07.11.1951
Efri deild: 26. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í C-deild Alþingistíðinda. (2984)

94. mál, Fyrningarsjóður Íslands

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Mönnum hér í hv. d. er kunnugt um, frá umr. um önnur mál áður, að ég hef verið með því í mörg ár, að tekinn væri upp skyldusparnaður. Og hér er í raun og veru um skyldusparnað að ræða í þessu frv., sem miðaður er þó við fasteignaeigendur eina (GJ: Og eigendur skipa.) — það eru fasteignir að vissu leyti, — en aðra ekki. Hins vegar er ég dálítið hissa á að sjá þetta frv. koma fram frá sjálfstæðismanni, þar sem sjálfstæðismenn telja sig alltaf vera sérstaka málsvara fyrir athafnafrelsi manna viðkomandi eigum sínum, því að hér er náttúrlega mjög skert athafnafrelsi manna með ákvæðum þessa frv., ef samþ. verða, viðkomandi eignum þeirra. En ég er með því, að það sé gert á þennan máta, og tel, að það þurfi að gera það, og ég gleðst af því að heyra, að hv. flm. skuli vera þar á sömu skoðun.

En það, sem kom mér sérstaklega til að standa upp, er, að ég vil benda á, að á þessu frv. eru að mínum dómi nokkur veruleg smiðalýti, sem þarf að taka til athugunar. — Nú sem stendur situr, fyrir atbeina hæstv. ríkisstj. og eftir till. frá Alþ., milliþn., sem á að athuga bankamálin yfirleitt. Og þó að þetta frv. hér sé nú ekki kallað bankamál, hlýtur eitt af verkefnum þeirrar n., sem ég gat um, að vera það að finna leiðir til þess, að hægt sé að fullnægja, eftir því sem frekast er unnt. lánaþörf manna til ýmiss konar framkvæmda, þar á meðal þeirra. sem hér í frv. er talað um. Og þess vegna hlýtur sú n. líka að athuga, hvort hún getur lagt á þjóðina eða hluta hennar einhverja ákveðna skatta, eins og hér er gert ráð fyrir, til þess að geta fullnægt lánaþörf einstaklinganna. Ég er þess vegna í vafa um það, hvort Alþ. það, er nú situr, á að gera annað við þetta frv. — og á það vil ég benda n. — en að beina því til milliþn. í bankamálum, til þess að hún athugi, hvort hér er ekki ein af þeim leiðum, sem hægt sé að fara til þess að auka lánsfé peningastofnana.

Þá vil ég benda á, að eftir frv., eins og það liggur fyrir, eru nokkrar fasteignir, sem mér hefur virzt við fljótlegan yfirlestur frv. að væru alveg undanskildar öllum gjöldum, og það eru þau ca. 30% af jörðum, sem einstakir menn eiga en eru í leiguábúð. Það má að vísu segja, að eftir A-lið 3. gr. verði þeir skyldir til að greiða gjaldið, en 4. gr. undanskilur þá aftur beint undan því, því að þeir fá engan fyrningarfrádrátt á sínum skattskýrslum til fyrningar á jörðum, sem þeir eiga. Ákvæði frv. eru bundin við það, að þeir fái fyrningarfrádrátt á skattskýrslum, og það, sem þar kemur fram, á að renna í fyrningarsjóðinn, en um einn þriðji hluti af jörðum þessa lands er í eigu einstakra manna, sem búa ekki á þeim og hafa því ekki neinn frádrátt á sínum skattskýrslum vegna þessara eigna og sleppa því algerlega undan greiðslu í fyrningarsjóðinn eftir frv., og það veit ég að er ekki meining hv. flm. — Sömuleiðis held ég, að það sé ákaflega vafasamt, hvort ekki á að láta þetta fé verða eign og fylgifé fasteignanna, sem það er borgað af, þannig að það sé selt með fasteigninni og ekki sé mögulegt að taka það út úr sjóðnum, þegar minnst varir, og enn fremur að láta það aðeins verða tekið út í þeim tilgangi að bæta eignina eða efla á einhvern hátt, en ekki sé mögulegt að taka það út í öðru skyni. Það er það, sem gert er viðkomandi fyrningargjaldi, sem lagt er á jarðir, sem byggðar eru eftir erfðaábúðarlögunum. Þar eru fyrningargjöld lögð í sparisjóðsbækur viðkomandi jarða, og það fé má ekki út taka nema til þess að bæta viðkomandi jarðir og með sérstökum skilyrðum.

