23.10.1951
Efri deild: 19. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í C-deild Alþingistíðinda. (2924)

62. mál, ítök

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það er aðallega atriði í 1. málsgr. 5. gr., sem deilt er hér um. Það er bersýnilegt, að nm. úr hv. landbn. ber ekki alls kostar saman um það, hvað umráðamaður þýðir. Ég held nú, að auk þess, sem hv. 1. þm. N-M. minntist á, mundi umráðamaður hér vafalaust þýða ábúandi. Mér virtist sýnilegt, að hv. 11. landsk. skildi það svo, þótt hv. 1. þm. N-M. virtist skilja þetta á annan veg. Ég gat ekki skilið hv. 11. landsk. á annan veg, og eru þá komnar tvær skýringar á því, hvað orðið umráðamaður þýði. — Efnislega finnst mér sú kenning, sem kom frá hv. þm. Barð., ganga of langt. Það er ástæðulaust, að leigutaki á jörð hafi rétt til þess að mótmæla því, að ítak sé selt. Við skulum hugsa okkur, að tveir menn búi á jörð, sem svipað er ástatt um, en annar þeirra býr og er eigandi jarðarinnar, en hinn er leigjandi á jörðinni. Þá verður eigandi jarðarinnar að sætta sig við það, að ítak sé selt undan hans jörð, ef svo fellur matið. En aftur á móti ætti leigutaki, samkvæmt áliti hv. þm. Barð., að hafa ríkari rétt en eigandi jarðarinnar og ábúandi. Ég held, að það sé rétt, að leigutaki hafi sams konar mótmælarétt og eigandi. Ítakið getur verið hagsmunaatriði fyrir ábúanda. Þess vegna vil ég beina því til n., að það komi alveg skýrt fram af hennar hálfu, hvað orðið umráðamaður þýði, því að ég vil skilja það þannig, að hann hafi sama rétt og eigandi.