05.10.1951
Neðri deild: 4. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í B-deild Alþingistíðinda. (308)

17. mál, varnarsamningur

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Mér finnst rétt að segja nokkur orð um afstöðu Alþfl. til .þessa máls, áður en það verður að l., ekki vegna þess, að Alþfl. sé í andstöðu við stj. í þessu máli. Svo hefur verið um þetta utanríkismál sem flest önnur, að Alþfl. hefur í því átt samleið með ríkisstj., enda þótt flokkurinn sé í mikilli andstöðu við hana varðandi innanlandsmálin. Ég mun aðeins minnast n höfuðatriði, ekki ræða einstök atriði frekar en þingsköp gera ráð fyrir, heldur meginatriði, og gera grein fyrir því, af hverju Alþfl. mælir með því, að þessi samningur verði löggiltur.

Því miður fór svo, að síðustu heimsstyrjöld lauk ekki með þeim Fróðafriði, er menn höfðu vonað, — þvert á móti urðu brátt úfar meiri milli þjóða, og heimurinn skiptist í tvær höfuðdeildir, er víglega létu, sérstaklega þó annar aðilinn. Þetta leiddi til þess, að friðsamar þjóðir töldu nauðsyn bera til þess að snúa bökum saman. Ég tek sem dæmi hin friðelskandi Norðurlönd, sem sáu sér ekki annað fært en að gera varnarráðstafanir. Hið svo kallaða kalda stríð, sem hófst fljótt þegar styrjöldinni lauk, leiddi til þess, að Norður-Atlantshafssamningurinn var gerður, en hann var gerður með það fyrir augum „að taka höndum saman um sameiginlegar varnir og varðveizlu friðar og öryggis“. Þetta var og er tilgangur Atlantshafsbandalagsins. Og einmitt vegna þessa og legu landsins ákvað Alþ., að Ísland gerðist aðili að Atlantshafssamningnum, en með honum tryggðu Íslendingar sér aðstoð, ef ófrið bæri að höndum, jafnframt því sem samningurinn lagði Íslendingum vissar skyldur á herðar. Þegar svo fór, að stríðshættan hjaðnaði ekki, heldur því miður jókst, og jafnvel var uggur um, að styrjöld gæti skollið á, þá var það vitanlegt, að Atlantshafssáttmálinn mundi fá meira innihald en orðin tóm. Atlantshafsríkin hafa gert ýmsar ráðstafanir til þess að verja lönd sín, ef á þau yrði ráðizt. Ég nefndi áðan Norðurlönd, og enginn mun halda því fram, að þar búi stríðsæsingaþjóðir, en þau tóku þátt í Atlantshafssamningnum eða — eins og Svíar — juku mjög landvarnir sínar, og allar hafa þessar þjóðir þurft að leggja hart að sér vegna aukinna landvarna. Af sömu ástæðum sem liggja til grundvallar þessum ráðstöfunum hinna Norðurlandaþjóðanna töldu allir íslenzku lýðræðisflokkarnir sjálfsagt, að Íslandi yrði séð fyrir vörnum og að samningur yrði gerður við Bandaríkin um varnir landsins. Fyrir Ísland var um þrjár leiðir að velja, eða öllu heldur tvær, eftir að Íslendingar höfðu gengið í Atlantshafsbandalagið. Önnur leiðin var sú, að Ísland stæði undir vörnum sínum sjálft og kæmi upp íslenzkum her með eigin fjárframlögum, hin leiðin var að leita aðstoðar og styrks Atlantshafsbandalagsins. Þriðja leiðin, sem ég minntist á, var útilokuð með inngöngu okkar í Atlantshafsbandalagið, en hún var sú að láta skeika að sköpuðu og láta það ráðast, hverjir teldu heppilegast að hafa hér herstöðvar og festa hér fyrst rætur. Um þriðju leiðina þarf því vart að ræða. Þá eru hinar tvær. Af hálfu Alþfl. var vandalítið að velja milli þeirra. Að koma hér upp vörnum af eigin rammleik hefði orðið okkur ofurefli fjárhagslega og litlar líkur verið á því, að þær kæmu að liði, ef í odda skærist. Sú leið var því ekki fær að dómi Alþfl. Þá var hin leiðin, að gerður yrði samningur við eitthvert af ríkjum Atlantshafsbandalagsins. Sú leið var valin og samningur gerður við Bandaríkin. Bar margt til þess. Bandaríkin höfðu haft hér hervarnir áður og þekktu því til staðhátta, auk þess voru þau voldugasta og fjársterkasta ríki Atlantshafsbandalagsins og þess vegna líklegust til að geta varið land okkar. Auk þess var svo, eins og hæstv. utanrrh. sagði, reynsla Íslendinga af samskiptum við Bandaríkin á þá leið, að þau hvöttu til áframhaldandi samvinnu við þetta mikla lýðræðisríki.

