28.11.1951
Sameinað þing: 18. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í D-deild Alþingistíðinda. (3155)

80. mál, tunnuverksmiðja ríkisins

Jónas Rafnar:

Herra forseti. Ég vildi aðeins þakka hv. n. fyrir skjóta og greiða afgreiðslu á till. minni. N. mælir með orðalagsbreyt. á till., og hef ég út af fyrir sig ekkert við það að athuga. Ég get einnig mælt með viðbótartill. hv. þm. Siglf. Þar sem n. mælir einróma með till., vil ég vænta þess, að hún nái þegar samþykki hæstv. Alþ. og stuðli að því, að tunnusmiði verði stórum aukin frá því, sem verið hefur. — Hv. þm. Siglf. minntist á það áðan, að Akureyrarverksmiðjan hefði að mörgu leyti orðið út undan. Þetta er alls kostar rétt. Þeir aðilar, sem hafa haft stjórn þessara mála, hafa ekki sinnt nægilega hag þessarar verksmiðju, og því er komið sem komið er. Þó má segja, að nokkur stefnubreyting hafi orðið í vetur, þar sem síldarútvegsnefnd hefur fallizt á að verja nú þegar 100 þús. kr. til endurbóta á verksmiðjuhúsinu. En þá er eftir að koma upp tunnugeymslu og auka vélakost verksmiðjunnar. Ég vænti þess eindregið, að síldarútvegsnefnd hefjist handa og að sem fyrst verði ráðin bót á vandkvæðum Akureyrar-verksmiðjunnar.