17.10.1951
Sameinað þing: 5. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í D-deild Alþingistíðinda. (3075)

25. mál, lánveitingar til íbúðabygginga

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Þessi till., sem hér er fram komin, gengur að vísu í rétta átt, og ber að því leyti að fagna henni. En það, sem er höfuðatriði þessa máls og horfast verður í augu við, er, hvernig á þessari lánsfjárkreppu stendur. Vafasamt er einnig, að ríkisstj. sé færari en Alþ. til að rannsaka orsakir hennar. Hv. 5. þm. Reykv. sagði, að dregið hefði úr möguleikum til lánsfjáröflunar. Ég vil orða þetta dálítið öðruvísi, eða þannig, að dregið hafi verið úr möguleikum til öflunar lánsfjár. Eða er hér á Íslandi frjáls og opinn lánsfjármarkaður? Nei. Lánsfjármarkaðurinn er hér algerlega einokaður af ríkisvaldinu. Það og það eitt ræður, og á þess ábyrgð er, hvort landsmenn hafa aðgang að frjálsum lánsfjármarkaði. En þetta er hlutur, sem á að vera og er alveg á valdi Alþingis, ef samkomulag næst um það innan þingsins sjálfs, hversu miklu lánsfé þegnarnir hafa að skipta á milli sín. Ég álít, að það verði að reka lánsfjárstofnanir áfram af ríkisvaldinu sjálfu samt sem áður, en aðeins á heilbrigðari grundvelli. Hér er ekki verið að ræða um óviðráðanlega hluti. Þetta eru hvorki eldgos né önnur náttúrufyrirbrigði, sem okkur eru óviðráðanleg. Þvert á móti er það, sem við þurfum að gera okkur sérstaklega ljóst, að það er þinginu í sjálfsvald sett að ráða bót á þessu. Þetta ástand hefur verið skipulagt og af ráðnum huga búið til, og það er einmitt Alþ., það erum við þingmenn, sem erum sjálfir valdið, sem getur og á að lækna þessa meinsemd. Það er með þessum tilbúna og skipulagða lánsfjárskorti ekki aðeins verið að hindra sköpun nýrra verðmæta með því að láta ónotað þæði vinnuafl og efni, sem er til, heldur er einnig verið a.ð eyðileggja í stórum stíl verðmæti, sem þegar hafa verið sköpuð, og mun ómetið það tjón, sem leitt hefur verið yfir þjóðina á þennan hátt á tveim síðustu árum.

Ég vil taka það fram, að ég er sammála hv. flm. um það, hvernig ástandið sé í þessum málum, og einnig í því, að skjótra úrbáta sé þörf, en ég er þeim ekki sammála um orsökina til þess, að svona er komið. Ég tel, að þessi átakanlegi lánsfjárskortur sé blátt áfram til kominn viljandi og sjálfrátt af þeim orsökum, að ríkisstj. hefur tekið upp þá stefnu að skapa og skipuleggja lánsfjárkreppu í landinu. Og ég held, að þessi stefna sé tekin upp samkv. fyrirmælum frá Alþjóðabankanum. Kemur þetta m. a. fram í bréfi fjárhagsráðs til allshn. Sþ., en þar segir:

„Fjárhagsráði hefur skilizt, að vegna tilrauna til þess að fá að nota fé úr mótvirðissjóði verði að takmarka árlega fjárfestingu við ákveðið hámark og að það sé fullkomlega skilyrði fyrir því, að leyfi fáist til að nota fé úr mótvirðissjóði. Ef farið væri eftir tillögu þessari, mundi það gera ómögulegt að sýna forráðamönnum mótvirðissjóðs fram á, hver fjárfestingin væri, þar sem takmarkanirnar næðu aðeins til hluta hennar.“

Hér kemur það í ljós, sem er að gerast. Það er það, að bankarnir eru að framkvæma það bann, sem fjárhagsráð treysti sér ekki til að framkvæma. Bannið á m. ö. o. að verða jafnáhrifaríkt, þátt það komi fram sem peningaskortur í bönkunum. En það er á valdi Alþ. að breyta þessu, það er á valdi okkar alþm., ef við aðeins getum orðið sammála um, til hvaða aðgerða eigi að grípa. Og Alþ. hefur áður orðið að grípa inn í afskipti af lánveitingum og það raunar oftar en einu sinni og skipað bankavaldinu fyrir verkum um að veita nauðsynleg lán. Það getur orðið óhjákvæmilegt að grípa til sama ráðs nú, því að það, sem hér er að fara fram, er hreint skipulagt eignarán, og þekki ég ekki neitt sambærilegt við þetta í nágrannalöndum okkar, t. d. í Frakklandi, Englandi eða á Norðurlöndum. Í þessum löndum er þessum málum svo háttað, að ef menn eiga sæmilegar eignir, þá er þeim í sjálfsvald sett, hvort þeir vilja fá lán út á þessar eignir að verulegum hluta andvirðis þeirra. Ástandið hér á Íslandi er þannig, að af 3500 millj. kr. þjóðareign munu bankarnir aðeins lána 1000 millj. og þar af um 400 millj. hjá ríkinu. Afleiðing þessa er sú, að yfir fjölda manna vofir sú hætta, að eignir þeirra verði boðnar upp og seldar bara vegna þess, að öll lánskjör eru hér fyrir neðan allar hellur. Ríkisvaldið er með þessu að ræna alla verkamenn og meginhluta miðstéttarmanna öllum eigum sínum. Er þessi féfletting þannig fyrirbæri, að slíks munu vart nokkur dæmi í heiminum. Og það er vissulega hart fyrir mig að þurfa að viðurkenna það, að það er hæpið, að svona mundi gerast, ef hér væri starfandi prívatbanki. Í augum okkar, sem berjumst fyrir ríkisrekstri, er slíkt hin mesta óhæfa, er hugsazt getur. Tilgangur með ríkisrekstri bankanna er ekki að féfletta fólkið, heldur að hjálpa því til að fá hagstæð og eðlileg lán til þess að eignast þessi hús. Ég fæ ekki betur séð en þetta mál sé orðið svo alvarlegt frá þjóðfélagslegu sjónarmiði séð, að ekki verði hjá því komizt, að Alþ. láti það til sín taka, og er að því leyti samþykkur þáltill. hv. flm., ef aðeins næðist samkomulag um að orða þetta allt öðruvísi og ákveðnar. Hæf lausn þessa máls er ekki undir öðru komin en vilja Alþ., og Alþ. hefur áður gripið í taumana, þegar það vildi tryggja góð lán. — Það er engan veginn tilgangur minn að tefja fyrir þessari þáltill., sem ég álít að gangi í rétta átt, en ég vil leggja áherzlu á að orða hana mun ákveðnar og gera hana þar með líklegri til að koma að gagni.