10.01.1952
Efri deild: 56. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í C-deild Alþingistíðinda. (2969)

93. mál, skattfrelsi sparifjár

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það eru aðeins tvö atriði, sem ég vil taka fram. Það er í fyrsta lagi, að hjá almenningi ruglast oft saman hugtakið um skatta og útsvör, það er margt af fólki, sem lítur á skattana sem útsvar og öfugt. Nú geri ég ráð fyrir, að þetta sé ekki hugsað á þeim grundvelli, að það eigi að hafa nokkur áhrif á útsvarsálagningu á menn, heldur eigi það einungis að létta af þeim byrðum hvað snertir tekju- og eignarskatt. En ég er á hinn bóginn ekki eins viss um, að þessi hugtök kunni ekki að ruglast hjá ýmsum, þegar út í þetta verður komið. Ég er ekki viss um, nema það þyrfti að taka það sérstaklega fram, að hér sé eingöngu um það að ræða að létta af sköttunum, svo að það gagnvart almenningi líti ekki svo út sem það eigi einnig við um útsvörin.

Hitt atriðið er það, sem ég vil þakka hv. flm. fyrir, að hann hefur tekið fram, að þetta fé er ekki undanþegið framtalsskyldu. Það er alveg nauðsynlegt, að það sé gert, ef skattanefndir eiga að geta fylgzt með því, hver eignahreyfingin er hjá hinum ýmsu einstaklingum, því þótt maður viti, að það kemur ekki til mála, sem sumir halda fram, að þeir lifi — og það flott af 5–6 þús. kr.,— þó að maður heyri slíkt, dettur manni auðvitað ekki í hug að trúa því. Eða þegar ýmsir minni háttar verzlunarmenn þykjast ekki hafa nema 14–15 þús. kr., þá vita menn líka, að oft er um að ræða margfaldar þær upphæðir. Það er alveg áreiðanlegt, að ef á að vera hægt að ákvarða tekjur manna og eignir, þá má með engu móti hætta að telja þessar eignir fram á skattframtölum, þó svo ekki sé lagður á þær skattur. Ég segi þetta af því, að mér fannst hann vera að gefa það í skyn, að til mála kæmi. að fluttar yrðu brtt. um þetta atriði, en ég segi það eins og það er, að ef á að hætta að telja þetta fram, þá er þar með búið að taka af okkur það eina, sem við höfum við að styðjast til að reyna að hafa kontrol á þessu.

Þá er lagt til í þessu frv., að forstjórum peningastofnana sé skylt að gefa upp, hverjar og hverra innstæður séu hverju sinni. Þetta er alveg nauðsynlegt, svo að hægt sé að hringja í þá peningastofnun og vita, hvernig þeim málum er þar háttað, og vænti ég, að menn fari ekki að bera fram þar við brtt. En hitt bið ég menn aftur að athuga, hvort ekki er rétt að taka það fram, að hér er aðeins um skattfrelsi að ræða, en ekki undanþágu frá útsvarsskyldu. Ég veit um fjölda manns, sem ruglar sífellt þeim tveimur hugtökum saman, og það menn, sem maður mundi ekki trúa slíku um að fyrra bragði.