17.01.1952
Efri deild: 60. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í C-deild Alþingistíðinda. (3055)

152. mál, húsrými fyrir geðsjúkt fólk

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það er tvennt, sem mig langar til að benda á í þessu sambandi út af þeim viðskiptum, sem ég hef verið milligöngumaður að viðvíkjandi Kleppi. Ég hef nokkrum sinnum leitað eftir að koma þangað mönnum fyrir hönd sveitarfélaga hingað og þangað um landið. Það hefur gengið misjafnlega vegna þess, að það hefur tvennt komið fram. Annars vegar sú skoðun, sem hæstv. dómsmrh. nefndi, að læknisvottorð yrði að liggja fyrir um sjúklinginn, og hefur það oft ráðið því, að mér hefur ekki tekizt að koma sjúklingum þar inn, og hef ég þá stundum getað komið þeim fyrir á spítölum og gamalmennahælum, t. d. í Stykkishólmi, — en spítalinn þar nýtur svona styrks eins og Kleppur, — á Seyðisfirði, sem hefur stundum og stundum ekki notið styrks eins og það væri geðveikrahæli; í Skjaldarvík, sem aldrei hefur komið undir l. Svona hefur þetta gengið þrátt fyrir það, þó að á Kleppi hafi verið menn, sem að dómi Helga eru allgeðveikir, en gera engum manni mein, en ganga með ýmiss konar ímyndanir. Nú vildi ég biðja menn að athuga það vel, hvort ekki er hægt að útvega þessu fólki pláss í framtíðinni með því að semja við fleiri staði um að taka við því, því að Helgi Tómasson kvartar yfir því, að sér gangi verr að losna við fólk, sem er batnað, heldur en nokkurn mann geti dreymt um. Ég þekki t. d. 3 manneskjur á Kleppi, sem eru það heilbrigðar, að þær fara í bæinn hvenær sem þær vilja, og enginn verður var við, að það fólk sé veikt. Það er einhver minnimáttarkennd í þessu fólki, og það treystir sér ekki til að fara út í lífið á ný og vill helzt vera kyrrt á Kleppi, og Helgi segir: Hvað á ég að gera við þetta fólk, það vill vera? — Með því að hjálpa til að losna við þetta fólk af Kleppi, þá er enginn vafi á, að það skapast mikið rúm þar. — Þetta vildi ég benda á til athugunar fyrir þá, sem koma til með að hafa með þetta mál að gera.