05.12.1951
Sameinað þing: 22. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í D-deild Alþingistíðinda. (3140)

106. mál, jöfnunarverð á olíum og bensíni

Jón Gíslason:

Herra forseti. Þetta mál er alls ekki nýtt hér á þingi. Ég og hv. þm. V-Húnv. fluttum á þinginu 1949–50 frv. til l. um verðjöfnun á benzíni. Það komst til allshn. og var síðan vísað með rökst. dagskrá til stj. Á þinginu í fyrra fluttu svo fjórir hv. þm., sinn úr hverjum landshluta, till. um verðjöfnun á olíu. Málið fór til allshn., og þar var bætt inn í till. benzíni líka. Enn má rekja sögu málsins til fsp., sem borin var fram í vetur, varðandi framkvæmd þessa máls. Þegar hæstv. viðskmrh. svaraði þeirri fsp., kom í ljós, að hæstv. ríkisstj. hafði ekkert gert í málinu.

Síðan við hv. þm. V-Húnv. fluttum frv. okkar, hefur verið vaxandi áhugi um allt land fyrir þessu máli, og áskoranir um, að verðjöfnun væri komið á, hafa borizt frá fundum hvaðanæva á landinu. En það hefur þó farið þannig, að framkvæmdir stj. hafa orðið litlar, þó að skorað væri á hana að vinna að framgangi málsins. Ég vildi því bera fram þá fsp. til hæstv. viðskmrh., hvort vænta megi aðgerða, ef þessi till. verður samþ., því að verði svör hæstv. ráðh. þau, að þetta verði ekki framkvæmt, þá yrði að setja löggjöf um þetta. — Mér þykir slæmt, að hæstv. ráðh. skuli ekki vera við.