17.10.1951
Sameinað þing: 5. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í D-deild Alþingistíðinda. (3077)

25. mál, lánveitingar til íbúðabygginga

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs í tilefni af ummælum, sem féllu hjá hv. þm. Ak. og nokkru síðar hjá hv. þm. Vestm. í sambandi við starfsemi lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna varðandi útlán til húsabygginga. Ég hygg, að hv. þm. Ak. hafi orðað það svo, að opinberir embættismenn hefðu sérstöðu í þessum efnum, því að þeir hafi rétt til lána úr lífeyrissjóði, sem væru 50% stofnkostnaðar húsanna, sem þeir byggðu. Hv. þm. Vestm. orðaði það svo, að stjórnarráðsmenn og fleiri hefðu fengið lán með þannig kjörum, að það jafngilti því, að ríkið gæfi þeim 100 þús. kr. (JJós: Miðað við vaxtakjör annarra.) Þetta er byggt á misskilningi hjá hv. þm. Mér þykir leitt, að þeir skuli ekki hafa aflað sér gleggri upplýsinga um þetta efni, því að þær hefðu verið látnar í té, ef þeir hefðu spurt. Mér er ekki kunnugt um, að nokkur ákvæði séu í lögum, sem tryggi opinberum starfsmönnum lán úr lifeyrissjóði. Stjórn sjóðsins getur ákveðið fyrir sitt leyti að gefa þeim, sem eru meðlimir sjóðsins og hafa greitt iðgjöld sín um visst árabil, kost á lánum úr sjóðnum. Samkvæmt lögum um þessi efni mega lánin nema 50 þús. kr. og aldrei meira en 100 þús. kr. Vextir eru 4.5% af 3/4 hlutum og 5% af 1/4 hluta. Lánin eru í tvennu 1agi. Fyrra lánið er til lengri tíma, en seinna lánið til skemmri tíma. Hvernig þetta má þýða 100 þús. kr. gjöf til manna, sem fá 100 þús. kr. lán, það fæ ég ekki skilið, nema hv. þm. hugsi sér, að þeir, sem byggðu fyrir gengislækkun, hafi fengið lánin svo hækkuð, að gróði af því verði 100 þús. kr. En þá er ekki við stjórn sjóðsins að sakast. Ég undraðist hljóðið í hv. þm. Vestm., því að mér skildist á honum, að hann teldi þessa starfsemi sjóðsins ámælisverða. Ég get ekki fallizt á þetta. Ég er þeirrar skoðunar, að ekkert sé eðlilegra en að lífeyrissjóður ávaxti það fé, sem hann tekur við og geymir fyrir meðlimi sína til þeirra elliára, á þann hátt, að hann komi þeim að sem beztum notum. Það er ekki ofmælt, að margir hafa getað komið upp húsum fyrir þessi lán, sem hefðu ekki getað það annars. Ég álít, að þessi starfsemi sjóðsins sé til fyrirmyndar, og ég hygg, að allir eftirlaunasjóðir ávaxti fé sitt á sama hátt, og þeir eru hreint ekki fáir. Ég vildi aðeins bera fram þessar leiðréttingar vegna ummæla, sem féllu hjá þessum tveimur hv. þm.

Um till. sjálfa hef ég það að segja, að hún er spor í rétta átt, en sjálfur hef ég ekki verulega trú á henni hvað viðkemur rannsókn þessara lánveitinga til íbúðarhúsabygginga. Það er sennilega fljótlegt að láta einhverja rannsókn fara fram, en það er sennilega ókleift að gera fullnaðarrannsókn á lánunum og með hvaða kjörum lánin eru veitt. Hjá opinberum stofnunum er auðvitað auðvelt að rannsaka þetta, en hjá einstaklingum er ekki hægt að rannsaka þetta og ómögulegt að vita, með hvaða kjörum lánin eru veitt, því að það er engum vafa bundið, að það er meira greitt fyrir lán, sem fengin eru hjá einstaklingum, heldur en kæmi fram í skjölum, sem lægju frammi til yfirlestrar. — Annars er ánægjulegt, hversu mikill áhugi ríkir hjá öllum flokkum fyrir því að bæta úr íbúðaskortinum og létta almenningi að koma upp húsum yfir sig. Ég ætla, að allir þingflokkar séu sammála um þessa nauðsyn. Sjálfstæðisflokkurinn hefur borið fram till. um að safna skýrslum um það, hver lánaþörfin sé í þessu efni, og óska tillagna hæstv. ríkisstj. Hv. 8. þm. Reykv. hefur komið með till. um að koma upp ódýrum íbúðum og taka til þess fé úr mátvirðissjóði. Sósfl. hefur borið fram till. um 25 þús. kr. lán út á hverja íbúð, sem byggð hefur verið eftir 1947. Þetta er allt góðra gjalda vert, en þetta hrekkur skammt. Alþfl. hefur einnig borið fram till. um þetta efni. Yfirleitt virðast allir flokkar sammála um, að hér sé komið í fullt óefni og full þörf skjótra aðgerða til þess að bæta úr þessu ástandi, sem hér er. En ég hygg, að ekki sé til neins að loka augunum fyrir því, að það, sem næst liggur fyrir að gera, er, eins og hv. þm. Vestm. drap á, að efla í þessu skyni þær lánsstofnanir, sem fyrir eru og bezt hafa reynzt. Það er hrein skömm að því, að aðalfasteignalánsstofnunin í landinu, veðdeild Landsbankans, skuli lána þrettánda til tólfta hluta byggingarkostnaðar húsanna. Þetta greiðir hún í veðdeildarbréfum, sem síðar eru seld — ef það lánast þá að selja þau — með allt að 25–30% afslætti. Það er ekki hægt að gera naprara gys að sjálfum sér en hér er gert. Það fyrsta, sem þarf að gera, er að láta þessa stofnun, sem er sterk og traust stofnun, rækja sitt hlutverk, því að hún rækir nú ekki það hlutverk að lána til íbúðabygginga. Þetta er sannleikurinn um þessa stofnun, og er sjálfsagt að breyta starfsemi hennar. Í upphafi átti hún að lána um 50% af kostnaðarverði þeirrar fasteignar, sem byggja skyldi. Það er nú komið niður í 7–8%. Áður fyrr voru veðdeildarbréfin íslenzku sæmilegur gjaldeyrir og látin sem trygging fyrir lánum og þóttu góð trygging. Það er kannske ekki efnilegt að taka við þeim, þegar annað árið hefur orðið gengislækkun og hitt árið hafa komið ákvæði um bátagjaldeyri. — Önnur lánsstofnun er til, sem hefur starfað hin seinni ár, sem er byggingarsjóður verkamanna. Þó er svo háttað um hann, að gripið hefur verið til þess fjár, sem hann átti að fá, til annarra nota, svo að hann hefur ekki getað starfað nema litið. — Það þarf að láta veðdeildina starfa, því að hún starfar ekki nú, og beina því fé, sem til er í landinu, í rétta átt, þ. e. til byggingarsjóðs verkamanna. Þá gæti hann sinnt því hlutverki, sem hann hefur sinnt undanfarin ár, að sjá sínum meðlimum fyrir lánum til að reisa íbúðir við skaplegu verði. Látum svo aðra, sem betri möguleika hafa til að afla sér fjár með venjulegum hætti, byggja sér hús eins og þeim hentar og þeir geta. — Það er á valdi hæstv. ríkisstj. að bæta úr húsnæðisskortinum, ef hún vill gera það og skilur, hvað við liggur.