24.10.1951
Sameinað þing: 6. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í D-deild Alþingistíðinda. (3108)

31. mál, rannsókn á slysum á togurum og öðrum veiðiskipum

Flm. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Það þýðir lítið að ræða við hv. þm. Barð. Hann tekur ekki rökum, heldur kemur með nýjar fullyrðingar. Nú vill hann halda því fram, að þetta mál sé flutt út af Varðarslysinu. Hvaðan hefur hv. þm. þetta? Ég flutti þessa þáltill. í fyrsta sinn áður en þetta slys varð. Till. var flutt vegna slysa almennt og rannsóknar krafizt og löggjafar á grundvelli hennar til þess að koma í veg fyrir, að þessi slys endurtaki sig.

Þá vildi hv. þm. halda því fram, að um öll þessi slys hefði farið fram réttarrannsókn, því að það væri skilyrði fyrir því, að slysabætur væru greiddar. Heldur hv. þm., að slysa- og dánarbætur séu ekki greiddar án réttarrannsóknar? (GJ: Ekki fyrir sjóslys.) Það má mikið vera, ef Tryggingastofnunin gerir það ekki. Ég held, að þetta sé misskilningur hjá hv. þm.

Hv. þm. mótmælir því líka, að ekkert hafi verið aðhafzt frá kl. 2.30 til kl. 6.30 til þess að bjarga mönnunum á Verði. Ég veit ekki, hvernig hv. þm. ætlar sér að stangast við þessar staðreyndir. Ég hef blað hér við höndina, ef hv. þm. vill sannfæra sig um þetta í stað þess að þrjózkast við og segja, að ég hafi farið rangt með. Heimildina hef ég hér fyrir framan mig. Þá sagði hann, að björgun hefði staðið yfir allan þennan tíma, mennirnir um borð í Verði hefðu verið að reyna að bjarga skipinu. Ég veit ekki, hvaða björgunartilraunir hafa farið fram, eftir að mennirnir gáfust upp við dæluna og austurinn frammi í skipinu, sem hv. þm. talaði um. En því var lokið fyrir þennan tíma samkv. þessari frásögn, sem hér um ræðir, og tveir af mönnunum þegar búnir að láta lífið við það starf. Ég held, að sú lýsing, sem hv. þm. gaf á því út af fyrir sig, hefði átt að gefa skipstjóranum bendingu um, að svo alvarlega væri komið, að réttara væri að hætta við að bjarga skipinu, en reyna heldur að bjarga mönnunum, meðan tækifæri væri til þess, meðan veður var sæmilegt og bjart af degi, en bíða ekki þangað til veðrið stórversnaði, eins og gert var.

Nei, ég held ég hafi ekki, hvorki í framsöguræðu minni né í annan tíma, sagt neitt um of um Varðarslysið eða þessi slys yfirleitt, og það þýðir ekki fyrir þennan hv. þm. né aðra að bera í bætifláka fyrir það, að löggjafarvaldið geri ekki einhverjar tilraunir til þess, að svo miklu leyti sem í þess valdi stendur, að stemma stigu fyrir, að slíkt endurtaki sig hvað eftir annað á íslenzka togaraflotanum. Till. er flutt í þeim tilgangi einum, ef hægt væri að fá fram einhverja slíka samþykkt, sem mætti verða til þess að undirbyggja aðgerðir, sem gætu komið í veg fyrir þetta. — Það var vegna þess, að þm. voru daufir fyrir þessu máli, að ég talaði um Varðarslysið um daginn. Það var ekki gert í þeim tilgangi að ófrægja sérstaklega þann skipstjóra, sem bar ábyrgðina í því tilfelli, heldur til þess að sýna með slíku dæmi, hve þetta mál er alvarlegt í eðli sínu, ef þá mætti ná betur til eyrna hv. þm. en annars. Sá var tilgangurinn með því.