12.12.1951
Sameinað þing: 23. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í D-deild Alþingistíðinda. (3130)

57. mál, heimilisdráttavélar, prjónavélar og bifreiðar til landbúnaðarþarfa

Frsm. (Jón Gíslason):

Herra forseti. Mér skildist á hæstv. viðskmrh., að hann teldi eitthvað athugavert við það, að Alþingi vildi leggja orð í belg um það, hvaða vörur væru látnar sitja fyrir um innflutning, meðan innflutningur er takmarkaður. Ég tel sjálfsagt, að þingmenn láti skoðanir sínar í ljós á því, hvaða vörur þeir telji að flytja eigi til landsins fyrst og fremst, og mér er óhætt að segja fyrir nefndarinnar hönd, að þannig leit hún á málið, að það væru bein fyrirmæli til ráðuneytisins að gefa innflutning á dráttarvélum frjálsan.

Mér þætti ekki ólíklegt, að bændur, sem gengju núna um göturnar í Reykjavík og horfðu í búðargluggana fyrir jólin, hugsuðu sem svo, að ekki væri meiri óþarfi að flytja inn dráttarvélar til þess að létta störf bændanna en allt það glingur, sem sjá má í búðargluggunum hér í Reykjavík. Ég tel því eðlilega kröfu bænda að fá þessar vélar eftir þörfum.

Hv. 2. þm. Rang. minntist á það, að fjárhagur bænda mundi skammta þetta og því væri þarna ekki farið út í neina ófæru, því að dráttarvélar væru nú dýrar, þær keyptu því ekki aðrir en þeir menn, sem hafa ráð á því að borga þær og aðstöðu til þess og möguleika til þess að nota þær til framleiðslubóta til stórra muna. Þeirra hluta vegna, sem nú hafa verið sagðir, þá finnst mér það eðlilegt, að Alþingi láti heyra frá sér um þennan innflutning til þess að vinna að aukinni framleiðslu.

Ég lít svo á, að í þessari till. felist skýlaus fyrirmæli um að gefa innflutning á dráttarvélum frjálsan. Um jeppana er öðru máli að gegna. Það fer eftir því, hvort nægur gjaldeyrir verður fyrir hendi. En ríkisstj. verður að setja reglur, sem koma í veg fyrir, að jepparnir fari til annarra manna en þeirra, sem landbúnað stunda. Þetta ber ekki að skilja á annan veg en þann, að ef fjárhagur leyfir, verði þessi heimild notuð.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta.