06.11.1951
Efri deild: 25. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í C-deild Alþingistíðinda. (2955)

93. mál, skattfrelsi sparifjár

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég kann ekki við að láta þetta frv. fara umræðulaust til n., ekki sérstaklega vegna þess, að frv. í sjálfu sér sé svo veigamikið eða hafi mikla þýðingu, hvort það verður samþ. eða ekki, heldur af því, að hér er hreyft við máli, sem vissulega er ástæða til að vekja athygli á. Þetta frv. er skýlaus viðurkenning á því, að með þessari stöðugu verðfellingu peninganna, sumpart með vaxandi verðbólgu og sumpart með lækkandi skrásetningu gengis íslenzkra peninga, þá hefur eignahlutföllunum innanlands verið raskað stórkostlega, án þess að nokkuð hafi verið gert til þess að jafna metin milli þeirra, sem grætt hafa og tapað, eins og þó að vísu var látið heita í þinglöggjöfinni frá 1950, að greiða ætti t. d. uppbót á sparifé eftir þeim reglum, sem þar voru settar. Þó var viðurkennt af öllum og vitað þegar í upphafi, að slíkt var hégómi einn, sem þá var sett í l. um þetta, því að bæturnar námu engu, sem nokkru nam. Á sama hátt var gert ráð fyrir því, að hinir, sem græddu á gengislækkuninni, skyldu greiða sérstakan stóreignaskatt, sem rynni til almenningsþarfa. Furðuhljótt hefur verið um framkvæmd á því efni til þessa. Það væri gott að fá upplýsingar um það. — Þetta frv. er því skýlaus viðurkenning á því, að með opinberum aðgerðum hafi grundvelli í þessum efnum stórkostlega verið raskað, þ. e. eignaskiptingunni milli manna innanlands, og að það beri að sýna einhverja viðleitni til þess að bæta úr þessu. En þær ráðstafanir, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., eru að minni hyggju hvorki bætur til þeirra, sem fyrir óréttlæti hafa orðið, né heldur líklegar til þess, að öðru óbreyttu, að auka sparifjáröflunina. Það skattfrelsi, sem hér er um að ræða, nær aðeins til eignarskatts, þ. e. a. s. sparifjár, sem fellur undir ákvæði frv., að það skuli ekki vera skattskylt til eignarskatts og að vextir af því fé skuli ekki vera skattskyldir til tekjuskatts, ef þeir eru lagðir við höfuðstólinn.

Það er augljóst mál, að fyrir allan þorra manna hefur þetta frv. sáralitla þýðingu. Það er alveg eins og ákvæðin í gengislækkunarl. um, að greiða skyldi uppbót á sparifé, sem reynt er að friða menn með, en hefur í raun og veru enga þýðingu.

