05.11.1951
Efri deild: 24. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í C-deild Alþingistíðinda. (2949)

91. mál, togaraútgerð ríkisins

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég er mjög feginn að hafa fengið upplýsingar um þetta mál í síðari ræðu hv. flm. Það er upplýst nú, að ekki sé ætlazt til, að keyptir verði til þessara nota hinir gömlu íslenzku togarar. Ég hefði ekki haft neitt á móti því, að það hefði komið fram í frv., að á þennan hátt mætti ekki nota féð. En það er kannske aukaatriði. — Ég get hins vegar ekki séð, hvað unnið væri við það t. d. á Ísafirði, að ríkið færi að kaupa þessa tvo togara, sem þar eru, af þessum hlutafélögum, sem reka þá eftir sömu siðferðisreglum og hlutafélög gera almennt, og veit ég ekki, hvað hv. flm. átti við með því orðalagi. Ég sé ekki, að það bætti neitt úr þessum málum, þó að ríkið tæki nú að sér að fara að reka þessa togara. nema því aðeins að það væri skuldbundið til þess að láta þessa togara leggja eitthvað af afla þeirra upp á þessum stöðum, þar sem þeir eiga heima, hvort sem rekstur þeirra getur borið sig með því eða ekki. Og væri það þá ekki nær af hv. þm. — og nokkuð seint hugsað þó af honum — að leggja til, að hin opinbera aðstoð til skipakaupanna væri bundin því skilyrði, a. m. k. um annað skipið, að hún væri veitt gegn því, að skipið skyldi undir öllum kringumstæðum fiska fyrir frystihúsin á þessum stöðum og leggja upp afla sinn þar, á Ísafirði, í Bolungavík, Hnífsdal og Súðavík? Því að ég minnist þess, að þegar þessi hv. þm. var að fá okkur þm. til þess að samþ., að togararnir yrðu keyptir þarna, þá var því haldið fram, að þetta væri gert til þess að bjarga fiskiðnaðinum þar. Ef til vill hafa þeir, sem ráðið hafa útgerð þessara skipa, ekki treyst sér til að haga rekstri þeirra á þann veg. Og ef svo væri, þá er ég ekki samþykkur hv. þm. um, að ríkið eigi að taka það að sér fyrir fólkið í landi, hvort sem tap væri að því eða gróði. Og ef hv. flm. vildi, hvort sem sú útgerð bæri sig eða ekki, skilyrðislaust, að Ísafjarðarkaupstaður skyldi kaupa þessa togara og reka þá þannig, að þeir legðu upp afla sinn á land þar, sem þeir eiga heima, þá finnst mér hv. þm. ætti að snúa frv. sínu upp í það, að heimilað yrði Ísafjarðarkaupstað að taka þessa tvo togara eignarnámi. (HV: Kannske hv. þm. Barð. vilji mæla með því?) Við skulum ræða um það, þegar málið er komið í það horf. Ég sé ekki heldur, hvaða lausn það er í atvinnumálum Reykvíkinga, þó að farið væri að kaupa togara, t. d. Kveldúlfstogarana eða Bjarna riddara í Hafnarfirði, sem er rekinn af hlutafélagi, og reka þá af ríkinu. Það er ekkert, sem getur bætt úr í þessum efnum annað en fjölgun togaranna, en þá er komið að því, að það verður að gerast nokkuð fyrir framtíðina; ég veit, að það er ekki hægt að gera á skemmri tíma en tveggja ára tímabili, og þá þarf líka að athuga að hafa þau atvinnutæki fyrir Íslendinga og rannsaka vel, hvaða veiðiskip henta fyrir okkar þjóð í framtíðinni. Í því efni skal ég segja hv. þm. mína skoðun. Ég hygg, að næstu togarar, sem verða byggðir fyrir Íslendinga, ef það verður gert að ráði ríkisstj., verði ekki þessi skip, sem hv. þm. talar um, heldur skip, þar sem allt er gert um borð, flatt, fryst o. s. frv., þannig að þau geti margfaldað tekjur sínar, og ég er eins viss um, að ef eitt slíkt skip yrði byggt, tveggja þilfara, þá yrðu aldrei byggðir neinir annars lags togarar fyrir Íslendinga, og ég þykist hafa nokkuð mikið fyrir mér í því, því að þegar reyndir útgerðarmenn ætla að fara að leggja til, hvers konar skip þeir vildu láta byggja fyrir Íslendinga, þá vilja þeir fá voldugri, nýrri og betur útbúin skip en þau, sem nú eru.

