09.10.1951
Efri deild: 5. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í C-deild Alþingistíðinda. (2901)

23. mál, vegalög

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Það er nú liðinn alllangur tími síðan breytingar hafa verið gerðar á vegalögunum. Hins vegar hafa verið borin fram allmörg frv. til breyt. á þeim, en þau hafa ekki náð fram að ganga. Ég hef nú leyft mér að bera fram frv. til breytinga á vegal. á þskj. 23, og síðan því var útbýtt hafa komið fram við það margar brtt., og einnig hefur verið borið fram frv. sama efnis í Nd. og við það hafa einnig komið fram fjöldamargar brtt. Sýnir þetta bezt, hve knýjandi er að breyta vegalögunum. — Skal ég nú gera nokkra grein fyrir þeim breytingum, sem ég hef borið fram.

Það er þá fyrst, að tekinn sé upp nýr liður í 2. gr., að á eftir B. 41 komi nýr liður: „Tröllatunguvegur: Frá Gautsdalsvegi um Tröllatungu á Strandaveg.“ Þetta er nýr vegur, sem mundi tengja saman Barðastrandarsýslu og Strandir. Það liggur nú vegur frá botni Gilsfjarðar um Steinadalsheiði yfir í Kollafjörð. Ég hygg, að það væri miklu betra að taka þessa leið milli Geiradals og Stranda. Þegar þessi vegur yrði kominn á, hygg ég, að leggja mætti niður veginn yfir Steinadalsheiði, og ég hygg, að það verði miklu ódýrara fyrir ríkisstj. að halda þessum vegi við einum, eftir að þá er þar kominn samfelldur vegur til Hólmavíkur.

Þá er 2. liður frv., að B. 42 í sömu lagagr. orðist svo: „Reykhólavegur: Af Vesturlandsvegi við Berufjarðarbotn um Reykhóla að Laugarlandi og af Vesturlandsvegi hjá Kinnarstöðum um Hofstaði að Hlíð“. Breytingin er sú, að vegurinn frá Hofstöðum að Hlíð bætist við í þjóðvegatölu og sömuleiðis vegurinn frá Stað að Laugarlandi. Ég tel það sjálfsagt, að vegurinn að þessum stöðum sé tekinn upp í þjóðvegatölu.

Þá er það 3. liður frv., er hljóðar svo: „Í stað orðanna „og Kollafjörð að Kletti austan undir Klettshálsi“ í B. 43 í sömu lagagr. komi: „Kollafjörð, Klettsháls, Þingmannaheiði að Brjánslæk á Barðaströnd.“ Breytingin er sú að taka í þjóðvegatölu alla póstleiðina að vestan. Þjóðvegurinn endar nú við Klettsháls að austanverðu og Brjánslæk að vestan, og er sumt af þessari leið í sýsluvegatölu; en sumt fjallvegur. Nú í sumar var ruddur vegur með ýtu frá Brjánslæk og á heiðina, svo að minni kostnaður ætti að verða við að fullgera þann veg. Ég tel það sjálfsagt, að öll póstleiðin sé þannig tengd saman í þjóðvegatölu.

Fjórði liðurinn er nýr vegur. Ég tel eðlilegt, að eftir að öll þessi leið hefur verið tekin í þjóðvegasamband, þá sé líka tekin leiðin út Fjarðarhlíðina til þess að tengja Múlanesið við þjóðveginn. Ég hef ekki tekið upp alla leiðina að Múla, þó að eðlilegt væri, en tel sjálfsagt, að Múlanesið sé þannig tengt þjóðveginum.

Fimmti liðurinn er um að framlengja þjóðveginn í Dalahreppi frá Bakka að Selárdal. Þessi leið hefur nú verið rudd, svo að fært er bílum. Þessi vegur er í sýsluvegatölu, en ég tel eðlilegt, að hann sé nú tekinn í þjóðvegatölu. — Um 6. liðinn gildir það sama. Hann er um að framlengja þjóðveginn frá Fossi að Reykjarfirði. Þar hefur einnig nú verið gerður akfær vegur á kostnað sýslunnar, og er eðlilegt, að ríkið taki nú við viðhaldi hans, enda mundi sýslan eftir sem áður hafa nógum verkefnum að sinna.

Sjöundi liðurinn er, að á eftir B. 65 komi nýr liður, er orðist svo: „Fossheiðarvegur: Frá Fossi í Suðurfjarðahreppi á Barðastrandarveg“. Það er aldrei hægt að ætlast til, að Arnfirðingar séu bundnir við að fara yfir Hálfdán til Patreksfjarðar og síðan yfir Kleifaheiði yfir á Barðaströnd. Það er eðlilegt, að þeir fái beint vegasamband, ekki sízt eftir að öll leiðin um Barðaströnd verður komin í þjóðvegatölu.

Áttundi liðurinn er um, að þjóðvegurinn verði lengdur frá Sveinseyri út Tálknafjarðarströndina út að Sellátrum. Það er nú ekki lengur neinn þjóðvegur í Tálknafirði ófullgerður og ekki annað þar tekið en leiðin frá Botni og þarna út. Hins vegar er þessi vegur, sem hér er um að ræða, að nokkru í hreppavegatölu og að nokkru í sýsluvegatölu, og er aðkallandi, að hann verði sem fyrst tekinn í þjóðvegatölu. Einnig er þarna lagt til, að tekinn verði upp nýr vegur frá Bíldudalsvegi út ströndina að sunnanverðu að Suðureyri. Það verður að teljast eðlilegt, að þessi sveit komist í þjóðvegasamband.

Níundi liðurinn er nýr vegur frá Haukabergi að Siglunesi. Þessi vegur er í sýsluvegatölu, og hefur verið rutt nokkuð út undir Fit, en nauðsynlegt er að koma veginum alla leið út að Siglunesi.

Í 10. liðnum er lagt til að komi nýr vegur: „Melanesvegur: Af Rauðasandsvegi að Melanesi.“

Þessi vegur er hvorki í sýsluvega- né hreppavegatölu, en svo er mál með vexti, að hér er um að ræða jörð, þar sem lagt hefur verið í töluverðar framkvæmdir á síðustu árum og ekki er líkleg til að fara í eyði á næstunni. Er nauðsynlegt og réttlátt, að hún sé í beinu sambandi við þjóðveginn.

Þá er það 11. og síðasti liðurinn, um að taka Útvíkurleiðina í þjóðvegatölu. Vegurinn frá Gjögri að Hænuvík er í sýsluvegatölu, en hins vegar er vegurinn frá Hænuvík að Kollsvík í fjallvegatölu, og má með litlum tilkostnaði gera bílfært í Kollsvík, og þá er vandalaust að komast frá Kollsvík til Breiðuvíkur. Áður er kominn vegur frá Gjögri að Látrum, og þá mætast þessir vegir í Breiðuvík.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta frv. að sinni, en legg til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og samgmn., sem taki það ásamt þeim till, til breytinga, sem fram hafa komið, til athugunar svo snemma, að það nái fram að ganga á þessu þingi.