12.12.1951
Sameinað þing: 23. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í D-deild Alþingistíðinda. (3128)

57. mál, heimilisdráttavélar, prjónavélar og bifreiðar til landbúnaðarþarfa

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Mér finnst nú, að Alþingi sé hér að skipta sér af máli, sem það hefur ekki skipt sér af undanfarið, því að ég skil þessa till. þannig, að með henni sé verið að fela ríkisstj. að gefa frjálsan innflutning á umræddum vélum og sé þar með verið að gefa þau fyrirmæli, að innflutningur á þessum vélum skuli vera frjáls. Þessi háttur hefur yfirleitt ekki verið hafður á, og mér virðist hann óheppilegur, því að það er viðbúið, að á eftir komi margar slíkar þál. um hinar og aðrar vörur, sem ríkisstj. væri falið að gefa frjálsan innflutning á. Hvort hægt er að veita frjálsan innflutning á stórum vörugreinum eins og hér er um að ræða, verður að sjálfsögðu að vera undir nákvæmri athugun komið á því, hvort gjaldeyrisástand landsins leyfi slíkt álag. Þessi frílisti, sem gefinn var út og hefur verið í gildi um nokkurra mánaða skeið, var gefinn út að mjög vel yfirveguðu ráði um val á vörunum, og ef satt skal segja hefur verið lögð áherzla á það, að ekki þurfi að ganga til baka með þennan frílista. En það hefur aftur orðið til þess, að töluvert mikið hefur þurft að halda utan um þær vörur, sem enn eru á bannlista, og hefur þetta því að nokkru bitnað á þeim.

Hv. frsm. málsins gat þess, að jepparnir ættu eingöngu að fara til þeirra manna, sem hafa landbúnað að atvinnu. Ég vil benda hv. þm. á, að það er ákaflega mikil hætta á því, ef þetta næði fram að ganga, að þeir bílar færu til fleiri en þeirra manna einna, sem hafa landbúnað með höndum. Reynslan, sem hefur fengizt um þetta, er ekki góð, en hún er sú, að þegar jeppunum fyrst var úthlutað til búnaðarþarfa, þá fylltust götur Reykjavíkur af þessum jeppum, og fór lítið af þeim til þeirra manna, sem upphaflega fengu leyfin fyrir þeim. Ég bendi á þetta, því að þetta gefur auga leið um það, sem næst gæti átt sér stað.

Ég álít því, að það sé mjög óheppilegt og varhugavert, ef Alþingi fer að gera slíka ályktun sem þessa, sem skuldbindur ríkisstj., án þess að fram hafi farið nokkur athugun á því, hvort hægt sé að gera þetta eða ekki, til þess að gefa heilan vöruflokk frjálsan.

Mér hefði fundizt, að till. ætti að hljóða þannig, að Alþingi skoraði á ríkisstj. að gefa þennan innflutning frjálsan, ef tök yrðu á, en ekki að ákveða að fullu, að svo yrði gert.