29.11.1951
Efri deild: 36. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í C-deild Alþingistíðinda. (3005)

130. mál, orkuver og orkuveitur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Mér þykir ekki óeðlilegt, þó að þetta vandamál sé rætt hér, og umræður um það er ekki hægt að skoða sem andstöðu gegn einstökum frv. í sambandi við nýjar virkjanir. Það er rétt, sem hv. 1. þm. Eyf. benti á, að því meira sem tekið er upp í tillögurnar um þetta, því lengri tíma tekur að koma því í framkvæmd og því lengri tími liður áður en allar þessar vonir eru uppfylltar.

Mér þykir rétt að benda á, að lögin sjálf, eins og þau nú eru, gera ráð fyrir, að landið verði lýst á þrennan mismunandi hátt. Í fyrsta flokki eru virkjanir, sem ríkið reisir sjálft eða í samvinnu við aðra, eins og virkjanirnar við Laxá og Sog. Í öðrum flokki eru héraðsrafveitur ríkisins, sem ríkið kostar og rekur og fær aðstoð frá raforkusjóði til að standa undir rekstri þeirra og byggingarkostnaði að nokkru leyti. Hallinn, sem kann að verða af rekstrinum fyrstu árin, er greiddur úr raforkumálasjóði, og eins ef einhver hagnaður kann að verða af rekstrinum, gengur hann til sjóðsins. Í þriðja flokknum eru svo héraðsrafmagnsveitur, þar sem ríkissjóður ábyrgist allt að 85% af kostnaðarverðinu. Geri ég ráð fyrir, að það ákvæði hafi verið sett til að hraða þessum málum og hafi átt að skapa þann möguleika, að héruðin sjálf legðu fram 15% og jafnframt stæðu undir rekstrarkostnaðinum. Það hefur sýnt sig, að þessi síðasta aðferð hefur ekki hjálpað til að auka raforkuframkvæmdir í landinu, nema siður sé, og kemur það af því, að þessar veitur geta ekki frekar en héraðsrafveitur ríkisins staðið sjálfar undir rekstrarkostnaðinum fyrstu árin, en hafa þungar búsifjar af rekstrarhalla. Þetta rekstrartap hefur svo verið lagt á ríkissjóð og hann orðið að greiða áfallnar skuldir, vegna þess að hann hefur staðið í ábyrgð fyrir kostnaðinum og enginn aðstoðað ríkissjóð til að standa undir erfiðleikum fyrstu áranna. Þess vegna hafa héruðin fallið frá því að koma upp hjá sér rafveitum eftir þessum ákvæðum 1. og gert sínar kröfur til ríkissjóðs. Þetta er meginástæðan til, að kröfur hafa verið gerðar til ríkissjóðs um byggingu rafveitna, og svo hitt, að héruðin hafa ekki getað fengið nein lán til að standa undir kostnaðinum, þó að boðin væri ríkisábyrgð. Meðan þetta ástand varir, stöðva ekki héruðin kröfur sínar til ríkissjóðs samkvæmt þeim l., sem gilda. Ég hygg, að það væri skynsamlegasta leiðin að taka upp athugun á því, hvort ekki væri hægt að styrkja héruðin, svo að þau sjálf gætu komið á hjá sér rafveitum á sinn kostnað, er stæðu ekki verr að vígi en héraðsrafveitur ríkisins, og létta þannig á ríkissjóði. En um það er ekki hugsað. Það er frekar hugsað um að taka við kröfum frá héruðunum og þá fyrst þeim, sem bezt eru stödd fjárhagslega. Það er hróplegt ranglæti, ef nokkurri till., sem kemur frá fámennu héraði, er vísað á bug, og ég tel misskilning hjá hv. 1. þm. Eyf., að heimild, sem var veitt til byggingar á aflstöð eða línu á ákveðnu ári, eigi nokkuð meiri rétt á sér lagalega eða siðferðislega en aðrar heimildir, er síðar hafa komið. Hitt er svo annað mál, að raforkuráð og raforkumálastjórnin hafa ákaflega sterkar tilhneigingar til að láta þau héruð, sem mannflest eru, ganga fyrir um að fá rafmagn, og raforkumálastjórnin telur sjálfsagt að láta rafmagn inn á hvern bæ, sem línan liggur fram hjá, og láta það ganga fyrir að setja rafmagn í fámennustu héruð landsins, þó að þar séu þorp, sem hafa fleiri íbúa en allar hinar dreifðu byggðir suðurlandsins. Ef svo reynist, að sama misræminu á að beita í þessum málum og gert hefur verið í hálfa öld við þessi héruð varðandi vega- og brúamál, er sýnilegt, að þetta verður einn sterkasti þátturinn í því að eyða dreifbýlinu. Það er ekki um að ræða aðeins, hvort þetta fólk eigi að fá rafmagn eins og fólkið í kaupstöðunum, heldur er um það að ræða, hvort eigi að þurrka þessa landshluta út og flytja fólkið úr dreifbýlinu og í þéttbýlið. Og þá er ekki aðeins um að ræða þetta eina mál, það á þá líka að hætta að leggja þangað vegi og byggja þar brýr og hafnarmannvirki, ef á að halda því áfram að leggja aðeins rafmagn í fjölmennu héruðin. Það er þá réttast að hætta alveg við fjárveitingar til þessara héraða, sem með þessu eru dæmd til að deyja. Ég held, að það væri mjög athugunarvert, hvort hæstv. ríkisstj. ætti ekki að láta rannsaka gaumgæfilega, hvort ekki væri hægt að hjálpa einstaklingum hér til að koma upp rafveitum. Það er rétt, sem hv. 1. þm. Eyf. benti á, að það eru margir menn í landinu, sem mundu hafa möguleika á að koma upp rafveitum sjálfir. En hver er afstaða raforkumálastjórnarinnar til þess máls? Það er heimild í raforkulögunum til að veita þessum mönnum 66% lán með 2% vöxtum, en þetta hefur verið skorið niður um helming og það þótt þessir menn uppfylltu þau skilyrði, sem sett eru í lögunum. Þetta sýnir, að það lóð er lagt á vogar skálina að torvelda fyrir þessum mönnum. Mér er kunnugt um, að m. a. á Vestfjörðum eru þessi mál rekin þannig. Sama er að segja, ef bændur byggja hjá sér rafveitur, einn eða fleiri saman, þá er þessi heimild ekki notuð nema að hálfu leyti. Ég er viss um, að fjöldamörg býli í landinu mundu geta lýst hjá sér með miklu minni stofnkostnaði á kw. og rekið það á mun hagkvæmari hátt og að hægara sé að koma því fyrir í framkvæmdinni en virkja allt í einu. Ég tel, að það væri athugunarvert, að þetta væri tekið til athugunar.

Ég mun svo að sjálfsögðu fylgja því, að þetta mál nái fram að ganga, og get lofað hv. flm. því, að það verði ekki stöðvað í iðnn. Ég tel það ranga stefnu að virkja einungis í þeim héruðum, sem eru fólksflest, en skilja alveg eftir svæði eins og Vestfirði og Austfirði. Það verður að verða stefnubreyting í þeim málum sem fyrst.