Aðrir samningar við Bandaríkin hafa verið til mikilla happa fyrir Íslendinga, og vil ég sérstaklega benda á Marshallsamninginn og þá aðstoð, sem framleiðsla ýmissa landa hefur fengið með láns- og leigukjarasamningum við Bandaríkin, og sýnir það, að Bandaríkin eru tilbúin að nota hið mikla fjármagn sitt til styrktar þeim ríkjum í Vestur-Evrópu, sem þurfa á aðstoð að halda.

Nú liggur fyrir að lögfesta þennan samning við Bandaríkin hér á Alþ. Alþfl. átti þess kost að fylgjast með samningsgerð þessari frá upphafi, og allir þm. hans voru samþykkir því, að þessi samningur væri gerður, enda hefur stjórn Alþfl. samþykkt einróma að standa að samþykkt hans á Alþ. Alþfl. stendur því að þessum samningi og telur sjálfsagt, að hann verði lögfestur á Alþ.

Það er að sjálfsögðu viss fórn og viss óþægindi, sem það hefur í för með sér fyrir fámenna þjóð eins og Íslendinga að hafa her í landi sínu. Af því geta skapazt ýmis vandkvæði, ef ekki er vel á málum haldið. Alþfl. eru ljósar hættur þær, er af hervernd Íslands leiðir. En á sama hátt og þjóðir Vestur-Evrópu og stórþjóð eins og Bretar hika ekki við að leggja hart að sér til þess að treysta varnir landa sinna, á sama hátt munu Íslendingar ekki hika við að taka á sig nokkur óþægindi til að tryggja varnir föðurlandsins. Og þess vegna leggjum við á okkur það, sem aðrar þjóðir verða að gera, að við getum ekki vænzt þess að fá hervarnir án þess að eiga nokkuð á hættu samfara því. Ég vil alls ekki gera lítið úr þeim hættum og þeim óþægindum, sem geta verið í sambandi við þetta. En ég vil vona, að hættur þær og óþægindi bæði stæli íslenzku þjóðina og að hún skilji svo mikið, að hún kunni vel að taka því samneyti, sem óhjákvæmilega hlýtur að verða milli Íslendinga og hins erlenda hers, sem dvelur í landinu um stundarsakir til verndar því. Ég vona, að þau óþægindi verði ekki svo mikil, að þau geri neitt í þá átt að vega upp á móti þeirri öryggistilfinningu og vilja íslenzku þjóðarinnar að vernda frelsi og sjálfstæði sitt gagnvart utanaðkomandi öflum og árásum. Við þurfum ekki að fara í neinar grafgötur um það, að uppi er í heiminum einmitt núna stórveldapólitík í austri, sem nú þegar hefur lagt hramm sinn yfir nokkurn hluta Austur-Evrópu og leitast við að ná þar þeirri hlýðnisaðstöðu, sem unnt er, og segir þjóðunum, að þeim sé hvergi óhætt annars staðar. Við þurfum ekki að óttast, að Vestur-Evrópuríkin og Bandaríkin muni ráðast á Ísland og leggja það undir sig. Ég ætla, að hættan stafi frá öðrum, en það er allt að því kátbroslegt eða e.t.v. hryggilegt, að þessi austræni yfirgangur heimtar hér á landi eins og annars staðar, að löndin séu sem varnarlausust í þeirri baráttu, sem vofir yfir heiminum. Við, sem til þekkjum, skiljum þessa afstöðu, og við munum heyra hana á Alþ. hér innan þessara veggja. En það mun síðar koma á daginn, að Íslendingar munu fyrir sitt leyti gera þær ráðstafanir, sem þörf er á til varnar Íslandi.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri um mál, sem reifað er í fyrsta sinn hér og mun verða rætt samkvæmt þingsköpum við 2. umr. Ég vil lýsa því yfir, að Alþfl. fylgir þessu máli og mun greiða því atkv. hér á Alþ. og telur, að fyrir því liggi rík rök.

Ég get fallizt á, að kosin verði sérstök n. til að fjalla um mál þetta, þar sem engin föst n. er, sem sjálfsagt þykir, að málið fari til.