06.11.1951
Efri deild: 25. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í C-deild Alþingistíðinda. (2958)

93. mál, skattfrelsi sparifjár

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég vil fyrir mitt leyti taka undir þau ummæli, er liggja til grundvallar þessu frv. hjá hv. flm. Það getur vel verið, að það þyki ekki nógu djúpt tekið í árinni, en frv. er að mínum dómi, ef samþ. verður, hugmynd að spori í rétta átt.

Það er alkunna, að nú sem stendur og nokkuð lengi undanfarið er búið að vera það ástand, að mjög erfitt er með útvegun lánsfjár, þó að trygging sé ekki til fyrirstöðu. Og maður verður að fara að trúa, að fyrirstaðan sé ekki eingöngu þrjózku bankanna að kenna, heldur líka getuleysi, og það getuleysi er fjárskortur. En til þess að bæta úr þeim skorti þyrftu lánsstofnanirnar að hafa meira fé. Það er langæskilegast, að úr þessu sé bætt eftir megni á þann hátt að landsmenn leggi til sitt sparifé, svo að hægt sé að nota það sem lánsfé. Þó er leið til að bæta úr lánsfjárskortinum, og hefur hún verið farin, en hún er sú að taka erlend lán. Getur það ekki talizt nein goðgá, þegar um sérstök rekstrarlán er að ræða til fyrirtækja, sem geta tiltölulega fljótt skilað þeim peningum aftur í fjárhirzlurnar.

Ég held, að það, sem hv. flm. segir bæði í grg. frv. og einnig síðar í ræðu um málið, eigi við rök að styðjast. Álít ég einnig, að rétt sé að sannprófa allt, sem miðað getur að því að efla og auka sparifjársöfnun í landinu. Það er nú svo fjarskalega margt í okkar þjóðfélagi, sem vinnur á móti því, að vilji skapist til að safna fé, en viljinn verður fyrst og fremst að vera fyrir hendi, ef einhverju á að safna. Ég tel, að þetta frv. stefni mjög í rétta átt til þess að styrkja þennan vilja.

Ég á ekki sæti í þeirri n., sem málið fer sennilega til, en vil fyrir mitt leyti láta þessar fáu aths. fylgja því til n. Það væri mjög æskilegt, ef fært þætti að færa hugmyndina út á yfirgripsmeira svið. Skal ég ekki á þessu stigi málsins leggja neinn dóm á, hvort það geti tekizt, en vissulega væri þörf á því að gera öflugar ráðstafanir til þess að örva og hvetja landsmenn til að spara. Ég vil einnig drepa á, að sérhvert ár kemur út bók, sem hefur að geyma upplýsingar um skattálagningu, bæði tekju- og eignarskatt, t. d. Reykvíkinga. Er það næsta furðulegt að sjá þann mismun, sem virðist vera á eignum manna. Það er svo, að það er ómögulegt að trúa því um suma þessara manna, sem engan eignarskatt greiða, að þeir eigi ekkert til. Það er ekki hægt að fá sig til að trúa því, að hér sé um svo mikla óráðsíumenn að ræða, sem hafi sóað svo sínum fjármunum, að eftir að þeir eru búnir að vera lengi í vel launuðum stöðum, eigi þeir enga fjármuni til að greiða af til ríkisins. Hvað spariféð sjálft snertir, þá er það, eins og hv. flm. hefur bent á, stór þáttur í framkvæmdum og styrkur sá, sem hann kallar orkuver fyrir þjóðfélagslegar athafnir landsmanna. Það orkuver er fengið með samþykkt þeirra ákvæða, sem hér um ræðir, og væri ekki lítill stuðningur að því.