil hins vegar fara nokkrum orðum um meðferð þess á síðasta Alþ. Það var í fyrsta sinn, sem það náði meiri hl. í þessari hv. d. og þó allmjög breytt frá því, sem það var, er það var borið fram.

Það varð að samkomulagi í iðnn. að fella niður mikið úr frv. til þess að gera þá stofnun, sem hér er gert ráð fyrir, umsvifaminni, og gaf n. út nál. á þskj. 306 2. des., þar sem hún gerði miklar breyt. Þegar frv. kom hins vegar fram þannig breytt, voru bornar fram við það fjórar brtt. á þskj. 307, af hv. 4. landsk., og voru þar teknar upp þær breyt., sem n. gerði ráð fyrir, að felldar yrðu niður. Frv. var svo samþ. úr þessari d. eins og meiri hl. iðnn. gerði till. um. — Þegar það svo var tekið til meðferðar í Nd., kom í ljós, að meginhluti þm. þeirrar d. vildi ekki samþ. það í því formi, sem það hafði verið afgr. hér, og lagði sú d. til, að tekin yrðu upp aftur þau atriði, sem hér höfðu verið felld niður, og var þar gefið út nál. um málið, en tími vannst ekki til að taka það upp aftur í því formi.

Af þessu er ljóst, að mikill meiri hluti alþm. er samþykkur því, að málið nái fram að ganga í því formi, sem það upprunalega kom fram í. og er það ástæðan til þess, að það er hér tekið upp aftur eins og það var áður.

Ég skal taka það fram, að bent var á það af minni hl. þessarar d., að Sameinuðu þjóðirnar veittu nú aðstoð til þeirra rannsókna, sem þetta frv. gerir ráð fyrir að iðnaðarmálastjóri og framleiðsluráð hafi á hendi. Sameinuðu þjóðirnar munu nú í sumar hafa sent hingað mann til að athuga um þessi mál, og mun hann hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að nauðsynlegt væri, að hér yrðu gerðar miklar breytingar á iðnaðarmálum þjóðarinnar, og skipaði þá ríkisstj. þriggja manna n. til að athuga um það mál. Mun einn hafa verið frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og tveir frá iðnrekendum. Þessi n. mun hafa litið svo á, að nauðsyn væri að koma upp fræðslu um þetta efni, og hefur ríkisstj. tekið upp á þessi fjárlög 100 þús. kr. í því skyni.

Allt er þetta viðurkenning á því, að þessi stofnun eigi að rísa upp, og sé ég ekki ástæðu til að fara nánar út í einstök atriði þessa frv., en vil leggja til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til iðnn. þessarar d. og taki hún það svo til nánari athugunar, sendi það til þeirrar n., sem nú er starfandi um þessi mál á vegum ríkisstj., fái hjá henni upplýsingar um einstök atriði, sem gerzt hafa í þessu síðan á síðasta þingi, og fái hjá henni brtt. um þau efni, þar sem það á við.