11.01.1952
Efri deild: 57. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í C-deild Alþingistíðinda. (3035)

152. mál, húsrými fyrir geðsjúkt fólk

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég verð að líta þannig á, að með þessu frv. sé byrjað á öfugum enda, að áður en þetta frv. er samþ., verði að sjá fyrir því, að geðveikrahælið á Kleppi hafi aðstöðu til þess að taka á móti þeim sjúklingum, sem hér um ræðir. Ef þetta frv. er samþ. eins og það liggur fyrir, þá er það ekkert annað en pappírsgagn, ávísun á innstæðu, sem ekki er til, ávísun á húsrými á Kleppi, sem þar er ekki fyrir hendi, og ég tel, að það sé sízt viðeigandi í svona vandasömu máli sem hér um ræðir og viðkvæmu oft og tíðum og ekki sæmandi fyrir Alþ. samþ. slíka löggjöf. Mér er mjög vel kunnugt frá því að ég starfaði að sveitarstjórnarmálum og í rauninni einnig að dómsmálastjórninni, að það er oft og tíðum miklum vandkvæðum bundið að koma slíkum sjúklingum fyrir, og það er vissulega þörf á því, að hafizt væri handa um frekari umbætur í þeim efnum en enn hefur verið ráðizt í. en það tjáir ekki að hafa þann hátt á, sem hér er ráðgert, enda hygg ég, að frv. þetta hafi hvorki verið borið undir landlækni né geðveikralækninn á Kleppi. Nú er ýmislegt um þessa menn að segja. Ég játa það, að ég er ekki alltaf að öllu leyti ánægður með landlækni, en veit, að ýmsir hafa á honum mikið álit. Ég þekki aftur á móti töluvert til starfs geðveikralæknisins á Kleppi og tel hann með mestu afburðamönnum í íslenzkri læknastétt. En Alþ. hefur farið þannig að að afgreiða slíkt mál sem þetta án þess að leita til þeirra starfsmanna, sem hér eiga hlut að máli, landlæknis og geðveikralæknisins á Kleppi, og heyra þeirra álit. Ef þingið telur ekki að marka það, sem þeir segja, þá verður það að hefjast handa um að fá sér þá ráðunauta í þessum efnum, sem það trúir. En það er ekki frambærilegt af Alþ. að ætla að ganga fram hjá heilbrigðisyfirvöldum landsins um að setja slíka löggjöf og leggja þeim slíka skyldu á herðar án þess að leita þeirra álits fyrir fram, auk þess sem segja verður eins og er, að ákaflega sýnist kastað höndunum til samningar þessa frv. Það sýnist vera svo. að sveitarstjórn geti sent hvern sem henni lízt á Klepp, ef hún mannar sig upp til að gera það, taka um það ákvörðun og senda um það símskeyti. Það þarf ekki einu sinni læknisvottorð að liggja fyrir, og þar sem vitað er, að dvalarkostnaður á Kleppi mundi lenda mun léttar á sveitarfélagi en ef séð er fyrir mönnum heima af sveitarsjóði, þá gæti með þessu skapazt óeðlileg freisting fyrir sveitarstjórnir til þess að misbeita því valdi, sem þeim í þessu er fengið. Það er ekki nóg að vitna til þess, að í fyrri málsgr. 1. gr. segir: „og er að dómi héraðslæknis hættulegt umhverfi sínu eða ætla má að fari sér að voða.“ Þar með er ekki sagt, að rétti staðurinn fyrir fólkið að læknisáliti sé, að það eigi að fara á Klepp; það er allt annað atriði, sem þar er um að ræða. En hvað sem einstökum atriðum frv. líður, þá er það höfuðatriði, að hér er byrjað á öfugum enda. Það þýðir ekki að leggja neinu stjórnvaldi á hendur að vinna verk. sem það er ekki fært um að vinna, og á meðan ekki er til húsrými á Kleppi til þess að taka við þessum sjúklingum, þýðir ekki að leggja þá skyldu á hælið að taka við sjúklingum. Þess vegna verður Alþ. fyrst að byrja með því að skapa möguleika til þess að taka við sjúklingum, og þá er hægt að leggja einhverja samsvarandi skyldu eins og hér er ráðgert á hælið til þess að taka að sér það, sem hér um ræðir.

Ég tel því, að af öllum ástæðum eigi þetta frv. að hljóta vandlegri meðferð en það hefur hlotið, og vil eindregið leggja til, að það verði sent landlækni til umsagnar og yfirlækninum á Kleppi, áður en 2. umr. er lokið.