07.11.1951
Efri deild: 26. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í C-deild Alþingistíðinda. (2986)

94. mál, Fyrningarsjóður Íslands

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að benda hv. flm. á A-lið 3. gr., en þar stendur:

„Til hennar (þ. e. landbúnaðardeildar) skal greiða öll fyrningargjöld af jörðum og húsum og mannvirkjum, sem á þeim standa, hverju nafni sem nefnast, eins og þau eru ákveðin í lögum þessum.“

Og enn fremur vil é.g leyfa mér að benda honum á 4. gr.:

„Eigendur fasteigna, sem flokkaðar eru undir A-, C- og D-liði 3. gr., skulu árlega greiða í fyrningarsjóði viðkomandi deilda þær upphæðir, sem leyfðar eru sem fyrningarfrádráttur á rekstrar- og efnahagsreikningum og dregnar eru frá sköttum á skattaframtali . . .“

Þetta er efni þeirra, þarna kemur það. Það er ekki leyfður neinn frádráttur, ekki einn eyrir, á jarðeignir, sem eru í leiguábúð. Þetta þarf að laga. Það orkar því ekki tvímælis, að á þessu frv. eru miklir smíðagallar, og vildi ég leggja það til, að það yrði sent til mþn. í bankamálum og hún athugaði það í sambandi við lánsfjárþörfina.

Þá má og athuga, hvað mikið má leggja á, hvað mikið eigendur þessara fasteigna þola. Það má nú segja, að það sé stöðvun vegna atvinnuástandsins í heild, og það gengur ekki of vel að ná inn þeim sköttum, sem þegar eru á lagðir. Hvort þetta er skattur, skiptir ekki meginmáli. Þetta er gjald, og það er aðalatriðið, en ekki hitt, hvað það er kallað.

Þá er ekkert um það, hvernig þetta fé skuli innheimt. Menn verða að fá tilkynningu um það, hve mikið þeir eigi að borga, og ef þeir eru krafðir um of mikið gjald, þá þarf að vera einhver aðili, sem hægt er að kæra til og fá hjá leiðréttingu mála sinna.

Með þessu frv., ef að lögum verður, er verið að taka frjálsræðið af mönnum; það er verið að skylda þá til að leggja fé í sjóð, hvort sem þeir hafa til þess fjárhagsgetu eða ekki. Með þessu er verið að tak.a fram fyrir hendur manna, það er verið að skerða sjálfsákvörðunarrétt þeirra, og ég verð að segja, að ég er hissa á, að einn af valdamönnum Sjálfstfl. skuli verða til þess að bera það fram. En ef það er að verða stefna hjá þeim flokki að hefta eitthvað hið óbundna einstaklingsframtak, þá verð ég að segja, að það gleður mig. Ég er með stefnu frv. og tel eðlilegt, að það verði athugað vel og vandlega og síðan sent mþn. í bankamálunum, sem athugi, á hvern hátt verði bezt greitt úr lánsfjárþörfinni. — Ég tel líka, að eðlilegt sé, að fé hverrar stofnunar sé sett á sérstakan reikning og að það fylgi stofnuninni.

Þá vil ég telja, að vanti í frv., hvernig á að fara að, þegar þannig stendur á, að viðkomandi stofnun hefur ekkert fé til að greiða með. Á þá að láta gjaldið falla miður, eða á að ganga að eigandanum? Á að láta þá ýmsu, sem eiga að borga, en geta ekki borgað, sæta lögtaki, eða á að láta gjaldið falla niður?