06.11.1951
Efri deild: 25. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í C-deild Alþingistíðinda. (2960)

93. mál, skattfrelsi sparifjár

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið, en einstök atriði eru þess virði, að á þau sé drepið.

Hv. síðasti ræðumaður, 1. þm. Eyf., vill halda því fram, að þetta frv., sem hér um ræðir, sé vissulega mikils virði. Taldi hann þó hæpið, að það væri mikils virði, nema bætt væri inn í frv. þýðingarmiklu atriði, sem sé því, að þetta fé, sem hér um ræðir, væri ekki aðeins undanþegið tekjuskatti, heldur einnig útsvari. Það er vissulega þýðingarmikið, þar sem útsvör til bæjar- og sveitarfélaga eru um tvöfalt hærri en tekju- og eignarskatturinn í landinu. En jafnvel þó að svo verði gert, breytir það ekki þeirri skoðun minni, að frv. þetta hafi lítil áhrif til þess að örva menn til sparifjársöfnunar að öðru óbreyttu. Ég skal því til sönnunar, sem ég sagði, benda á sama dæmi og hv. 1. þm. Eyf. tók, hækkun síðan í ársbyrjun 1950. Ég geri ekki ráð fyrir, að þótt peningaeigandi hefði 400 kr. í eignarskatt og 1000 kr. í útsvar, svo að það væru samtals 1400 kr., sem hann ætti að sleppa við, eins og hv. 1. þm. Eyf. segir, að það munaði svo miklu, að þessi maður hefði heldur varðveitt peningana í banka en keypt húseignina, ef þetta hefði verið komið í lög. Ef maður þessi hefði keypt húseign í ársbyrjun fyrir um það bil 200 þús. kr., þykir mér ekki ósennilegt, að sú húseign yrði metin við árslok það ár á 300 þús. kr. Hagnaður vegna verðfalls peninganna væri því rétt um 100 þús. kr. Það er augljóst mál, að þótt maðurinn hefði verið laus við skatta, hefði hann ekki lagt þessa peninga í banka frekar en að kaupa húseignina. Breyting á verðgildi peninga hefur orðið svo mikil á þessum árum, að slíkir smámunir sem skattfrelsi samkv. frv. þessu hefðu ekkert að segja, jafnvel þótt gerð yrði breyting á því eftir ábendingu hv. 1. þm. Eyf. Frv. er því aðeins viðurkenning á því ranglæti. sem framið hefur verið gagnvart sparifjáreigendum á undanförnum árum.

Hv. 1. þm. Eyf. mælti rétt og skörulega, þegar hann sagði, að þjóðfélagið hefði framið hróplegt ranglæti gagnvart þeim sparsömu. Þetta er rétt, og þetta er ástæðan til þess, að menn hafa ekki viljað binda fé sitt í sparisjóðum. Þetta er einnig ástæðan til þess, að tilfinnanlegur skortur hefur verið á fjármagni til útlána í landinu. Það er bein afleiðing af því hróplega ranglæti, sem framið hefur verið undanfarið gagnvart sparifjáreigendum í landinu. Hv. 1. þm. Eyf. lýsti því einmitt svo, að margir vildu ekki eiga peninga og teldu, að það væri um að gera að breyta þeim í eitthvað. Ég tók ekki svo djúpt í árinni, en nefndi bara gagnlega hluti, sem menn vildu koma peningum sínum í. En það mun vera rétt hjá hv. þm., að menn vilji bara breyta peningunum í eitthvað, því að allt sé betra en peningar. Þegar svo er litið á málið, er ekki von, að vel fari.

Hv. þm. Vestm. (JJós) sagði, að ef menn litu í skattskrá Reykjavíkur, ættu þeir örðugt með að trúa, að ýmsir þeir, sem engan eignarskatt greiða, séu í raun og veru eignalausir. Mér fannst hv. þm. furða sig á þessu undarlega fyrirbrigði. Ef svo hefði verið, að hv. þm. Vestm. hafi ekki vitað, hvernig hagað er framtölum manna og hvernig fasteignir eru taldar fram til skatts, hefur hv. 1. þm. Eyf. upplýst hann í þessu efni, sem ég tel að hafi verið óþarft. Það er vitað mál, að með því að breyta lausafé sínu í fasteign, sem síðan er talin fram í framtali á fasteignamatsverði, skera menn eigur sínar niður á framtali um a. m. k. 90%. Stórvirkir menn, sem breyta lausafé sínu í fasteign, komast þannig undan skatti. Sá hagnaður, sem af því fæst, er svo margfaldur á við það, sem þau skattfríðindi, sem hér um ræðir, gætu nokkru sinni numið, að hver maður, sem ætti þess kost að gera slíka breytingu á eignum sínum, léti það ekki hjá líða. Það er augljóst mál. Sannleikurinn er sá, að ein allra stærsta synd okkar í fjármálalegum efnum er sú, að sá feikna gróði, sem hrúgazt hefur upp í höndum þeirra manna, sem hafa breytt lausafé í fasteignir, er gersamlega óskattlagður, bókstaflega engir skattar af honum greiddir. Það hafa komið fram sárar kvartanir um það frá bæjar- og sveitarstjórnum, að þær séu í vandræðum með að leggja á skatta, og er það ekki furða, þegar allur þessi gróði hefur einatt ekki verið gefinn upp.

