25.10.1951
Efri deild: 20. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í C-deild Alþingistíðinda. (2929)

62. mál, ítök

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Menn muna, að við 2. umr. hér kom fram töluverður greinarmunur í skoðunum á einstaka atriðum. Landbn. hefur því tekið till. og orðalag hennar til athugunar að nýju. Dómsmrh. var óánægðastur með orðalag hennar og þótti kenna þar ósamræmis, og því var það, að þegar við vorum búnir að ganga frá till., bar ég undir hann, hvort nú kæmu nógu greinilega fram þau atriði, sem deilt hafði verið um, og taldi hann það vera. Var hann og till. samþykkur eins og hún er nú. Í stað umráðamanns eru það nú 3 aðilar, sem geta beðið um, að dómkvaddir menn meti, hvort jörð hefur rétt til ítaks eða ekki, eigandi, umboðsmaður hans og ábúandi. Einhver þeirra getur óskað þess, að mat fari fram. Þegar svo hinir dómkvöddu menn hafa kveðið upp dóm um, hvort heimilt sé að selja ítak, er tekið fram og ætlazt til í 2. gr., að til skiptingar geti komið. Þegar þannig stendur á, að sá, sem ítak hefur, telur sig ekki geta misst það og hinn aðilinn hefur líka þörf fyrir það, þá mega dómkvöddu mennirnir láta skipta því. — Loks er svo þessu bætt orðrétt inn í síðustu málsgr.: „honum í vil“, en á ella að skiptast að jöfnu. Vonast ég til, að allir aðilar geti vel við unað.

Önnur brtt. hefur komið fram frá hv. þm. Barð., sem vill ekki, að sala fari fram fyrr en ábúendaskipti verða. N. hefur ekki rætt þessa till., en mér finnst hún vera ástæðulaus og það liggja í augum uppi, að ef jörð rýrnar, þá eigi að fara fram nýtt mat, og er það augljóst. Annars er mest af hlunnindunum út frá prestssetrum, en þau hafa ekki verið metin síðan 1918. Það mat hefur verið látið haldast síðan, þó að nokkuð mikil breyting hafi orðið á verðgildi íslenzku krónunnar, svo að það mat er orðið lágt. Þó held ég, að ekki þurfi að fara fram nýtt mat á prestssetrum, þó að þau kunni að missa ítök. Þeir búa við húsaleigumat, og þrátt fyrir l. hefur ekki verið lögð á það vísitala, og þeir borga 100 kr. um mánuðinn fyrir íbúðirnar, sem víða eru ágætar. Svo að þótt falla kunni einhver hlunnindi frá prestssetrum, þá skaðar það ekki, því að þau hafa ekki verið metin síðan 1918–20 og aldrei verið lögð á húsaleiguvísitala. Vona ég því, að menn geti verið samþykkir till. n. Eins og ég sagði áðan, bar ég hana undir dómsmrh. og skildist, að honum fyndist hún vel viðunandi og tekinn af sá vafi og mótsagnir, sem honum fundust áður, en ég áleit engar vera.