26.11.1951
Efri deild: 34. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í C-deild Alþingistíðinda. (2885)

16. mál, iðnaðarmálastjóra og framleiðsluráð

Frsm. 1. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mikið þessar umr. hér, en ég vildi aðeins með fáum orðum svara hv. 1. þm. N-M. Hann sagði, að það væri mesti misskilningur, að talað hefði verið á móti þessu máli á undanförnum þingum. Ég veit nú ekki, hvernig á að skilja andstöðu gegn máli, ef það er ekki andstaða gegn þessu máli, að af sumra manna hálfu, sem ekki vilja láta málið hafa framgang, hefur hver ræða, sem flutt hefur verið um það, miðað að því að torvelda framgang þess. Það er því ekki aðeins andstaða, heldur fullur fjandskapur, sem þessu máli hefur verið sýndur af ákveðnum mönnum hér á Alþ., og væri nú vel, ef þeir vildu milda andstöðu sína gegn málinu og láta það ganga fram, því að það að leggja til að vísa málinu frá nú verður ekki skilið á annan veg en þann, að það sé lagt til af andúð gegn málinu. Hv. 1. þm. N-M. sagði, að hann hefði haft ástæðu til að ætla, að þrír nm. væru með því að vísa málinu frá. En nú hefur hv. 4. landsk. þm. lýst því yfir, að hann sé málinu samþykkur, og má því segja, að nál. okkar í minni hl. iðnn. sé orðið að meirihlutaáliti. Má vera, að hugur þessa hv. þm. hafi snúizt svo af því, að hann hefur verið með málinu á undanförnum þingum, þó að hann gerði þessa grein fyrir afstöðu sinni í iðnn.

Þetta mál hefur fengið, eins og ég sagði hér um daginn, svo mikla athugun — það hefur verið sett tvisvar í milliþn. — að ég sé þess vegna ekki ástæðu til að tefja málið nú með því, að því verði komið í milliþn., en ég óska, að atkvgr. fari fram um frv. sjálft á þessum fundi, ef tími endist til þess.

Hv. frsm. 2. minni hl. n. sagði, að það hefðu engir menn með iðnþekkingu verið í þeirri mþn., sem frv. síðar var sett í. Ég vil upplýsa, að þetta er alger misskilningur, því að m. a. var einn maðurinn í þeirri n. verkfræðingur frá ekki lélegri stofnun en Harward-háskóla í Boston og hefur haft með það að gera nú að endurbæta stórkostlega vinnuaðferðir og vélar fyrir Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. En aðalástæðan fyrir því að vilja ekki vera með í að samþ. þetta frv. er sú hjá hv. 1. þm. N-M., að þessi stétt manna, iðnaðarmenn, hefur ekki komið upp hjá sér félagsskap eins og bændur annars vegar hafa gert og fiskimenn hins vegar. Ég held, að það sé á nokkrum misskilningi byggt að vilja standa á móti málinu af þessum ástæðum. Ég sé ekki, að það sé neitt til fyrirmyndar, að bændur landsins eru í raun og veru þvingaðir inn í búnaðarfélagasamböndin, af því að þeir geta ekki fengið jarðabótastyrkinn, nema þeir séu í búnaðarfélögum. Ég er ekki á móti því, að þeir fái þennan styrk. Það er eðlilegt. En þeir fá hann bara ekki nema með því að vera í búnaðarfélögum, svo að þetta er skipulagt þannig, en ekki af frjálsum vilja. Slíku fyrirkomulagi hefur ekki verið komið á um iðnaðinn. Hitt er hins vegar svo ekki til fyrirmyndar, að búnaðarfélagsskapurinn í landinu sækir fé sitt skefjalaust í ríkissjóðinn, fleiri hundruð þús. kr. á ári, meðan ekki eru greiddar nema tvö þús. kr. til félagsskaparins af félagsmönnum sjálfum. Það fé, sem ríkissjóður leggur fram í þessu efni, fer til þess að halda uppi búnaðarfélögunum um land allt, og ég sé ekki ástæðu til að þvinga slíkan félagsskap fram í sambandi við iðnaðarmálin. Búnaðarfélag Íslands er í raun og veru ekki annað en stjórnardeild, sem kostuð er af ríkissjóði, án þess þó að rn. hafi umráð þar yfir, sem þó er ætlazt til, að hér sé í sambandi við iðnaðinn. Að nokkru leyti er svo líkt ástatt um Fiskifélagið eins og Búnaðarfélag Íslands. Það er orðið nokkurs konar ríkisstofnun, og er ekki til fyrirmyndar að byggja þau mál upp þannig.

Ég sé ekki ástæðu til að upplýsa þetta mál nánar. Það er upplýst við margar umr. fyrr og síðar á Alþ., að þetta mál væri til stórkostlegra hagsbóta fyrir iðnaðinn, og það er ekki réttlætismál að neita iðnaðinum um þetta, þó að það kosti nokkurt fé. — Ég legg því til, að dagskrártill. verði felld .og að hv. þdm. fallist á, að þetta frv. verði samþ. óbreytt.