Fleira tel ég að þurfi að athuga nánar og breyta í frv., en vil ekki fara út í það sérstaklega. En mig langaði mikið til þess, ef hv. flm. sæi sér fært að leggja í það vinnu, að fá dálitla hugmynd um, hve mikið mundi koma í þessar einstöku deildir fyrningarsjóðsins. Það er tiltölulega fljótlegt að gera það. Ég gæti trúað, að það væri eins eða tveggja daga verk, ef maður næði í rétta aðila í síma til þess að spyrja um þetta. En það þyrfti að vita, hvaða verðmæti liggja í eignum þeim, sem hér er gert ráð fyrir að greiða fyrningargjald af í sjóðinn, til þess að geta vitað, hvað væri eðlilegt og réttlátt um það, hversu hátt gjaldið þyrfti að vera í einstökum tilfellum. Ég vænti þess. að n., sem fær málið til athugunar, afli þessara upplýsinga, ef n. vill afgr. þetta frv. á þinginu nú, en ekki láta milliþn. í bankamálum fá það til athugunar og vita, hvað hún getur úr því gert.

Þá vil ég loks benda á, að ég tel ákaflega vafasamt, hvort ástæða er til að hafa sérstaka yfirstjórn yfir þessu, þar sem þessum sjóðsdeildum, sem þarna mundu myndast eftir ákvæðum frv., er ætlað að vera ávaxtaðar í opinberum stofnunum og fé þeirra lánað þaðan út, og vitanlega eru stjórnir yfir öllum þessum opinberu stofnunum. Mér virðist að sú yfirstjórn yfir þessu, sem gert er ráð fyrir í frv., yrði ekki nema nafnið og bara til þess að hirða sín laun og annað ekki, því að þessari yfirstjórn er ekki ætlað annað en að segja til um, hve langan tíma lánað er út fé úr sjóðnum, og það getur yfirstjórn viðkomandi stofnana, sem nú er, gert.

Loks vil ég benda á, að einhver verður að leggja á þennan skatt og ákveða, hve hár hann skuli vera af hverri einstakri fasteign. Það mundu að öllum líkindum vera skattan., sem það gerðu og tilkynntu það um leið innheimtumönnum. En hér er ekkert um þetta, og það er náttúrlega alveg vöntun, því að það verður einhver að ákveða þetta, þó að það sé vafalaust vandalitið að leggja hann á eftir frv. Það er samt sem áður ástæða til, að hægt sé að kæra þá álagningu og leiðrétta hana, ef hún af einhverjum ástæðum er rangt talin, t. d. af þeirri ástæðu, að maður sé enn talinn eigandi að fasteign, sem hann raunverulega er búinn að selja, eins og hefur komið fyrir hvað eftir annað í kærum manna til ríkisskattan., að slík atvik hafa legið fyrir. Og þó að vandalítið sé að ákveða skatthæðina, þá geta tölur í þessum efnum af einhverjum ástæðum orðið rangar, t. d. af reikningsskekkju, og þess vegna þarf líka í l. að gera ráð fyrir því, að hægt sé að koma fram með kæru út af því, að skatturinn sé ekki rétt ákveðinn. Því þarf að taka til, að þetta sé gert af einhverjum vissum aðila, en hér er ekki gert ráð fyrir neinum slíkum ákveðnum aðila. — En ég er hugmyndinni um innheimtu þessara gjalda fullkomlega sammála og þessari sjóðsstofnun. Ég tel, að einstaklingsframtakið sé svo mislitt og misjafnt hjá þeim, sem eiga fasteignir og skip í landinu, að það opinbera þurfi að taka fram fyrir hendurnar á eigendum þeirra, eins og gert er hér ráð fyrir, og segi: Við viljum, að ykkur líðist ekki að níða þessar eignir niður, heldur skuluð þið halda þeim vel við, og þess vegna leggjum við þetta á ykkur, þó að það sé skerðing á ykkar athafnafrelsi. — Ég er glaður yfir því, að það eru þó til sjálfstæðismenn, sem líta þannig á, að það þurfi að grípa fram fyrir athafnafrelsi manna hér á þessu sviði, — og kannske líka til þess að ákveða, hvað menn megi selja vörur sínar háu verði, en af sumum þykja stundum miður réttlátar ráðstafanir að vera að skipta sér af því.