07.12.1951
Efri deild: 39. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í C-deild Alþingistíðinda. (3017)

147. mál, vistheimili fyrir drykkjusjúka menn

Frsm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Heilbr.- og félmn. flytur þetta frv., sem er á þskj. 352. N. hefur á þessum vetri venju fremur haft með ýmis mál að gera, sem snerta einmitt þessi efni. N. er það ljóst, að nauðsynlegt er, að eitthvað raunhæft verði aðhafzt í þessum málum. Nú er það svo, að til er fé, sem er ætlað til þess að koma þessum mönnum til hjálpar, og fyrir þá sök er þetta frv. borið fram, að þetta hæli verði sem fyrst stofnað.

Í 1. gr. er gert ráð fyrir því, að skipaður verði sérstakur læknir, sem hafi yfirumsjón þessara mála frá byrjun og framkvæmi þau verkefni, sem þarna mundu jafnframt skapast. Það vakir fyrir n. og væntanlega er skilningur fyrir því á Alþingi að nota þetta fé til þess að hjálpa þeim mönnum, sem illa hafa farið sökum áfengra drykkja. Og þetta frv. nær því aðeins tilgangi sínum, að það nái fram að ganga á þessu þingi.

Ég tel, að það sé óþarfi að vísa þessu máli aftur til nefndar, og vona, að því verði nú að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr., og ég beini þeirri ósk til hæstv. forseta, að hann taki það sem fyrst aftur á dagskrá. (Forseti: Ég mun taka þetta mál fyrir þegar á næsta fundi deildarinnar.)