17.10.1951
Sameinað þing: 5. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í D-deild Alþingistíðinda. (3103)

31. mál, rannsókn á slysum á togurum og öðrum veiðiskipum

Flm. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Till. þessi, er ég flyt á þskj. 33, um réttarrannsókn á slysum, sem orðið hafa á togurunum, er ekki nýr gestur hér á hv. Alþ. Ég hef flutt hana tvisvar sinnum áður, en því miður hefur Alþ. ekki sýnt skilning á málinu, heldur hefur það í bæði skiptin verið svæft í n. Ég lít samt sem áður svo á, að málið sé svo þýðingarmikið, — þar sem það varðar svo fjölmenna stétt í landinu, sjómannastéttina, og þar sem það er staðreynd, að slys eru næstum daglegur viðburður, að minnsta kosti líður skammt á milli þeirra, — að ég hef ákveðið að flytja málið einu sinni enn og athuga, hvort ekki séu tök á því að fá það afgr.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um till. eða tilefni hennar, það hef ég gert áður, svo að hv. alþm. er málið kunnugt. Þegar ég flutti till. í fyrsta sinn, nefndi ég ákveðin dæmi um slys, sem orðið hefðu á togurum, til þess að sýna, að full þörf væri á því að hefjast handa í þessum efnum. Rétt á eftir kom grein í Morgunblaðinu, þar sem imprað var á því, hvort ekki ætti að höfða mál gegn mér fyrir þau dæmi, sem ég nefndi. Þetta hefur þó ekki verið gert, enda erfitt að hrekja þau dæmi, sem ég nefndi. Í það sinn hlífðist ég þó við því að nefna það dæmið, sem þá var ferskast og kannske hefði verið bezt til þess fallið að rumska við hv. þm., þar sem ég taldi málið þá of viðkvæmt. Dæmið er, þegar botnvörpungurinn Vörður frá Patreksfirði sökk í hafið og fimm menn fórust. Ég hygg, vegna þess hve illa hefur gengið að ná eyrum hv. alþm. í sambandi við þessa till., að rétt sé að rifja upp þetta tilfelli. Það sýnir í fyrsta lagi það kæruleysi, sem fram kemur hjá sumum skipstjórum fyrir lífi og limum sjómanna. Í öðru lagi er það glöggt dæmi um sinnuleysi stjórnarvaldanna að rannsaka þessi mál og sækja þá til sektar, sem sekir eru, og í þriðja lagi ætti þetta dæmi, svo glöggt sem það er, að vekja aukinn skilning hv. þm. fyrir þessum málum, og er ekki sízt þörf á því.

