07.11.1951
Efri deild: 26. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í C-deild Alþingistíðinda. (2987)

94. mál, Fyrningarsjóður Íslands

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir, að þetta mál fari til hv. fjhn., og vil ég segja nokkur orð um þetta frv., áður en það fari þangað.

Ég vil þá fyrst taka það fram, að ég álít, að þetta frv. sé athyglisvert og eigi fullan rétt á sér. Atburðir sýna, að fyrningarfé ber að nota samkvæmt tilgangi löggjafarinnar til að tryggja, að fyrningarafskriftin renni til að endurbyggja þau verkefni og fasteignir, sem gjaldið er greitt af. Það væri mikil bót, ef þetta tækist, en hins er ekki að dyljast, að á þessu eru miklir erfiðleikar. Það er þá í fyrsta lagi, að því fer fjarri, að slík sjóðmyndun nægi til að byggja upp atvinnutækin. Í bezta tilfelli mundi hún nægja til þess að halda þeim við, ef verðgildi peninganna helzt óbreytt, en varla er hægt að hugsa, að það geti orðið. Ég veit, að hv. flm. er þetta ljóst, en í grg. sést, að hann telur, að þessi sjóður verði voldugri en hann getur orðið. Hann getur ekki meira en haldið við þeim fyrirtækjum, sem féð er tekið af. Þetta er annað atriðið, sem ég vildi benda á vegna þess, sem fram kemur í grg., ekki til að draga úr gildi frv., heldur af því, að þetta þarf að athuga betur, áður en þetta mál verður afgreitt.

Hitt atriðið, sem ég tel, að athuga þurfi, er, að það fé, sem staðið hefur hjá fyrirtækjum og er af þeim tekið, verði lagt í sjóð, þar sem þau síðar geti fengið lán til rekstrar síns og það svo stórar upphæðir, að gagn verði að.

Að lokum vil ég svo taka það fram, sem skiptir mestu máli, til þess að þetta frv. nái tilgangi sínum, en það er, að peningarnir haldi verðgildi sínu. — Ég vil svo taka það fram aftur, að ég álít, að þetta frv. sé mjög athyglisvert, og vænti þess, að það verði tekið til gaumgæfilegrar athugunar.