Hitt er svo glapræði, að ætla sér á þessum tímum, og hvaða tímum sem er, að fara að kaupa tilbúin fiskiskip inn í landið frá öðrum þjóðum, og það er m. a. vegna þess, að rekstrarkostnaður við slík skip er margfalt meiri en við þau skip, sem við höfum látið smíða. Þetta þekki ég af reynslu og get því fullyrt um þessa hluti. Ég skoðaði m. a. sjálfur í sumar nýtt, vandað brezkt skip, sem var til sölu, og ég skoðaði mörg af þeim nýju skipum, sem Englendingar höfðu byggt á þeim sama tíma sem við létum byggja okkar nýjustu togara, og ekkert af þeim eimskipum, sem ég skoðaði, hefði verið nokkurt vit í að kaupa til þessa lands. Hvert þeirra notar 2–3 sinnum meira af olíu en okkar skip vegna þess, hversu þau eru illa útbúin, og í þeim eru líka miklu lélegri vélar en við notum. Þetta skip var svo úr garði gert, að það var eitt hið prýðilegasta mótorskip, sem ég hef séð byggt í Englandi fyrir brezka útgerðarmenn. Það var þó svo, að það hefði orðið að kosta a. m. k. 2 millj. kr. til þess að komast nálægt þeim kröfum, sem gerðar eru hér á Íslandi, svo að ég tel ekkert vit í því að fara að kaupa notaða togara frá öðrum þjóðum til þess að fiska með hér við land. — Englendingar byggja nú mjög mikið af 125 feta bátum, sem þeir telja ágæta fyrir sig, en Íslendingar mundu ekki telja nein skip til þess að fiska á Halanum. Hið sama er að segja um Holland og Belgíu; þeir nota þessi skip í Norðursjónum, en þau geta ekki gengið hér á okkar veiðisvæði.

Ég held því, að það sé bezt að byrja á byrjuninni, úr því að við erum ásáttir um, að það eigi ekki að kaupa gömul skip. Þá er fyrst að vita, hvað skipin kosta, og síðan að taka það inn í frv. Mér er ekki kunnugt um verðlag skipa í dag, en skip, sem nú eru byggð fyrir 10 millj. kr., er ekki hægt að kaupa eða semja um í dag fyrir minna en 12–13 millj. Ég skal ekki um það segja, hvað tveggja þilfara togari mundi kosta, en við höfum séð Þór, og ég hygg, að hann mundi kosta 10 millj. kr. eða meira, og er hann þó engan veginn eins traustur og togari. Þá er hér um að ræða 40–50 millj., sem vert væri að minnast á í frv., ekki síður en þegar sett er heimild til að virkja vatnsföll; þá er tekið upp, hvað upphæðin skuli vera, enda mundi vera hægt að gera það, ef um það væri að ræða að smíða skip.

Hv. þm. segir, að það sé ekki hægt að krefjast þess, að þessi félagsskapur Ísfirðinga breyti um rekstur, meðan ekki er hægt að sanna, að annað fyrirkomulag borgi sig. Ég held, ef hægt er að sanna, að það sé almenningsheill að skylda bæjarsjóð Ísfirðinga til að eiga þarna hlut í, 50%, og þess utan er vitað, að Alþ. gerði sérstakar ráðstafanir til þess, að hægt væri að láta þetta skip ganga til þess að bæta úr atvinnuháttum Ísfirðinga, — þá held ég, að það sé engin goðgá að heimila Ísfirðingum að yfirtaka hinn hlutann, svo að þeir réðu yfir skipinu og gerðu það út eins og þeim hentar og bæru alla áhættuna og kostnaðinn. — Svo segir hv. þm., að ég sé gramur yfir því, ef einhvers staðar sé bæjarútgerð. Þetta eru hugarórar. Ég skýrði frá því að þessir menn kæmu í hungurgöngu til Alþingis, og hv. þingmaður hlustaði eins og ég á framsöguræðu borgarstjórans í Reykjavík, og ég veit ekki betur en að Reykjavík væri einn af þeim stöðum, sem togara fengu, en það var engu minni barlómur í honum en bæjarstjóranum í Hafnarfirði, sem sat við hliðina á honum. Báðir þessir staðir eru með bæjarútgerð, og þrátt fyrir það, þó að annar sé búinn að fá marga nýja togara og nýlega búinn að fá þá, þá voru þó ekki svo miklar atvinnubætur hjá þeim, að þeir þyrftu ekki að ganga beina hungurgöngu til fjvn. og biðja um fé beint úr ríkissjóði. Hinn bærinn hefur haft hin mestu aflaár og góðæri, sem verið hafa í togaraútgerð síðan Ísland byggðist. Alþ. hefur ekki átt sök á því, þó að því fé, sem þeir hefðu átt að greiða til ríkissjóðs, 500 þús. kr. á skip, hafi verið kastað í vitleysu í Krýsuvík, sem mjög mikið er deilt um, hvort ekki hefði verið rétt að setja í aukningu á flotanum. En ég hygg, að ekki komi mikið til baka til þegnanna í Hafnarfirði af þeim milljónum, sem búið er að setja í Krýsuvík, og kannske hefði verið skynsamlegra að nota það til þess að auka bæjarútgerð Hafnarfjarðar.