Hæstv. viðskmrh. lét þau orð falla, að það, sem hér er um að ræða, væri ekki íslenzkt fyrirbrigði, heldur alþjóðlegt vandamál. Já, það er rétt; verðgildi peninga um heim allan hefur farið lækkandi frá því í síðustu styrjöld og fram að þessu, þótt eitthvað hafi það verið misjafnt. En mér er ekki kunnugt um nokkra þjóð, sem á síðustu 18 mánuðum hefur orðið fyrir jafnmikilli röskun í þessum efnum og við Íslendingar.

Hv. flm. sagði, að ég hefði tekið of sterkt til orða að segja, að það legðu engir fé á sparisjóð nema vitlausir menn. Ég komst ekki þannig að orði, heldur átti ég þar aðeins við þá, sem binda fé sitt í sparisjóði, og er það vitanlega allt annað en geyma það þar stuttan tíma. — En svo sagði hv. þm. í viðbót, að ef þetta væri rétt, sem ég hefði fullyrt, þá væru ýmsir vitlausir, meðal annarra forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins, sem legði allra mest kapp á að safna í tryggingasjóði. — Þetta er mesti misskilningur hjá hv. þm. Árið 1936 var samþ. hér tryggingalöggjöf, sem átti að starfa eftir þeirri meginreglu, að menn skyldu greiða ákveðið gjald í Lífeyrissjóð Íslands, er átti svo að geymast óeytt til elliáranna, þannig að menn gætu þá lifað að verulegu leyti á þeim peningum ásamt vöxtum. sem þeir hefðu safnað á 50 árum. Þessi löggjöf var ekki nema 10 ára 1946, en þá þótti einsýnt, að þessi leið væri ekki fær, því að auðséð var, að þeir peningar, sem söfnuðust, féllu svo mikið í verði, að þeir yrðu ófullnægjandi til þess að inna það hlutverk af hendi, sem þeim var ætlað. Árið 1946 var því horfið frá þessu fyrirkomulagi og komið á því skipulagi, sem nú hefur verið tekið upp í tryggingalöggjöfina. Visa ég í þessu til hv. þm. Barð., sem var ljóst, af hverju horfið var frá fyrra fyrirkomulagi, enda er auðséð af því, sem síðan hefur gerzt, að slík leið er ekki fær. — Ég get enn fremur glatt hv. flm., hv. þm. S-Þ., með því, að sú litla fjársöfnun, sem síðar varð hjá Tryggingastofnuninni, er löngu hætt, þannig að hv. þm. þarf ekki að hafa áhyggjur af því lengur. Þessa síðustu 18 mánuði mun láta nærri, að Tryggingastofnunin hafi greitt út nokkuð yfir 8 millj. kr. meira en tekjur hennar hafa numið, þannig að hv. þm. þarf ekki að hafa áhyggjur af þessu lengur. —

Ég álít, að sá vandi, sem nú ber að mæta, sé sá, hvernig girða eigi fyrir, að þessi halli hjá Tryggingastofnuninni haldi áfram, og vona ég, að hv. þm., sem hefur haft áhyggjur af fjársöfnun stofnunarinnar, snúi sér að því að ráða bót á þeim halla, sem hefur verið undanfarið. Ég skal viðurkenna, að það er ekki auðvelt að gera ráðstafanir til þess að kippa þessu í lag, — bæta fyrir þá efnahagsröskun, sem orðið hefur á síðustu árum í þjóðfélaginu. Ég er ekki svo gáfaður maður að geta ógilt það, sem gert hefur verið á undanförnum árum. Það, sem er mest áríðandi, er að girða fyrir, að slíkt endurtaki sig, og jafnframt, að þegar skattabyrðar eru lagðar á þjóðina, sé tekið tillit til þess, hverjir hafa hagnazt á röskuninni.

Þegar almannatryggingal. voru sett 1946, var beinlínis um það rætt, að sanngjarnt væri að einmitt þeir, sem höfðu lagt fé til hliðar til elliáranna, fengju að nokkru lífeyrisgreiðslu strax og l. gengju í gildi, vegna þess að þetta fé, sem þeir ætluðu sér að geyma, var búið að verðfella að verulegu leyti. Það er ekki nema viss hluti manna, sem hefur fengið bætur gegnum þetta, en ég tel eðlilegt, að Tryggingastofnuninni sé ætlað að laga þetta, og væri það þá undir fjárhag hennar komið. Það er rétt, sem hæstv. forseti sagði, að það er fyrir opinberar aðgerðir, að það sparifé, sem menn hafa ætlað sér að geyma til elliáranna, hefur verið að engu gert, og því skylda þess opinbera að bæta það, eftir því sem föng eru á.

Ég vænti þess, að hv. fjhn., sem nú fær þetta frv. til athugunar, leggi nú höfuðið í bleyti og sjái, hvort hún getur ekki lagt til, að einhverjar frekari ráðstafanir séu gerðar en í þessu frv. felast, þar eð ég tel þær algerlega ófullnægjandi.