11.10.1951
Efri deild: 10. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í C-deild Alþingistíðinda. (2909)

32. mál, lánveitingar til smáíbúða

Flm. (Finnbogi R. Valdimarsson):

Herra forseti. Í grg. þeirri, sem fylgir frv. þessu, er tekið fram, að ekki sé með frv. verið að gera neinar heildartill. um, á hvern hátt megi fullnægja lánsþörfinni til íbúðarhúsabygginga yfirleitt, né gerðar till. um framtíðarskipulag þessara mála, þótt það væri mjög mikilvægt. Hins vegar er með þessu frv. leitazt við að koma til móts við þann mikla fjölda manna, sem lagt hafa út í að byggja sér íbúðarhús, en eiga erfitt um vik að kljúfa byggingarkostnaðinn. Þótt hér sé víst um marga að ræða og í raun og veru þyrfti að veita til slíkrar lánastarfsemi stórar upphæðir, þá er í frv. þessu aðeins farið fram á smáúrlausn. Ég hef séð í þskj., að nú eru komnar fram margar till. um það, hvernig rýmka skuli um lánsfé til íbúðarhúsabygginga. Þetta frv. okkar felur í sér, að 15 millj. kr. verði varið úr svonefndum mótvirðissjóði til slíkra bygginga.

Það er öllum vel ljóst, að þörfin fyrir aukna byggingarstarfsemi við íbúðarhús hefur í langan tíma verið mikil og er nú mjög aðkallandi. Meðal annarra þjóða hefur þörfin fyrir aukið íbúðarhúsnæði verið mikil eftir stríðið, en á Íslandi er hún þó meiri en í nágrannalöndum okkar. Fróðir menn um þessa hluti hafa sýnt mjög glöggt fram á, hversu þörfin er brýn. Í skýrslu frá árinu 1944, sem ég hef hér fyrir framan mig, er áætlað, að Íslendingar þyrftu að byggja 1500 íbúðir á ári, ef takast ætti að útrýma heilsuspillandi húsnæði. Í þeirri skýrslu er einnig sýnt fram á, að ef flokka mætti húsnæðið í 3 flokka, þá lentu í þriðja og versta flokknum 7500 íbúðir, sem með öllu gætu talizt óhæfar til íbúðar og heilsuspillandi. Í Reykjavík búa þúsundir manna við óhæft húsnæði og hafa þúsundir barna á framfæri sínu. Á undanförnum árum hefur byggingarþörfinni hvergi verið fullnægt, og hefur einnig stórlega dregið úr framkvæmdum sökum takmarkana á leyfum. Árið 1949 var sótt um leyfi til fjárhagsráðs um byggingu á 3200 íbúðum, en leyfi voru aðeins veitt fyrir 1074 íbúðum. Árið 1950 berast 1860 umsóknir, en leyfi eru veitt fyrir 504 íbúðum. Á þessu ári bárust 1500 umsóknir, en leyfi veitt fyrir 500 íbúðum. Nú fyrir skömmu var rýmkað um höftin hvað snertir smáíbúðir, sem væru 80 fermetrar og 260 teningsmetrar. Hundruð manna hafa sótt um byggingarleyfi til þessarar stærðar íbúða. En ef mönnum á að verða kleift að byggja sér slík hús, þá er þess mikil nauðsyn, að hægt verði fyrir viðkomandi aðila að fá lánaðan hluta byggingarkostnaðarins, því þótt einhverjir kunni að komast fram úr kostnaðinum á eigin spýtur, er ólíklegt, að allur þorri manna geti greitt hann að fullu. Eins og nú standa sakir hefur lánastarfsemi til húsbygginga fallið niður, og bankarnir hafa ekki veitt nein lán til þeirra. Helzt hefur verið um lán að ræða úr lífeyrissjóðum. Starfsemi byggingarsamvinnufélaga og annarra byggingarfélaga hefur dregizt saman vegna takmarkana á leyfum og féleysis. Síðustu árin hafa margir dugmiklir einstaklingar lagt í að byggja yfir sig sjálfir með eigin vinnu og fjölskyldu sinnar. Þetta fyrirkomulag hefur sína kosti og sína galla. Ég held, að þessi mál eigi fyrst og fremst að leysa á vegum byggingarsamvinnufélaga og bæjarfélaga, en einstaklingar haldi uppi byggingarstarfsemi samhliða. Þeir menn, sem fengið hafa leyfi á undanförnum árum til byggingar íbúðarhúsa, standa nú í hundraða tali með byggingar, sem ekki er lokið við, vegna þess að þeir hafa ekki getað fengið fjármagn að láni til þess að ljúka húsbyggingunni. Það er þessi stóri hópur manna, sem við flm. þessa frv. höfum fyrst og fremst í huga. Ef litið er á heildarbyggingarkostnaðinn, þá er hér ekki um stórar upphæðir að ræða, og miðað við heildarkostnað íbúðar er upphæð sú lág, sem við leggjum til að lánuð verði. Þetta er okkur flm. þessa frv. ljóst, en við viljum ekki að svo stöddu bera fram till. um heildarlausn í þessum efnum, og okkur er kunnugt um, að ríkisvaldið hefur verið á móti því að verja fé í byggingarstarfsemi, og má gera ráð fyrir, að það verði torsótt að fá ríkið til að styðja þessa starfsemi til hlítar. Mun ég ekki ræða það frekar að þessu sinni.

Hvernig það fjármagn verður útvegað, sem hér er lagt til, er ekki aðalatriðið, heldur að nokkur upphæð fáist. Í frv. er gert ráð fyrir, að lánin verði til 10 ára og 25 þús. kr. verði lánaðar til jafnaðar á íbúðir með þessum hætti. Við flm. leggjum til, að féð verði tekið úr mótvirðissjóði. Úr þeim sjóði er nú verið að verja fé til nauðsynlegrar fjárfestingarstarfsemi eins og virkjana. Nú er það ljóst, að fjárfestingarstarfsemi í íbúðarhúsum er í beinni hættu, ef ekki verður hafizt handa og komið á móts við þá menn, sem nú eru í vanda með lán. Í mótvirðissjóði eru stórar upphæðir, og er þessi upphæð ekki há, sem lagt er til í frv. þessu að varið verði úr honum.

Við flm. frv. þessa erum, eins og vikið er að í grg., sem prentuð er með frv. á þskj. 34, fúsir til þess að ræða við þá n., sem kemur til með að fjalla um málið, um einstök atriði þess. Það þarf ekki endilega að taka fé úr mótvirðissjóði til þessarar nauðsynlegu lánastarfsemi, fremur en t. d. bankar eða ríkissjóður legðu það fram. Þetta mál er hvort tveggja heilbrigðis- og félagsmál og fjárhagsmál, en ég geri það að till. minni, að frv. verði vísað til fjhn. og 2. umr. að þessari umr. lokinni.