Ég vil leyfa mér að benda hv. flm. á það í þessu sambandi, að það eru önnur atriði og atvik, sem hafa miklu meiri áhrif á sparifjársöfnunina en þetta atriði um skattskylduna. Fyrir tæpum 2 árum mun hafa kostað hér í Reykjavík eitthvað um 400–500 kr. hver rúmmetri í nýbyggðum húsum. Síðan gengið var lækkað, er mér sagt, að nú kosti 700 kr. hver rúmmetri, ef á að koma upp jafngóðum húsum, sem áður kostaði 400–450 kr. rúmmetrinn f. Það gerir enginn óvitlaus maður að geyma fé sitt og binda það í geymslu ákveðinn tíma, ef hann óttast, að það verði stórum verðminna, er hann þarf að grípa til þess síðar. Maður, sem í ársbyrjun 1950 hefur sparað saman 1000 kr. og hættir við að kaupa sér föt, en leggur féð í þess stað í banka og kaupir svo fötin nú, þegar þau kosta um 2000 kr., fær ekki nema hálf föt í staðinn fyrir heil fyrir upphæðina. Það er ekki til nokkurs hlutar að vera að blekkja sjálfan sig í þessu efni, að sú stefna er hér ríkjandi í fjárhagsmálum, sem hindrar menn í því að spara fé sitt og veldur því, að þeim finnst sjálfsagt að breyta því í varanleg verðmæti í stað þess að geyma það í bönkum og fá svo helmingi minna fyrir það. Þetta er sá ömurlegi sannleikur, sem verður að horfast í augu við. Það, sem ætlazt er til skv. frv. þessu, er hégómi, þegar litið er á hina stórfelldu verðlækkun á peningum, sem orðið hefur undanfarið, og það er furðuleg hræsni, þegar talað er um, að hörmulegt sé til þess að vita, að almenningur skuli ekki leggja fé sitt í banka. Það er vissulega hörmulegt til þess að vita, en það er ekki von, að hann geri það, þegar hann er fældur frá því með þeirri stjórn. sem verið hefur á þessum málum undanfarið. Þeim, sem lánað hafa út peninga sína til framkvæmda, hefur verið refsað með því, að þeir hafa fengið til baka langtum minna virði en þeir lánuðu út. Sannleikurinn er sá, að það þýðir ekki að vera með neinar kákráðstafanir til að efla sparnaðinn, nema fólk hafi þá trú, að peningarnir séu jafngóðir þegar þeir eru teknir út og þegar þeir eru lagðir inn. Því meiri efi sem er um þetta, því ólíklegra er, að fólk spari, enda alveg augljóst, að flm. er ljóst, að svo er, og hann víkur að því síðar í grg. frv., en þar segir:

„Hitt er svo annað mál, að líka gæti rétt verið að tryggja sparifé — eða innláns- og útlánsfé yfirleitt — gegn verðgildisfalli. Sennilega mætti framkvæma þetta á þann hátt að taka upp vísitölureikning á því eins og launum, þótt ekki sé till. um slíka vísitölu gerð í þessu frv.“

Á þessu sést, að hv. flm. er ljóst, að það eru ekki skattarnir og óttinn við framtöl, sem veldur því, að menn spara ekki, heldur bara óttinn við, að menn láti meira út en þeir fá inn. Ég skal játa, að það mætti tryggja sparifjárinnstæðurnar með einhverjum ráðstöfunum í þá átt, er hv. þm. drepur á í grg., t. d. með vísitöluútreikningi. En með þeim breytingum, sem undanfarið hafa orðið á vísitölunni, þyrfti talsvert fé til, að slíkt gæti orðið nokkur trygging. Þeir, sem keypt hafa ríkisskuldabréf, gætu þá einnig krafizt, að sér væri sýnd sama virðing. Og þá vaknar sú spurning, hvaðan ætti að fá fé til að halda sparifjáreigendum skaðlausum. Á það drepur hv. þm. ekki. Nú er vitað, að þeir, sem á nokkrum síðustu árum hafa verið svo lánsamir að eiga fasteignir og skulda sem mest, hafa grætt á ráðstöfunum stjórnarvaldanna að undanförnu. Þeim mönnum, sem voru svo heppnir að eiga hús fyrir gengisfellinguna, sem eru 400–450 m3, dettur ekki í hug að hafa sjálfsagða hliðsjón af því og meta. hvað kostar að byggja slík hús nú. Eignaaukning fasteignaeigenda hér eingöngu nemur mörgum millj. kr. Þetta er hrein gjöf til manna, sem strikaðar eru út skuldir hjá jafnframt því, sem fasteignir þeirra eru stórhækkaðar í verði. Á sama tíma og þeim, sem skulda, hefur verið færð þessi gjöf, hefur verið gerð verðlækkun, sem ekki hefur verið bætt, á sparifjáreign landsmanna, og hún verður ekki bætt, nema peningarnir verði teknir frá þeim, sem grætt hafa á þessum ráðstöfunum. Nú má hv. flm. ekki ætla, að ég vilji hindra það, að málið fari til nefndar, þó að ég vilji benda á, að meginatriðin séu ekki tekin fram í þessari grg.