23.10.1951
Efri deild: 19. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í C-deild Alþingistíðinda. (2921)

62. mál, ítök

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vildi segja nokkur orð, því að ég tel, að það hafi gætt misskilnings hjá hæstv. dómsmrh. í sambandi við þessa brtt., sem ég vildi leiðrétta. Hann hélt því fram, að umráðamaður gæti komið í veg fyrir sölu ítaks, enda þótt eigandi vildi selja. Það á ekki að vera svo samkv. till., en þeir geta komið í veg fyrir, að ítak sé selt, áður en dómkvaddir menn hafa látið úrskurð falla um, hvort eiganda beri að selja ítakið. Það er ekki rétt skilið, að þeir geti komið í veg fyrir sölu, ef eigandi vill selja og það er metið af dómkvöddum mönnum, að ítak sé meira virði fyrir kaupanda en seljanda.

Þetta vil ég benda á, en ekki fara í þras. Skal ég svo játa, að jafnvel stórmennum getur skotizt, þó að skýrir séu, bæði hér og annars staðar. Eins og hæstv. dómsmrh. gat um, þá féll niður orð, en það má leiðrétta, og til samræmis við það mætti vera „mikil þörf“ í stað „viðlíka mikil þörf“, enda talaði landbn. um það, og getur það komið til athugunar fyrir 3. umr. — Held ég svo, að þetta sé ekki neitt, sem getur staðið í veginum fyrir samþykkt brtt.