Eins og kunnugt er varð þetta slys 29. jan. 1950, svo að nú eru bráðum tvö ár liðin síðan það átti sér stað. Ég vil taka það fram, að það, sem ég rifja upp í sambandi við þetta slys, er samkvæmt umsögn Morgunblaðsins, er birtist skömmu síðar, 31. janúar, og grein í blaðinu 1. febrúar, er rituð er af hv. þm. Barð. eða samkvæmt heimildum frá honum. Ég vel þessa heimild, þar sem ég geri ráð fyrir því, að margir hv. alþm. muni síður rengja hana en aðrar, og í greininni er að minnsta kosti ekki gengið lengra en ástæða er til í ásökunum gegn skipstjóranum. Það fyrsta, sem vakti athygli mína í frásögn Morgunblaðsins, var, að skipverjar bjuggu allir aftur í skipinu, en lekinn kom upp frammi í, og afturstefni skipsins stóð síðast upp úr sjó. Samt sem áður drukknuðu tveir menn frammi í skipinu, þegar það sökk. Hvers vegna voru þessir menn frammi í skipinu, þegar það sökk, fyrst allar íbúðir skipshafnarinnar voru aftur í? Var þeim haldið þarna við vinnu svo lengi, að þeir gátu ekki átt afturkvæmt? Þetta hefur ekki fengizt upplýst, því þó að rannsókn hafi verið fyrirskipuð og farið fram, hefur ekkert verið um hana birt og óhæfilegur dráttur hefur orðið á því að vísa málinu til dóms að rannsókn lokinni. Þetta vekur hins vegar óhugnanlegan grun um, að hér hafi verið um ógætni að ræða. Það er ástæða til að minna á ýmis önnur atriði. Mönnunum er bjargað yfir í botnvörpunginn Bjarna Ólafsson, sem Vörður náði sambandi við. Samkvæmt frásögn Morgunblaðsins er Bjarni Ólafsson kominn að Verði kl. 2.30 e. h., og þá er talið gott veður; samkvæmt umsögn skipstjórans á Bjarna Ólafssyni er kaldi og sjór nokkuð þungur. Þegar Bjarni Ólafsson kemur á vettvang, er bjart af degi, og eftir lýsingunni að dæma virðast hafa verið möguleikar á því að bjarga öllum mönnunum af Verði yfir í Bjarna Ólafsson. En skipstjórinn á Verði vill ekki björgun strax, heldur virðist treysta því, að skipið muni fljóta og að mönnunum sé óhætt að vera um borð. Þó að Bjarni Ólafsson sé kominn á vettvang, er ekkert gert til þess að bjarga mönnunum, heldur er beðið eftir náttmyrkri og versnandi veðri. Þegar farið er að bjarga mönnunum, er komið svartamyrkur, veðrið, samkvæmt lýsingu skipstjórans á Bjarna Ólafssyni, „það, sem sjómenn kalla vitlaust veður“, og aðstæður þannig, að hvorugum björgunarbátnum er hægt að koma við. Skipstjórinn á Bjarna Ólafssyni lýsir því líka yfir, að horfurnar á því að bjarga mönnunum af Verði hafi verið hverfandi litlar. Vörður var um það bil hálfur í kafi, sjórinn kominn upp í miðja brú, reykháfurinn umflotinn, afturstefnið komið upp úr sjónum, og skrúfan laus við sjó. Fyrst þegar þannig er komið, er farið að reyna að bjarga mönnunum, þó að það hefði verið hægt áður við betri skilyrði. — Þó að þetta dæmi sé ekki almennt, er það vitnisburður um kæruleysi fyrir lífi sjómanna. Það er vitnisburður um, að slíkt kæruleysi getur átt sér stað, og sannar, að full þörf er á rannsókn vegna hinna tíðu slysa á togurunum og að nauðsynlegt er að setja í lög fyrirmæli á grundvelli þeirrar rannsóknar um þunga ábyrgð á hendur þeim, sem sýna kæruleysi fyrir lífi og limum sjómanna. Ég hef viljað nefna þetta dæmi til viðbótar öðrum, sem ég áður hef nefnt, því að ég tel, að það sýni vel, hve sinnulaus stjórnarvöldin eru í þessum efnum. Nú fyrst fyrir skömmu síðan, tveimur árum eftir að slysið varð, hefur málinu verið skotið til sjódóms, og þess vegna hefur enn engin refsing komið fram á hendur þeim mönnum, sem þarna hafa sýnt vítavert ábyrgðarleysi og bera ábyrgð á dauða fimm manna: Slíkt má ekki lengur eiga sér stað.

Rétt eftir að þetta slys varð, var þess minnzt hér á Alþ., og þáverandi forseti Sþ. flutti ræðu um þá, sem drukknuðu. Hann fór að sjálfsögðu um þá hjartnæmum orðum. Það vantar ekki, að sjómönnum sé hrósað á sjómannadaginn, við hátíðleg tækifæri og þegar þeir láta lífið við að afla sér og þjóðinni viðurværis. Hæstv. forseti lauk líka orðum sínum á þá leið, að það væri huggun í sorginni, að þessir menn hefðu farizt, er þeir voru að rækja skyldustörf sín fyrir þjóðfélagið. Mér finnst engin huggun í þeirri staðreynd, að þeir létu lífið, er þeir voru að færa þjóðinni björg í bú. Og þó að það sé fallegt að minnast fallinna manna, álit ég, að Alþ. eigi ekki að láta við það sitja að minnast þeirra með fögrum orðum, heldur eigi það að sjá til þess, að slíkir atburðir sem þessir endurtaki sig ekki. Sómi Alþ. liggur við, að það sinni nú þessu máli og afgr. það endanlega og að gerðar verði þær ráðstafanir, sem talað er um í till., til þess að koma í veg fyrir slys eins og þessi, eða aðrar ráðstafanir, sem að rannsökuðu máli kynnu að teljast heppilegri til þess að draga úr slysahættunni. Ég vil því vænta þess, að málið fái betri undirtektir en áður, og vil svo að endingu leggja til, að því verði vísað til allshn.