28.11.1951
Sameinað þing: 18. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í D-deild Alþingistíðinda. (3113)

31. mál, rannsókn á slysum á togurum og öðrum veiðiskipum

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þessi þáltill., sem hér um ræðir, hefur nú að vísu legið fyrr fyrir á þingum og þá ekki náð afgreiðslu. En allshn. hefur nú tekið undir till., að vísu ekki nákvæmlega á sama grundvelli og hv. tillögumaður hefur orðað það á þskj. 33, en með sama markmið fyrir augum að því er snertir það gagn, er af slíkum rannsóknum kann að leiða.

Það, sem n. hnýtur um í till. þessari, var orðið „réttarrannsókn“ á þeim slysum, sem orðið hafa á íslenzkum togurum, eins og hv. flm. orðaði það. Það er vitanlegt, að réttarrannsókn fer fram á öllum slíkum slysum og á samkv. lögum að fara fram, þar sem sjópróf er skylt að halda, þegar óhapp ber að höndum, hvers kyns sem er. Og allshn. virtist, að ný réttarrannsókn væri ekki hin rétta aðferð til að ná því takmarki, sem hér um ræðir. Hún gæti kannske orðið til þess, að einhverjir þeir, sem orðið hafa fyrir slysum á sjó, t. d. misst af sér menn eða því um líkt, fengju enn þá meiri raunir að reyna en þeim bæri eftir þeim óhöppum, sem þeir hefðu orðið fyrir, og heldur en þeir þegar hefðu orðið fyrir eftir sjópróf samkv. lögum og úrskurði þar af leiðandi, því að það er vitanlegt og liggur ljóst fyrir, að ef við sjópróf kemur í ljós sérstök vanræksla, óaðgætni, hirðuleysi — eða ég tala nú ekki um ásetningur —, þá er fyrst og fremst því opinbera skylt að hafa afskipti af því máli, og liggur líka opið fyrir hverjum einstökum hlutaðeiganda að láta höfða sérstakt mál út af slíkum atburðum. — Allshn. vildi leggja þann skilning í tilgang hv. flm. þessarar þáltill., að það væri ekki þetta, sem fyrir honum vekti, heldur annað, sem er lofsvert og vel þess vert, að undir það sé tekið, sem sé, að með rannsókn og athugun á ýmsum slíkum slysum og óhöppum séu fengnar niðurstöður og gerðar varúðarráðstafanir, sem fyrirbyggi slík slys í framtíðinni, að svo miklu leyti sem þau verða nokkurn tíma með mannlegum aðgerðum fyrirbyggð. Og undir þessa hugsun og þennan tilgang er allshn. fús að taka, eins og hún hefur lagt til hér í nál. á þskj. 185, er lýsir afstöðu hennar til málsins og þeirra breyt., sem hún vill gera á orðalagi þáltill. En þegar menn fóru að ræða þetta og raunar er það ljóst, þó að það væri ekki rætt — að þegar tilgangurinn er sá, ekki að elta uppi einhvern sérstakan skipstjóra og þyngja hans harma, heldur hitt, að leita að orsökum slysa og gera varúðarráðstafanir, sem fyrirbyggja þau, þá er verksviðið í þessu efni að okkar dómi nokkru meira eða getur verið nokkru meira en aðeins að athuga, hvað fram fer á hinum íslenzka togaraflota. Það er vitað, að því miður verða oft slys á vélbátunum. Og mér er sérstaklega kunnugt um, að við eina veiðiaðferð öðrum fremur eru slys alltíð, sem virðast standa í beinu sambandi við þau veiðarfæri, sem notuð eru, og þær tilfæringar. sem í því sambandi eru um borð í bátunum, þ. e. á hinum svokölluðu dragnótaveiðum. Þar hafa þráfaldlega orðið slys, sem ekki er að vita nema mætti að einhverju leyti fyrirbyggja, þ. e. a. s. fækka þeim með varúðarráðstöfunum, sem þar til skipaðir og góðu viti gæddir sjómenn gætu á bent, varúðarútbúnaði í því skyni að fækka slysum á slíkum bátum. Og hið sama gildir í raun og veru um þau skip, fiskiskipin, sem eru hér við strendur landsins. Það er svo oft, að það er ýmislegt, sem má með litlum tilkostnaði og lítilli breytingu bæta, en dregst úr hömlu að framkvæma það og hlýzt svo verra af.

