06.11.1951
Efri deild: 25. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í C-deild Alþingistíðinda. (2959)

93. mál, skattfrelsi sparifjár

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég býst ekki við, að ég tali hér mikið í þessu máli, þar sem það fer væntanlega til n., sem ég á sæti í. En það hafa fallið hér ýmis ummæli um þetta mál. Þó að ég ætli ekki að svara þeim lið fyrir lið nú, get ég ekki látið hjá líða að minnast nokkuð á þau.

Mér finnst, að einkum hjá hv. 4. þm. Reykv. (HG), og reyndar einnig hjá hæstv. viðskmrh., hafi komið fram sú skoðun, að þetta frv. sé næsta lítils virði. Ég fyrir mitt leyti vil nú þegar láta þá skoðun mína í ljós, að ég álít þetta frv. töluvert mikils virði. Skal ég reyna að rökstyðja að nokkru þessa skoðun mína, en þó aðeins stuttlega, og vísa til þess, sem hv. flm. þessa máls hefur hér sagt. — Í fyrsta lagi álit ég, að einmitt í þessum efnum hafi verið beitt svo hróplegu ranglæti undanfarin ár, að það sé mikils virði að stíga þótt ekki sé nema eitt spor í réttlætisátt. Það er vissulega alveg hróplegt ranglæti, sem hefur komið fram í skattamálunum á þann hátt, að fasteignir hafa ekki fallið í verði eins og peningar og hafa ekki rýrnað að gildi, en þeir, sem hafa átt peninga í sparisjóðum og í bönkum, hafa orðið að telja þá fram upp á eyri. Eru þeir svo skattlagðir í samræmi við það, þó að þessar eignir þeirra séu sílækkandi að verðgildi. — Eins og komið hefur fram hjá hv. flm., þá er það alveg áreiðanlegt og er ég sannfærður um það, að þessar aðgerðir, þótt ekki væru þær stórfelldar, mundu samt greiða mjög fyrir því, að menn vildu leggja fé sitt í banka og sparisjóði, spara og geyma peninga sína. Hefur verið svo undanfarið, að peningastofnanir hafa verið í hreinustu vandræðum með lánsfé. — Mér er það vel kunnugt af viðtölum við ýmsa menn, að fólk vill ekki eiga peninga. Það segir. að peningar séu verðlausir eða séu að verða verðlausir og þá sé um að gera að koma þeim í eitthvað.

Bæði hv. 4. þm. Reykv. og hæstv. viðskmrh. hafa gert of litið úr þýðingu þessa frv., sem er mikilvægt, ef það nær fram að ganga. Ég skal nú segja dæmi um þetta, sem ég er svo nákunnugur, að enginn getur verið því kunnugri en ég sjálfur. Það er um mann, sem átti að borga eitthvað um 400 kr. í eignarskatt árið 1950, og svo var þar að auki tekið tillit til eigna hans í útsvari í þeim bæ, sem hann átti heima í, og voru það um 1000 kr., sem voru lagðar á eignirnar í útsvarinu. En þessi maður var að byggja hús, sem var það langt komið um síðustu áramót, að búið var að meta það til skatts. Eignin, sem hann átti 1949 og kom til skatts 1950, var peningar, en það, sem kom til skatts 1951, var hús. Þá fór það þannig, að maðurinn borgar engan eignarskatt og útsvarið hans er tiltölulega 1000 kr. lægra en áður. M. ö. o., þá breytir þessi maður eign sinni úr peningum í hús, og það munar hann um 1400 kr. í útgjöldum. Að vísu eru 1400 kr. ekki miklir peningar nú, en fyrir þá, sem ekki eru sérstaklega tekjuháir, eru það þó peningar, og það hefur sitt að segja. Undanfarið hefur það varla borgað sig að hafa peninga á vöxtum. Nú má segja, að frv. þetta sé þannig byggt upp, eins og það nú er, að það mundi ekki lækka útsvörin á þeim, sem leggja peninga fyrir í bönkum og sparisjóðum. Þar sem hv. flm. ætlast til þess samkvæmt frv., að peningar í lánsstofnunum verði taldir fram, þó að ekki eigi að greiða af þeim eignarskatt eða tekjuskatt af vöxtunum, þá mætti búast við því, að niðurjöfnunarn. mundi taka tillit til þessara eigna og leggja útsvar á samkvæmt þeim. Mætti taka það til athugunar í n., hvort ekki ætti að stíga sporið lengra og ákveða, að ekki mætti taka tillit til eigna í bönkum og sparisjóðum við útsvarsálagningu. Ef það væri gert, er ég sannfærður um, að frv. þetta hefði mikla þýðingu. Það mundi hvetja menn, sem eitthvað geta sparað saman af tekjum sínum, til þess að leggja sína peninga í lánsstofnanir.

Að vísu var margt athyglisvert, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði um þá eignaröskun, sem orðið hefur í landinu vegna verðfalls peninganna. Það er mörg sorgarsagan til í þessu sambandi. Tökum t. d. aldraðan mann, sem átti árið 1939 nægilega peninga til þess að geta lifað góðu lífi á vöxtum þeirra. Þó að hann eigi nú sömu upphæð, þá er það aðeins lítilfjörlegur styrkur fyrir hann. Þannig hafa sparsömustu mennirnir, sem spöruðu saman peninga sína til elliáranna, misst sínar eigur. En eins og hæstv. viðskmrh. vék að, þá er þetta ekkert einstakt fyrir Ísland og ekki heldur einstakt fyrir þá tíma, sem við lifum á. Að vísu hefur verðfall peninga verið stórstígara nú eftir að síðasta stríð hófst, en verðfall peninga hefur átt sér stað um margar aldir. Ég held, að það verði ákaflega erfitt að gera ráðstafanir til þess að bæta úr því óréttlæti, sem hefur átt sér stað. Ég sé ekki, hvernig hægt væri að bæta eigendum allt það tjón, sem þeir hafa orðið fyrir t. d. síðan árið 1939; ég veit ekki, hvar ætti að taka fé til þess. — Ekki lízt mér nú á það, sem bent er á í grg. frv., að setja vísitölu bæði á innlánsfé og útlánsfé. Það er hætt við, að það gengi æði illa að innheimta skuldir, ef verðfall yrði á peningum. Ég lít svo á, að þótt öllu réttlæti sé ekki náð, þá sé betra að ná nokkru réttlæti en engu. Einmitt þessar ráðstafanir gætu e. t. v. orðið til þess, að vextir legðust við höfuðstólinn. Gæti þá kannske gildi peninga í bönkum og sparisjóðum haldizt við, en með því fyrirkomulagi, sem nú er, þá fer því fjarri.

Ég skal ekki orðlengja þetta frekar, einkum vegna þess, að ég á fyrir höndum að fjalla frekar um þetta mál sem nm. Ég hef þá sannfæringu, að þetta frv. sé þýðingarmeira en margur hyggur nú í byrjun einmitt til þess að efla sparifjársöfnun í landinu, sem nú er allt of lítil.