19.10.1951
Efri deild: 17. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í C-deild Alþingistíðinda. (2916)

62. mál, ítök

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þetta frv. var til umræðu á síðasta þingi, eins og ræðir um í grg. þess. en varð þá óafgreitt. Ég hef síðan átt þess kost að ræða þetta mál nokkuð við bændur í minni sýslu, og mér hefur verið bent á, að ef frv. yrði samþ. eins og gengið var frá því á síðasta þingi hér, þá mundi það valda mjög miklum erfiðleikum fyrir einstaka aðila að búa við það. Nú hef ég ekki borið saman, hvaða breyt. orðið hafa á frv., en ég hef nú hlustað á frsm., og sagði hann, að búnaðarþing vildi samþykkja málið. Ég vil þó á þessu stigi málsins benda á, að breyta þyrfti 5. gr. frv., þar sem segir: „Nú mótmælir eigandi ítaks sölu þess á þeim grundvelli“ o. s. frv. Þarna ætti að vera „eigandi eða ábúandi“. Hef ég þar í huga jarðir, sem opinberir aðilar eiga, svo sem kirkjujarðir. Ég veit ekki, hvort það er rétt að gefa ríkissjóði heimild til þess að selja ítök á móti vilja þess manns, sem hefur lífstíðarábúð á jörðinni. Hins vegar væri rétt að gera þá jafnréttháa, ábúandann og eigandann sjálfan. T. d. stendur í 4. gr.: „Nú vill eigandi eða umráðamaður einhverrar jarðar“ o. s. frv. Þar er því leitað til annars aðila en eigandans. Þetta er því ekki nógu skýrt í frv., og er nauðsynlegt, að þetta sé tekið fyrir til athugunar. — Skal ég svo ekki ræða þetta mál frekar á þessu stigi.