31.10.1951
Sameinað þing: 9. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í D-deild Alþingistíðinda. (3081)

25. mál, lánveitingar til íbúðabygginga

Frsm. meiri hl. (Jónas Rafnar):

Fjvn. hefur athugað málið, en ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. Meiri hl. leggur til, að till. verði samþ. óbreytt, en minni hl. vill láta vísa henni frá með rökstuddri dagskrá.

Eins og allir vita er húsnæðisskortur nú, sérstaklega í bæjunum, svo mikill, að hiklaust má telja til hinna mestu vandamála, sem nauðsynlegt sé að gera sem fyrst ráðstafanir til að leysa. Forráðamenn bæjarfélaganna hafa veitt aðstoð í þessum efnum, eftir því sem efni og ástæður hafa leyft á hverjum stað. Á stríðsárunum var tiltölulega greiður aðgangur að lánsfé. Sparifjáreign landsmanna var þá meiri og margir sparisjóðir og einstaklingar aflögufærir og vildu lána fé gegn hæfilegum vöxtum. Nú á seinni tímum hefur þetta breytzt. Lánsfjárstofnanir telja sig ekki geta lengur lánað út fé og einstaklingar ekki heldur. Lánsfjárkreppan hefur komið sérstaklega hart niður á þeim sem byrjað hafa á byggingum, en ekki haft bolmagn til að ljúka þeim og standa nú uppi með tvær hendur tómar sökum lánsfjárskorts.

Till. sú, er hér er til síðari umræðu, miðar einkum að tvennu: Í fyrsta lagi, að ríkisstj. láti safna ýtarlegum skýrslum um lánaþörf til íbúðabygginga, og í öðru lagi, að stj. leggi fyrir þingið till. til úrbóta. Fyrir þessu er gerð ýtarleg grein í grg. frv. Meiri hl. telur sjálfsagt og eðlilegt, að ríkisvaldið hafi forustuna um þetta mál til að tryggja raunhæfar aðgerðir, og mælir því með því, að það verði samþ. óbreytt.