Ég tel ekki nauðsynlegt að hafa mjög langt mál um þetta. En allshn. er fyllilega samþykk því, að hið opinbera láti þetta mál til sín taka þann veg, er ég nú hef lýst og þó er betur lýst í sjálfu nál., og að þingið skori á hæstv. ríkisstj., að hún fái til þess hæfa menn að kynna sér þau slys, sem orðið hafa á íslenzkum togurum og öðrum veiðiskipum á tilteknu árabili, og leiti eftir því með vitnisburði sannorðra nærstaddra manna, sem þar hafa verið, sem slys hafa orðið, hverjar muni hafa verið orsakir slysanna, og ef þær orsakir eru þannig, að slys hefði mátt fyrirbyggja, þá að gera nauðsynlegar ráðstafanir með reglugerð, — og þá sé stuðzt við löggjöf annarra þjóða um öryggisráðstafanir á sjó — þannig láti ríkisvaldið ekkert eftir liggja, sem það getur af viti gert, til þess að koma í veg fyrir, svo sem unnt er, hin mörgu óhöpp og slys, sem verða nú bæði á togara- og bátaflotanum. Við vitum það, sem erum í þessum sal, af dýrkeyptri reynslu, að það hefur oft — og er ekki langt um liðið síðan — kostað stórar fórnir, að varúðarráðstafanir hafa verið vanræktar af þeim, sem stjórnað hafa. Og slík dæmi eiga að verða til varnaðar og hvatningar um það að hafa vökulla eftirlit með þeim tækjum, hvort sem er viðkomandi skipum eða öðru, sem notuð eru við atvinnuvegi þjóðarinnar, framleiðslu eða samgöngur, og koma í veg fyrir slys svo sem unnt er. Það mun reynast þannig, að þó að miklu sé til þess kostað, að það verður ódýrara fyrir þjóðina, þegar til lengdar lætur, heldur en hitt, að óhöpp hafa á dunið. Það leiðir af sjálfu sér, að við rannsókn á svona atburðum á skipum og bátum þarf að hafa kunnáttu víðs vegar að. Það þarf kunnáttumenn í sjómennsku og kunnáttumenn á vélar og því um líkt til þess að athuga þessi óhöpp, fyrir utan það að hafa lögfræðilega aðstoð, þegar reglur eru samdar. En ég hygg, að drýgst verði mönnum ráð reyndra sjómanna sjálfra, þegar um er að ræða umbætur á skipum eða bátum í þessu augnamiði. Mér dylst ekki, að hér er að ræða um mikið og vandasamt verk. Og þó að það sé ekki tekið fram í brtt. n., að kostnaður við þessa athugun og rannsókn greiðist úr ríkissjóði, þá leiðir það af sjálfu sér, að þetta verður á engan hátt gert kostnaðarlaust. Og ég ætla, að ég mæli það fyrir munn annarra hv. nm. í allshn., er ég kveð svo um, að kostnað við þetta má ekki nema svo við nögl sér, að þessi rannsókn geti ekki farið fram svo ýtarleg sem nauðsynlegt er til þess að leiða, ef unnt er, orsakirnar fyrir slysunum og óhöppunum í ljós og gera skynsamlegar ályktanir og úrbætur. Samkvæmt þessari breytingu á orðalagi till., sem n. leggur til að gerð verði, hlýtur það að leiða ef sjálfu sér, að fyrirsögn hennar eigi bæði við togara og önnur veiðiskip.

Með þessari afgreiðslu frá n. vona ég að höfuðtilgangi flm. sé náð og allra þeirra, sem finna til í þessum efnum, og ég vona, að hún geti orðið til þess að hrinda af stað nokkrum framkvæmdum til að fyrirbyggja öll þau hörmulegu slys, sem orðið hafa bæði til lands og sjávar, og vona, að þannig geti þessi ályktun orðið til blessunar fyrir alla þá, sem við þessi hættulegu störf vinna, og jafnframt fyrir þjóðina í heild.