10.10.1951
Neðri deild: 6. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í B-deild Alþingistíðinda. (3)

39. mál, lántaka vegna landbúnaðarframkvæmda

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Við 1. umr. fjárlaganna gerði ég nokkra grein fyrir horfum um útvegun lána og gat þess, að samningar við Alþjóðabankann hefðu leitt til þess, að bankinn hefði fallizt á að lána til landbúnaðarframkvæmda og áburðarverksmiðju sem svarar 32.6 millj. kr. Ekki er nákvæmlega tiltekið, hvernig þessu fé verður skipt, en áætlað er, að 17–18 millj. kr. fari til landbúnaðarframkvæmda, en 15–16 millj. kr. til áburðarverksmiðjunnar. Heimildin um lán til landbúnaðarframkvæmda er innifalin í l. nr. 43 frá síðasta þingi. Nú er ekki hægt að notast við þessa heimild af formlegum ástæðum, og verður því að hafa sérstaka lánsheimild, og því er þetta frv. samið. Vonir standa til, að lánið til landbúnaðarframkvæmda geti orðið 17–18 millj. kr., en það er ekki alveg útilokað, að það geti orðið meira, og þess vegna er farið fram á, að lánsheimildin verði allt að 20 millj. kr. Annars er frv. ekki annað en endurtekning á fyrri samþykkt Alþingis.

Nú stendur málið þannig, að þessa dagana er verið að reyna að ljúka við samninga varðandi þetta. Mér væri því kært, ef hv. þm. gætu fallizt á, að málinu yrði ekki vísað til n., þar sem það er í raun og veru ekki annað en endurtekning á fyrri samþykkt Alþ. Ef hv. þm. finnst það ekki viðurkvæmilegt, er rétt að vísa málinu til fjhn. Annars legg ég til, að málinu verði vísað til 2. umr.