29.11.1951
Efri deild: 36. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í C-deild Alþingistíðinda. (3004)

130. mál, orkuver og orkuveitur

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég skil mætavel, að Austfirðingar vilji koma þessu máli áfram og fá rafmagn, því að það vilja allir, og það sé fjarri mér að leggja nokkurn stein í götu þess máls, og kvaddi ég mér ekki hljóðs til þess. En það er svo með þessi rafmagnsmál almennt, að mér sýnist það talsvert alvarlegt, að vegna þess, sem Alþ. hefur gert með setningu raforkul. og ýmissa annarra laga, er það komið inn í fólk, að það geti fengið rafmagn á næsta ári eða hitt árið. Ég hygg, að það sé varla nokkurt heimili, sem hugsar sér, að það þurfi að bíða eftir rafmagni í 10 ár. Í viðtali, sem ég átti nýlega við raforkumálastjóra, skýrði hann mér frá því, að ef miðað væri við þá fjárveitingu, sem núna er á fjárlagafrv. og sama verðlag á þeim hlutum, sem til þessa þarf, mundi taka 60 ár að koma upp bæði aflstöðvum og veitum, sem ráðgerðar væru um landið. Ég er ákaflega hræddur um, að menn verði orðnir langeygðir eftir 60 ár, og má jafnvel búast við, að ekki þurfi rafmagn úr því. Kannske kjarnorkan verði þá komin og hægt að nota hana í stað rafmagns? — Hv. flm. komst svo að orði, að rafmagn yrði fólkið að fá, ef það ætti að halda áfram að byggja landið. Ég get tekið undir þessi orð. Annaðhvort verður fólkið að fá rafmagn eða það verður að fá að vita, að það fái ekki rafmagn af hálfu þess opinbera. Það er víða svo á þessu landi, sérstaklega í dölum og þar sem fjallabyggð er, að það eru bæjarlækir og önnur smá vatnsföll, sem hægt er að nota til virkjunar fyrir einstök heimili. Það er ekki vafi á því, að sumir bændur mundu hafa einhver ráð til að byggja rafstöðvar fyrir sig, en þeir gera það síður vegna þessara vona, sem kveiktar hafa verið hjá fólki um, að það fái rafmagn frá þessum stóru virkjunum, sem þegar er búið að byggja, og öðrum, sem ráðgerðar eru á sama hátt og gert er í þessu frv. Ég vildi beina því til hæstv. stj., að það verði reynt að gera um þetta áætlun, hvað hægt er að gera í framtíðinni, og fólk látið vita, hvers það má vænta. Ég held, að það versta í þessu séu vonirnar, sem sífellt eru að bregðast og hljóta að bregðast. Jafnvel bein loforð Alþ., fárra ára gömul, lítur út fyrir að eigi ekki að halda í þessu efni.

Ég hef svo ekki meira um þetta að segja, en álít, að við svo búið megi ekki standa. Ef ekki er hægt að hraða framkvæmdum miklu meira en lítur út fyrir að hægt verði að gera á næstunni, verður að segja fólki sannleikann um, hvernig þessi mál standa. Og þó að framkvæmdum verði hraðað, sem ég býst við að verði gert, við skulum segja helmingi meira en leit út fyrir eftir fjárlagafrv. eins og það var lagt fyrir Alþ., er ég hræddur um, að 30 ár að bíða eftir rafmagni þyki langur tími. Það er kannske þýðingarlaust í sambandi við þetta mál að vera að tala um þetta, en ég get ekki annað en notað hvert tækifæri til að minna á þau vandræði, sem Alþ. sjálft hefur komið sér í í þessum málum.