Ég held ég hafi ekki sagt annað en satt og rétt, að þessir menn hafi allir komið til Alþ. og kvartað undan því, hversu búið væri að rýra alla þeirra tekjustofna, og þeir óskuðu eftir að fá allt að því helming af 77 millj. kr. tekjustofni ríkisins til þess að bæta hag sinn, og alveg eins þau bæjarfélög, sem stórútgerð hafa.

Þá sagði hv. þm., að honum fyndist ég hræddur um, að þörf væri á að útvega hráefni, en hann vildi heldur ræða um togarana. Það er allt annað mál og líka, hvort hægara er að skipuleggja aðrar atvinnugreinar á þessum stöðum en að kaupa togara fyrir 40–50 millj. og hvort ekki er hægt að gera fleira en hér er gert ráð fyrir, ef á að bæta úr atvinnuleysinu, og þá sé eðlilegt að láta athuga, hvernig það verði gert sem fljótast og bezt. Það er m. a. íþyngt ákaflega mikið öllum þessum stöðum sökum þess, að þeir eru afskiptir með rafmagnið, og ég hygg, að sumir þeirra þyrftu ekki mjög fjárfreka aðstoð í sambandi við iðnað til þess að bjarga verulega á þeim tíma, sem að þeim kreppir, en höfuðskilyrðið í því sambandi er ódýrt rafmagn. Ég segi þetta ekki vegna þess, að ég sé á móti því, að Íslendingar eignist enn þá 4 togara; það er annað mál, og það má vel ræða um það, hvort ekki eigi að undirbyggja að kaupa enn fleiri skip fyrir ríkið, en alls ekki á þann hátt, sem hér um ræðir.

Svo spurði hv. þm., hvort ég áliti vonlaust verk að reka togara með ríkisútgerð. Náttúrlega er það ekki vonlaust, ef nægilegt fé er til þess að borga, hvernig sem gengur, en það er mín skoðun, að ríkisútgerð á togara verði ekki hagkvæmari en ef einstaklingur rekur hann. Ég sé t. d., að nú eru reknir hér tveir strandferðabátar, 300 tonn hvor, og er áætlað, að þeir kosti 800 þús. kr. hvor í tap. Það er einn strandferðabátur í Faxaflóa, Laxfoss. Ég veit, að hann væri fyrir löngu stöðvaður, ef ætti að ætla honum 800 þús. kr. í tap. Þó er ljóst, að hann er engan veginn á heppilegra svæði til tekna en hin skipin, og kann að vera eitthvert tap af því. — Og hvernig var með sérleyfisferðirnar milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, sem fyrrv. ráðh. þessa ágæta flokks stjórnaði og stjórnaði þannig, að hann greip til þess að taka orlofsféð til að standa undir rekstrinum, þangað til sjálfstæðismenn björguðu því þannig að selja vagnana til einstaklinga. Nú skilst mér, að ríkissjóður sé farinn að fá tekjur af þessum rekstri í gegnum þessa einstaklinga. Þetta er skýrt dæmi um það, hvernig ríkisrekstur gengur. Ég segi ekkert um það, hvort það er vonlaust verk að reka togara með ríkisútgerð, en ég hef þá bjargföstu skoðun, að það sé betur séð um þau mál, ef þeir eru reknir af mönnum, sem eiga hagsmuna að gæta, heldur en af ríkinu. — Það má líka nefna útgerðina á Gretti. Ég veit ekki til, að það hafi komið fyrir annars staðar, að skipstjóri, stýrimaður og vélstjóri hafi haft stórar fjárfúlgur í yfirvinnu, en það sýnir sig á reikningunum, að allir þessir menn hafa haft stórar fjárfúlgur í yfirvinnu, og það þarf enginn að segja mér, að skipstjórar og stýrimenn á íslenzkri útgerð þurfi ekki að vinna meira en 8 tíma. — Þá þekkja allir, hvernig fæðiskostnaðurinn var, því að það var gerð um það fyrirspurn, og ég hygg, að þegar athuguð er útgerð á öðrum skipum, sem ríkið rekur, þá sannfærist menn um, að það sé ekki æskilegt form á rekstri útgerðar, að ríkið hafi það með höndum.