26.10.1951
Sameinað þing: 8. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í D-deild Alþingistíðinda. (3065)

75. mál, viðbótarsamningur við Norður-Atlantshafssamninginn

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér finnst það ekki sitja sérstaklega á þeim þm., sem voru andvígir Atlantshafssamningnum, að ræða þetta sérstaklega. Þó ætla ég að leggja nokkur orð í belg. Með þessari viðbót sýnir Atlantshafssamningurinn betur eðli sitt, að vera samtök þeirra stórvelda, sem kúgað hafa aðrar þjóðir fram að þessu. Þessi stórveldi hafa reynt að skreyta sig með því, að í Evrópu sé lýðræðisstjórn, þó að stjórnarhættir gagnvart þeim löndum, sem þeir undiroka, sé hreint einræði.

En nú á að fara að stíga það spor að taka hrein einræðisríki eins og Grikkland og Tyrkland inn í bandalagið. Það má minna á það til skemmtunar, að það er sama sem verið að innlima Miðjarðarhafið í Atlantshafið og að taka Grikkland og Tyrkland og kalla þau frjálsar þjóðir. Nú er það vitað, að ýmsum, sem voru samþykkir Atlantshafssamningnum, ofbýður sú hræsni að tala um lýðræði og frjálsar þjóðir og taka svo Grikkland upp í bandalag hinna frjálsu þjóða. Þess vegna voru stjórnir Hollands, Danmerkur og Noregs andvígar því að taka þessi ríki upp í Atlantshafsbandalagið. Hins vegar var svo að farið, að stjórnir þessara þjóða voru brotnar hver af annarri, þangað til Danmörk gafst síðast upp. Það þarf ekki að spyrja að því, hverju hafi verið beitt til að kúska þessi ríki. Það er þess vegna ekkert nýtt fyrir okkur, sem vorum andvígir þessum samningi, að þetta skref sé tekið. Ef einhver, sem var samþykkur þessum samningi, hefur álitið, að verið væri að festa lýðræðið í sessi í heiminum, er tími til kominn að spyrna við fótum. Er það meiningin að taka Spán líka upp í bandalagið, áður en tekizt hefur að yfirvinna ógeð frjálsra þjóða á Franco? Á að gera Spán að höfuðverndara lýðræðis í Evrópu? Það ráð er nú tekið, að Bandaríkin gera einkasamning við Franco. — Ég ætla ekki að orðlengja frekar um afstöðu mína til þessa máls, en ég mun greiða atkv. á móti því þegar við þessa umr. Þeir, sem hafa látið flekast til að vera samþykkir þessu, ættu nú að stinga við fótum, þegar þeir sjá, hvert stefnt er með þessum viðbótarsamningi.