12.12.1951
Sameinað þing: 23. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í D-deild Alþingistíðinda. (3146)

106. mál, jöfnunarverð á olíum og bensíni

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég sé, að hv. allshn. hefur mælt með þessari þáltill., og það lítur út fyrir, að hún hafi fylgi. Ég hef áður minnzt á, að það sé vafasamt, hvort hægt sé að setja jöfnunarverð á olíur og benzín, án þess að komi til þess, að sett verði um það l. Liggur þar auðvitað til grundvallar að það eru einstök samtök, sem flytja inn olíur og benzín. Á þessari vöru er frjáls innflutningur, og er því ekki hægt að synja mönnum um að flytja inn olíur, hvorki einstaklingum né félagssamtökum. Og hv. þm. er það vafalaust ljóst, að það er ágreiningur um þetta mál milli útvegsmanna hér sunnanlands og annars staðar á landinu. Af eðlilegum ástæðum vilja útvegsmenn hér við Faxaflóa halda fram lægra verðinu. Ég skal ekki deila um það, hve mikil sanngirni er í því, en ef hv. Alþ. ákveður jöfnunarverð á olíum, þá verður að framfylgja því, en það verður að gera með l. Það er óvenjulegt af hv. Alþ. að álykta, að ríkisstj. gefi út brbl. um þetta atriði, er mæla svo fyrir. Ég veit ekki, hvort ráðh. mundi telja sér skylt að fara eftir þessari skipun. Það er sjálfsagt rétt og hv. Alþ. innan handar að gefa út l. um þetta efni, sem þá yrði farið eftir og engin deila yrði um.