10.10.1951
Efri deild: 6. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í C-deild Alþingistíðinda. (2906)

27. mál, uppdrættir að íbúðarhúsum, eftirlit með byggingum o. fl.

Flm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Frv. þetta var borið fram á síðasta þingi, en var þá ekki útrætt. Hér er rætt um, skv. 1. gr., að þau bæjarfélög, sem hafa verkfræðing í þjónustu sinni, láti gera ódýra uppdrætti að íbúðarhúsum. Enn fremur er ætlazt til, að þeir, sem vinna sjálfir að húsbyggingum, fái leiðbeiningar og eftirlit. Ef fimm eða færri vinna í félagi, er ætlazt til, að störf þeirra reiknist í eigandans þágu. Tilgangurinn með þessu frv. er sá að veita aðstoð til að losna við ýmsan aukakostnað, sem hleypir verði húsanna tilfinnanlega upp.

Það er ánægjulegt að vita, að í Reykjavík hefur verið tekið upp svipað fyrirkomulag, þó að það sé að öðru leyti í sambandi við smáíbúðirnar; þar eru uppdrættirnir látnir í té ókeypis, en þetta frv. nær einnig til annarra húsa en smáíbúðanna.

Á síðasta þingi var þessu frv. vísað til heilbr.- og félmn., og legg ég til, að því verði vísað til sömu nefndar.